14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3772 í B-deild Alþingistíðinda. (3184)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær tilraunir til svara sem þeir hafa gert. Þau hafa verið eftir atvikum skýr miðað við þann þrönga tíma sem okkur er skammtaður núna til að ljúka 2. umr. um þetta mál, en tóm gefst til frekari umr. á mánudag þegar 3. umr. fer fram. Ég hafði skilið það svo, að gert væri ráð fyrir að 3. umr. færi fram hér í deild á mánudag og sömuleiðis sú aukaumr. í Ed. sem fram þarf að fara til þess að málið nái afgreiðslu á þeim sólarhring, þannig að ég orði það samkomulag sem um hefur verið talað eins og ég hef skilið það, og ég vona að það fari ekkert milli mála.

Ég ætla ekki, af þeim ástæðum að tímaskortur hamlar, að fara að eiga orðastað við hæstv. fjmrh. um pólitískt pex af almennu tagi, sem hann upphóf áðan, né heldur við hæstv. iðnrh., heldur ætla ég að reyna að greiða fyrir þingstörfum sem mest má vegna þess að stjórnin hefur óskað eftir því að það verði reynt að flýta málum. Þess vegna mun ég fara fyrst og fremst yfir þau efnisatriði sem um var rætt og víkja fyrst að húsnæðismálunum. .

Hæstv. félmrh. svaraði þeim þáttum eins og hann gat. Hann heldur áfram að hamra á þessu með 50% hækkunina, sem var borguð með því að stækka gatið á ríkissjóði. Út af fyrir sig er það sem þar er um að ræða ávinningur fyrir þá húsbyggjendur sem geta byggt. En hæstv. félmrh. er búinn að fara svo illa með lífskjörin í landinu að þeir eru stöðugt færri sem geta byggt, þannig að það eru færri og færri sem geta spurt um þau lán sem hæstv. félmrh. býður upp á eins og sakir standa nú.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi í ræðu sinni áðan að það væri vafamál með skyldusparnaðinn. Hann komst þannig að orði: Það er alveg rétt að það er meiningarmunur um hvort skyldusparnaðurinn skilar sér. — Þannig viðurkennir hæstv. félmrh. eitt atriði á dag. 8. mars, þegar um þetta var rætt, viðurkenndi hann vanda Atvinnuleysistryggingasjóðs. Nú er hann kominn með skyldusparnaðinn. Þannig eykst honum skilningur með hverjum deginum sem líður og þeim mun oftar sem þessi mál eru rædd og ber auðvitað að þakka það.

Hann endurtók það í öðru lagi að ríkið væri ábyrgt fyrir Atvinnuleysistryggingasjóði og ríkissjóður. Það er athyglisvert og ég dreg það ekkert í efa. Ég vil láta það koma fram að ég tel það sé alveg afdráttarlaust í lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð, en ég hef enga pappíra séð frá fjmrn. um að þeir líti svo á að það sé viðurkennd skylda þeirra að svara þessum peningum út. Og það er ekki gert ráð fyrir þessum 115 millj. í greiðsluáætlunum ríkissjóðs enn þá, a. m. k. ekki til byggingarsjóðanna, að ég best veit.

Varðandi þau atriði sem snúa að lífeyrissjóðunum endurtek ég að ég tel að spáin um 525 millj. sé ákaflega bjartsýn. Við skulum ræða þessi mál ekki bara nú heldur líka síðar og athuga hver niðurstaðan verður. Ég óska félmrh. góðs árangurs í þessu efni, en ég hefði talið að óvarlegt væri að miða þarna við miklu hærri tölu en 400 millj. Ég segi það m. a. af þeirri þekkingu sem ég þykist hafa á þessum málaflokki.

Í fjórða lagi sagði hæstv. ráðh. að rangt væri að það væri miðað við 750 íbúðir hjá Byggingarsjóði ríkisins. Það er út af fyrir sig vafalaust þannig að húsnæðisstjórnin hefur ekki gert neina nýja samþykkt, vegna þess að hún hefur ekki gengið frá lánsáætluninni fyrir árið 1984. Hins vegar vitum við að stofnunin er núna að velta því fyrir sér hvernig hún ræður við þann fjárhagsvanda sem hæstv. félmrh. og stofnunin búa við. Hefur m. a. komið upp sú hugmynd að skera niður nýbyggingarlánin að verulegu leyti á síðari hluta ársins 1984. Einhvern veginn verða menn að svara þessum vanda og þá dugir auðvitað ekki að hrista hausinn og segja: Þetta hlýtur að bjargast. Mér finnst eðlilegt að menn velti öllu mögulegu fyrir sér í þessari stöðu, en ég vona að það takist að koma í veg fyrir þann mikla niðurskurð á lánum sem þarna er verið að tala um.

Ég skildi ekki alveg það sem hæstv. félmrh. sagði hér um G-lánin. Við getum vonandi rætt það nánar við 3. umr. og áttað okkur betur á hvað þar er á ferðinni.

En það er ljóst að hæstv. ráðh. er betur og betur að átta sig á þeim vanda sem byggingarsjóðirnir eiga við að glíma. Hann viðurkennir þann vanda meir og meir og tekur undir okkar sjónarmið, að þarna þurfi að fara að með gát. Ég vona að hann taki líka stuðningsyfirlýsingum stjórnarandstöðunnar í þessu efni með þökkum í glímu sinni við ríkisstj. og hæstv. fjmrh.

Hæstv. iðnrh. þakka ég fyrir þau svör sem hann hér veitti, sem voru eftir atvikum skýr. Ég fellst alveg á það sjónarmið að fsp. um Fljótsdalsvirkjun verði geymd þangað til í næsta fsp.-tíma.

Varðandi skipasmíðarnar, þá var það alveg skýrt hvað var átt við. Hann var að tala um að bæta 150 millj. kr. við þær erlendu lántökur sem nú er verið að tala um að séu komnar fram úr öllu hófi. Ég gleymdi að nefna þetta lán áðan þegar ég var að telja þessar 150 millj. kr. upp í ræðu minni fyrr í dag, þannig að hér bætist enn við hugmyndir ríkisstj. um erlendar lántökur frá því sem verið hefur. En ég vil láta koma hér fram að ég fagna þeim viðhorfum og þeirri viðhorfsbreytingu sem kom fram hjá hæstv. iðnrh. varðandi nýsmíðar hér í landinu og skipasmíðaiðnaðinn frá því að hann skrifaði bréfið sæla sem bannaði nýsmíði fiskiskipa á árinu 1984 og liggur fyrir hjá skipasmíðastöðvunum, þar sem óskað er eftir því að ekki verði um að ræða neina nýsmíði.

Skýringar hans á Vélsmiðju Seyðisfjarðar voru að mínu mati fullnægjandi, a. m. k. miðað við það sem ég hafði farið fram á.

Þannig hef ég farið yfir þau mál sem mér sýnist að hafi hér verið rædd. Hins vegar, og um það skal ég ekki hafa mörg orð, eru umr. af þessu tagi væntanlega ekki bara fsp. og svör. Eiga ekki umr. að vera skoðanaskipti og að menn prófi rök hvers annars við rök annarra og sjónarmið? Til þess gefst okkur oft mjög lítill tími. Mér finnst þess vegna að kannske sé dálítið hæpið að setja málið þannig upp, eins og hæstv. fjmrh. gerði áðan, að fyrst engum fsp. var beint til hans þurfi hann engu að svara eða ekkert um málið að segja. Við erum einfaldlega ekki í fsp.-tíma, heldur í umr.-tíma um þetta mál. Mér finnst því að þarna hafi komið fram frá hæstv. ráðherrum nokkur misskilningur í þessu efni, að stjórnarandstaðan þurfi nánast að vera með niðurskrifaðar fsp. handa þeim til þess að þeir telji það ómaksins vert að stíga í stólinn. — En að öðru leyti endurtek ég þakkir mínar fyrir þau svör sem þegar liggja fyrir.