31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir ótvíræð svör við þeirri spurningu hvort ríkisstj. öll stæði á bak við þessa ákvörðun og hef enga ástæðu til annars en að trúa hæstv. ráðh. En mér sýnist eftirtektarvert, að til varnar þessu af hálfu hæstv. ríkisstj. er enginn hæstv. ráðh. Sjálfstfl. fram sendur, heldur núv. hv. skrifari, sem oft og tíðum hefur ekki þótt í þeim herbúðum neitt æskilegur málsvari þeirra ákvarðana sem þar hafa verið teknar. (Gripið fram í: Varaformaður þingfl.) Mér finnst augljóst að það er alveg með endemum hvað hæstv. ráðh. Framsfl. tekst að teyma — mér liggur við að segja á asnaeyrum — hæstv. ráðh. Sjálfstfl. og Sjálfstfl. sem heild, hafi þeir fengið sjálfstæðismenn til að samþykkja slíka málsmeðferð, eins og hér er um rætt.

Að því er það varðar sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði, þá sýnist mér augljóst, eigi að fara að hans röksemdafærslu, að hver einasti þm. yrði í hvert skipti sem hann hyggst flytja frv. til laga um aukna hlutdeild ríkisins, bankanna, Framkvæmdastofnunar ríkisins eða einhvers álíka fyrirtækis, að auglýsa í Ríkisútvarpinu eftir því hverjir vildu gjarnan eiga hlut að því máli sem væri um að ræða. Auðvitað er slík málsmeðferð hreint rugl og ekki sæmandi þó jafngreindum þm. og hv. þm. Halldór Blöndal ætti að vera.