14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3767 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að virða það samkomulag sem ég hélt að væri komið á með því að taka ekki til máls. A. m. k. reyni ég þá, úr því ég er kominn upp í ræðustólinn, að vera eins stuttorður og ég get. Ég sé ekki á þeim blöðum sem ég hef verið að punkta á í allan dag neinar sérstakar spurningar sem hefur verið beint til mín og ég þarf að svara. Ég hef gengið hér um salinn og ég hef spurt hv. 3. þm. Reykv. hvort ég hafi fengið einhverjar spurningar sem ég þurfi að svara. Hann taldi svo ekki vera, ekki til mín. Aftur á móti ku hv. 3. þm. Reykn. vera með spurningu til mín. Hún hefur þá farið fram hjá mér því að hún er ekki hér punktuð niður.

Í þessum ræðum komu fram nokkrar ádeilur á það fjárlagafrv. sem hefur verið samþykkt. Ég hef sjálfur gert athugasemdir við frv. og upplýst þjóðina um hvernig framtíðin blasir við. Það að þetta fræga gat er nú til umr. bæði hér og í þjóðfélaginu er aðallega til komið vegna þess sem við blasir fram undan í aukafjárveitingum o. fl. sem þarf að gera ráðstafanir til að brúa og finna leiðir út úr áður en við sökkvum þar í fen.

Í sambandi við lánsfjárlögin, sem hér eru á dagskrá, eru þetta ekki annað en fullyrðingar um hvað þau séu slæm, þessi væntanlegu lánsfjárlög. Það sýnist náttúrlega sitt hverjum. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir að menn hafi mismunandi skoðanir á þeim og auðvitað eru þau slæm. Auðvitað hljóta fjárlögin að vera slæm. Við vitum að þetta eru fjárlög sem eru búin til eftir að fram kemur hjá leiðandi stjórnarflokki í fyrrv. ríkisstj. að ekkert annað dugi en 4–5 ára neyðaráætlun, sem allir stjórnmálaflokkar standi saman að til að ráða við þann vanda sem fram undan er. Hvernig búast hv. þm. við því að við getum verið að ræða góð fjárlög á eftir slíku stjórnarfari? Það ætlast áreiðanlega enginn til þess. Þjóðin verður að standa frammi fyrir vandanum, sem þarf að leysa, standa að lausn á vandanum sem blasir við.

Ég fer aftur yfir blaðið, sem ég hef verið að punkta á í dag, og sé þar enga beina spurningu frá hv. 3. þm. Reykn. Og ég held að ég megi fullyrða aftur að þar sé heldur engin bein spurning frá hv. 3. þm. Reykv. Það eru fullyrðingar fram og til baka, sem geta orðið út af fyrir sig langt umræðu- og deiluefni, og ég er alveg tilbúinn að taka þátt í þeirri deilu, en ég hélt að við værum búnir að ná samkomulagi um að hraða afgreiðslu í dag við þessa umr.

Ég vil þó til fróðleiks fyrir hv. 7. landsk. þm. rifja upp það sem kom fram hjá mér í fjárlagaræðunni og varðar Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég gerði þar samanburð við framlög til ýmissa annarra liða í þessu frv. og segi hér, með leyfi forseta:

„Þannig jafngildir 400 millj. kr. framlag til Lánasjóðs ísi. námsmanna jafnhárri fjárhæð og ríkissjóður áætlar að verja samtals á næsta ári til eftirtalinna þátta: Byggðasjóðs, Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Framkvæmdasjóðs fatlaðra, Framkvæmdasjóðs aldraðra, Erfðafjársjóðs, Iðnrekstrarsjóðs, hafnargerðar, framkvæmda á vegum ríkisspítalanna og framkvæmda á flugvöllum.

Því má einnig bæta við til samanburðar, að Háskóli Íslands fær 250 millj. kr. fjárveitingu á meðan gert er ráð fyrir að Lánasjóðurinn fái 400 millj. kr. framlag og 258 millj. kr. að láni.“

Þetta er ekkert lítið fé. Það er alltaf hægt að segja að það vanti meira í alla liði, en þetta er mikið fé fyrir ekki fjölmennara þjóðfélag en okkar. Og það er vanþakklæti þeirra sem fá framlag úr þessum sjóði, það er vanþakklæti til þeirra sem með bognum bökum þurfa að vinna fyrir þessu fé til framlaga.

Ég segi þetta með það í huga að það var ekkert sem hét Lánasjóður námsmanna þegar ég var að berjast hér áfram. Þetta er viðbót, sem þjóðfélaginu er að verða ansi þungur baggi. En það er ekki þar með sagt að hann sé ekki réttlætanlegur að einhverju marki.

Ég vil beina því til hv. 3. þm. Reykn. að endurtaka þá spurningu sem hann hafði til mín svo að ég geti fullnægt óskum hans áður en þessari umr. lýkur.