14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3761 í B-deild Alþingistíðinda. (3172)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Margt mætti um það frv. segja sem hér er til umr. og lánsfjáráætlun hæstv. ríkisstj., en því hafa þegar verið gerð veruleg skil af stjórnarandstöðunni, þar á meðal talsmönnum Alþb. við umr. í Ed. og svo nú í þessari umr. af hv. 3. þm. Reykv. Ég kveð mér hér hljóðs fyrst og fremst til þess að gera einn þátt að nokkru umtalsefni. Það eru orkuframkvæmdir og iðnaðarframkvæmdir eins og þær blasa við af þeim áætlunum sem hér liggja fyrir.

Hv. þm. og í þeirra hópi hæstv. ráðh., sem nú sitja, minnast þess líklega frá umr. liðinna ára, að af þáv. stjórnarandstöðu í tíð síðustu ríkisstj. var að henni vegið allótt og títt vegna þess að þeirra mati, þáv. hv. stjórnarandstæðinga, að ríkisstj. og þáv. iðnrh. væri alveg sérstakur dragbítur á það sem vera skyldi vaxtarbroddur í atvinnulífi landsmanna, orkuframkvæmdirnar og iðnaðarframkvæmdir sem þeim tengjast. Fyrir kosningarnar s. l. vor voru sverðin heldur betur brýnd af þáv. stjórnarandstöðu að þessu leyti, því að sannarlega skyldi nú verða á breyting ef þeir fengju fulltingi til þess að taka við stjórn landsins. Í ljósi þessara orða, sem mælt voru oftar en flest annað hér í tíð fyrrv. ríkisstj. í tengslum við atvinnuþróun í landinu, er fróðlegt að líta á þessa lánsfjáráætlun og lánsfjárlagafrv. núv. hæstv. ríkisstj.

Þar kemur í ljós að í stað þess sem hv. kjósendur þeirra flokka sem styðja hæstv. ríkisstj. væntanlega hafa gert ráð fyrir, að nú yrði sprett úr spori. Í stað þess er nú farið í hina áttina og það býsna rösklega, því að þegar litið er á hlutfall orkuframkvæmda af þjóðartekjum kemur í ljós að þær hafa aldrei minni verið síðan 1963–1964. Það þarf að fara 20 ár aftur í tímann til þess að sjá lægri tölur í sambandi við virkjunarframkvæmdir og aðrar orkuframkvæmdir í landinu, heil 20 ár aftur í tímann. Þetta er nú sóknin mikla á orkusviðinu, sú mikla sókn sem boðuð var fyrir síðustu kosningar.

Það verður kannske fram fært þessu til skýringar að hæstv. núv. ríkisstj. hafi ekki haft ráðrúm til að söðla um og herða á svo mjög þann tíma sem hún hefur setið að völdum. Því er fróðlegt að átta sig á hver eru áformin í þessu efni. Svo vel vill til að inn á borð hv. þm. barst í dag sem fskj. með áliti minni hl. fjh.- og viðskn. þessarar deildar fskj. IX bréf frá iðnrn. þar sem fram kemur svar við fsp. frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og Páll Péturssyni, sem þeir lögðu fram á fundi fjh.- og viðskn. 23. febr. s. l. Fsp. var þannig:

„1. Óskað er eftir samanburði á virkjunarframkvæmdum sem er að finna í 3. gr. frv. til lánsfjárlaga og virkjanaframkvæmda s. l. fimm ár á sambærilegu verðlagi.

2. Óskað er eftir grg., um áform rn. um virkjanir næstu fjögur ár, 1985–1988, ásamt sundurliðun eftir helstu framkvæmdum.“

Svarið er þarna að finna. Það kemur fram að rauntölur áranna 1979–1983 eru öll árin nema 1979 langt yfir einn milljarð króna: Árið 1980 1421 millj., 1981 1561 millj., 1982 1340 millj., 1983 1286 millj. En á þessu ári, 1984, eins og fram kemur í frv. sem hér er til umr., 900 þús. kr. áætlað.

Síðan koma áformin varðandi næstu fjögur ár. Þar stendur:

„Helstu framkvæmdir verða við Kvíslaveitur, Blönduvirkjun, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og undirbúning nýrra virkjana, en næst í röð virkjana er Fljótsdalsvirkjun, skv. ályktun Alþingis. Fjárfestingar án vaxta í þessa liði eru áætlaðar: 1985 1000 millj. kr., 1986 1100 millj. kr., 1987 1100 millj. kr. og 1988 600–1100 millj. kr. (háð byrjun á næstu virkjun).“

Þetta eru svör hæstv. iðnrh. sem hingað eru send fyrir hans hönd af ráðuneytisstjóra iðnrn., dags. 12. mars 1984. Hér kemur fram ekki aðeins sá gífurlegi samdráttur, 37.2%, í raforkuframkvæmdum á þessu ári frá því sem var á síðasta ári, heldur eru áætlanir hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnrh. um að þær verði sem nemur nálægt þriðjungi minni en verið hefur s. l. fjögur ár á komandi fjórum árum. Þetta er tölulega útfærð sóknin mikla á orkusviðinu eins og hún nú blasir við frá hæstv. ríkisstj.

Ég taldi nauðsynlegt að vekja athygli á þessu. Væri hér sannarlega af miklu að taka ef ætti að fara að ræða orkumálin og ekki síður orkunýtinguna, því að þar er ekki af neinu að taka skv. þessari lánsfjáráætlun. Kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði er hér ekki á blaði, en væntanlega yrði heimild til framkvæmda við hana ef Alþingi veitti heimild þar að lútandi, sem mjög er beðið eftir. Enn binda menn væntanlega vonir við þau orð hæstv. forsrh. í stefnuræðu, að framkvæmdir við kísilmálmverksmiðju séu ráðgerðar frá miðju þessu ári, en nú fer að styttast tíminn í þeim efnum ef þær vonir eiga að rætast.

Af meiri háttar framkvæmdum á iðnaðarsviðinu er ekki annað að hafa hér skv. þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun en áframhald við þau fyrirtæki sem grunnur hafði verið lagður að lagalega og byrjað var sumpart á framkvæmdum við á síðasta ári. Það vekur athygli mína í sambandi við iðnfyrirtæki að Landssmiðjan, sem gert var ráð fyrir lánsfjárheimild til upp á 12 millj. kr. á síðasta ári, er hér ekki á blaði með lánveitingar. Einnig kemur fram í texta fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar að almennar iðnaðarframkvæmdir dragist saman um að mig minnir 6% eða rösklega það, þannig að ekki er að sjá vaxtarbroddinn á sviði iðnaðar, hvorki hins almenna né í stærri iðnfyrirtækjum.

Varðandi raforkuframkvæmdirnar og virkjanaframkvæmdirnar þá er Blönduvirkjun þar á blaði, en með lágmarksfjármagn. Það er ein af þeim stórframkvæmdum á sviði orkumálanna sem núv. ríkisstj. hefur frestað. Það hefur um lítið annað verið að ræða en frestanir í virkjana- og raforkuframkvæmdum hjá hæstv. ríkisstj. til þessa. Í fyrra var það Suðurlína sem frestað var og nú liggur fyrir ákvörðun frá hæstv. ríkisstj. um frestun Blönduvirkjunar um a. m. k. eitt ár og á fleiri sviðum er sömu sögu að segja. Kísilmálmverksmiðjan á Reyðarfirði er enn spurningarmerki sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki veitt svar við. Ekki hefur heyrst neitt um ný áform, umfram það sem fram kemur í bráðabirgðasamningi hæstv. iðnrh. við Alusuisse frá síðasta hausti, um stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík, sem ráðgerð er 1987–1988, og framkvæmdir við Kvíslaveitur og Þórisvatnsmiðlun upp á 370 millj. kr. á þessu ári, sem ráðgerðar eru, lúta væntanlega því markmiði að hægt verði að sjá fyrir einhverri orku til stækkunar í Straumsvík þegar þar að kemur.

Það líður nú mjög á marsmánuð og stutt í það að upp renni 1. apríl, en það er sá dagur sem hæstv. iðnrh. miðar við skv. samningi og stefnir að að hafa þá lokið samningum við Alusuisse vegna endurskoðunar á raforkuverði og öðrum þáttum aðalsamnings. Við skulum sjá hvað þeir dagar marsmánaðar sem eftir lifa færa okkur í þeim efnum. Eftir því verður beðið.

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja máls á þessari aðstöðu í sambandi við orkuframkvæmdir og meiri háttar iðnað og leiða rök að því, sem auðsætt er, að orkusóknin mikla, sem boðuð var af talsmönnum núv. hæstv. ríkisstj. á liðnum árum, hefur þegar fjarað út. Ekki sjást þess nein merki eftir þeim gögnum sem fyrir liggja að þar verði hafin gagnsókn í þá átt sem lofað var af þessum talsmönnum fyrir síðustu kosningar.