14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3770 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef hlýtt á allar þessar umr. í dag og mér þykir nú að menn gerist óþarflega typpilsinna þegar þeir finna að því að maður kýs kannske endrum og sinnum að hlýða á mál þeirra hér í bakherbergjum, og hefur yfirleitt ekki verið að því fundið. Það er ný regla ef það eru rétt þingskapalög að ræðumenn eigi í hvert skipti kröfu á því að kalla menn hér til að hlýða á mál sitt. Þeir eiga auðvitað kröfu á því þegar um málaflokk er að tefla sem snýr að viðkomandi ráðh. Þessi snýr að vísu að fjmrh., en er að því leyti sér í sniðum að ýmsir þættir hans snúa að miklu fleiri ráðh. Þess vegna er eðlilegt að þeir séu við og fylgist með umr. En allar kröfur um að smala mönnum til og frá eftir geðþótta ræðumanna er auðvitað, eins og ég segi, óþarfa tilfyndni.

Ég fékk enga spurningu frá hv. 3. þm. Reykn., talsmanni Alþfl. Sömuleiðis beindi hv. 5. þm. Austurl. engum spurningum til mín. En hann ræddi málin og ég hefði gjarnan kosið að ræða þau við hann, en ég mun að mínu leyti reyna að gera tilraun til að draga eitthvað af samkomulagi þingflokksformannanna að landi, ef þess er kostur, og stytta þess vegna mál mitt.

Auðvitað er aðalskýringin á því að ekki er hægt að leggja stærra undir í fjárfestingum þrotabúsástæðurnar sem ég tók við af hv. þm. Framtíðarspáin um fjárfestingar er auðvitað háð öllum fyrirvörum um markaðsástæður og það getur vel verið að við verðum að stórauka þetta og margfalda.

Hv. 3. landsk. þm., sem ekki beindi heldur neinum fsp. til mín, talaði, ef ég heyrði rétt, um að ausa fé í gin stórvirkjana. Er það rétt munað? (GA: Hið sísoltna.) Já, einmitt. Það var svona. Hið sísoltna gin, einmitt, þetta er enn rösklegar orðað, svo að ég hef farið nokkurn veginn rétt með. Hv. 7. landsk. þm. beindi engum fsp. til mín.

Hv. 4. landsk. þm. beindi engum fsp. til mín, en hann orðfærði skiptingu framkvæmdafjár til orkuframkvæmda og taldi miður farið að horfið hefði verið frá nákvæmari skiptingu. Ég vil benda á, og það er ekki von að hv. þm. þekki það, að á umliðnum árum hefur þessum lið ekkert verið skipt. Það er ekki þar fyrir að við þær upplýsingar sem gefnar höfðu verið á að miða, en lög eru lög og það væru engin ráð ef þyrfti að bregða, þó að væri að óverulegu leyti, út af þessari skiptingu, þá væru engin ráð önnur en að leita til Alþingis á nýjan leik. Þess vegna eru þessir liðir sameinaðir til þess að það sé þá kostur á, ef nauðsyn ber til og eitthvað hindrar viðkomandi framkvæmd, að mönnum leyfist þá að færa milli liða. Það er ekki ætlunin að það verði að neinu marki og helst að haldið verði við þá skiptingu sem gefin var. En þetta er skýringin í þessu dæmi.

Ég gat um það í umr. um fjárlög að mér kom mjög í opna skjöldu, að ekki sé meira sagt, að til sjóefnavinnslunnar skyldi ekki vera ætlað það fé sem til þurfti til að borga vexti og afborganir. Sú upphæð sem nú er hér gert ráð fyrir er einvörðungu til þess arna. Ég álít það mistök og ég hirði ekkert um að rekja hvernig á því stendur. En upprunalega till. um afgreiðslu málsins var ekki þann veg úr garði gerð af minni hálfu.

Þrem spurningum var beint til mín frá hv. 3. þm. Reykv. Fyrsta var um hversu miklum fjármunum yrði varið til Fljótsdalsvirkjunar í ár. Þetta er spurning sem hann ekki má spyrja af því að hv. 2. þm. Austurl. á skriflega fsp. í Sþ. um þetta mál nákvæmlega svona orðaða. Ég var reiðubúinn að svara henni í gær, en var hindraður í að komast að með svar vegna málþófs sem haldið var uppi, óþinglegs málþófs. Hv. 2. þm. Austurl. á ekki einu sinni sæti í þessari hv. deild og fyrir því er það að ég tel ekki eðlilegt að ég svari þessari spurningu. En ég mun gera það í næsta fyrirspurnatíma hins háa Alþingis. Ég er með svarið hérna. (SvG: Við hlustum á það þegar þar að kemur.)

Hv. 3. þm. Reykv. spurði um skipasmíðavandann. Frá því er að segja að ég hef áður upplýst að unnið væri að úrlausn hans. Ég skipaði nefnd mér til ráðuneytis í málinu í ágústmánuði s. l. Hún hefur unnið gott verk. Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu aðallega að verkefnum skipasmíðastöðvanna yrði beint að viðhaldi flotans, sem er mjög ábótavant. Til þess ætla menn að þurfi í það minnsta 150 millj. kr. Þessi mál eru öll til umr. hjá ríkisstj. og ég vænti þess að hinu háa Alþingi verði gerð grein fyrir niðurstöðum hið fyrsta.

Ég er enn fremur þeirrar skoðunar að það sé allt of einstrengingsleg stefna að gefa ekki skipasmíðastöðvum kost á nýbyggingum. Það blasir við okkur mikil endurnýjun á flotanum innan tveggja ára og endurnýjun sem íslenskar skipasmíðastöðvar eru í engum færum um að anna, þannig að það þarf enga spásagnargáfu til að segja fyrir um að innflutningur skipa verður hafinn á nýjan leik, hvað þá ef menn halda á málum með þeim hætti að skipasmíðastöðvarnar fái ekki verkefni og missa starfsfólk sitt og hinn þjálfaða mannskap. Það er skammsýni. Menn eru þar að henda krónunni og hirða eyrinn. Það skyldu menn allra helst varast, þó að þrengingatímar séu, að vinna þannig til óhagræðis sér upp á framtíð.

Um Vélsmiðju Seyðisfjarðar er frá því að segja að það var hugmyndin að bæta einu skipi við hið svokallaða raðsmíðaverkefni. Þau voru tvö á Akureyri, eitt á Akranesi og eitt í Stálvík. Frá því var horfið, heldur var þetta tekið inn í sérlið svo að allir fengju að sjá hvað þarna var á ferðinni. Að því leyti er þetta verkefni öðruvísi úr garði gert einnegin en raðsmíðaverkefnin að þarna er það kaupandi, kaupandi sem viðskiptabanki mat gildan, í Grindavík. Fyrir því var það vegna ástæðna í Fiskveiðasjóði og ákvörðunar þess sjóðs um að hafna öllum umsóknum að tekin var þessi ákvörðun um fjármögnun þessa verkefnis. Er enda einn þátturinn í því að missa ekki niður starfrækslu þessarar lífsnauðsynlegu iðju sem skipasmíðin er.

Ég hefði þurft að fara ýmsum orðum um þá stefnu sem rekin hefur verið af hálfu Fiskveiðasjóðs í fleiri efnum en nú gefst tækifæri til og tími, en um aðrar stöðvar vísa ég til þess sem ég áður hef sagt.

Herra forseti. Ég verð að vænta þess eins og þessar sakir standa, að hv. fyrirspyrjendur og stjórnarandstæðingar, hv. þm., láti sér nægja að þessu sinni það sem ég nú hef sagt, en ég mun þá, ef frekar verður innt eftir málavöxtum í þeim efnum sem að mér snúa, að sjálfsögðu vera reiðubúinn við 3. umr. til frekari útlistunar málsins, og kann enda að verða að ég bregði á það ráð að ræða þessi mál almennar en nú hefur gefist kostur á.