15.03.1984
Sameinað þing: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3779 í B-deild Alþingistíðinda. (3202)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er til umr. mikilsvert mál sem varðar könnun hins háa raforkuverðs til almennings á Íslandi. Mælt hefur verið fyrir nál. sem að standa fulltrúar allra þingflokka í hv. allshn. nema fulltrúar Sjálfstfl. sem hafa verið fjarverandi við afgreiðslu málsins. (Gripið fram í: Sjálfstfl. stendur að þessu, Siggeir Björnsson.) Siggeir Björnsson, já, hann stendur einnig að þessu, varamaður sem hefur verið hér inni, en tveir fulltrúar Sjálfstfl. voru fjarverandi að því er frsm. n. greindi frá.

Síðan flytur hæstv. iðnrh. hér dagskrártill. um að vísa þessu máli frá og hefur fært sem rök fyrir því að unnið sé að úttekt þessa máls á vegum nefndar sem hann hefur skipað eða ætli að skipa og auk þess liggi fyrir úttektir frá síðasta ári. Ég vefengi það ekki að ýmsir þættir þessara mála hafa verið til athugunar á fyrri tíma og þekki það raunar frá þeim tíma sem ég starfaði sem iðnrh. Fyrir utan það, sem hæstv. ráðh. nefndi sem úttektir á síðasta ári, vil ég minna á sérstaka viðamikla athugun, sem fram fór á árinu 1981–1982, á verðlagningu raforku til Íslenska álfélagsins og að stóðu fjórir þekktir sérfróðir aðilar, m. a. frá Orkustofnun, Landsvirkjun og Rafmagnsveitum ríkisins auk iðnrn., sem skiluðu gildu áliti sem alþm. fengu í hendur haustið 1982.

Samt er það svo að þrátt fyrir þær athuganir, sem þegar liggja fyrir og standa yfir á einstökum þáttum þessara mála, tel ég engin rök fyrir því að hafna því að fela ríkisstj. að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að kanna gaumgæfilega orsakir verðmyndunar á raforku til almennings og atvinnurekstrar hérlendis. Því að nauðsynlegt er að slík athugun taki til allra þátta málsins og einstakir þættir verði ekki teknir út úr samhengi og slík könnun verði á alla lund unnin á sambærilegum forsendum. Þrátt fyrir það að unnið er að þessum málum á vegum iðnrn., sem ég geri ekkert lítið úr, og stofnana á þess vegum og hafi verið unnið tel ég að fengur sé að því fyrir hv. Alþingi að fá slíka úttekt fyrir næsta þing um jafn mikilsvert mál og hér er um að ræða.

Hæstv. ráðh. færði það máli sínu til stuðnings að ekki væri tilgreint í till. hvernig velja ætti hina umræddu óháðu sérfræðinga og taldi að leita þyrfti til erlendra aðila þar að lútandi þar sem enginn Íslendingur gæti talist óháður í þessu máli. Mér fannst býsna langsótt að telja að mál liggi þannig. Annað atriði sem hæstv. ráðh. nefndi var kostnaðurinn sem ekki væri kveðið á um hver standa skyldi skil á. Það tel ég einnig vera léttvæga athugasemd af hálfu hæstv. ráðh. því að augljóst verður að telja að Alþingi sé reiðubúið að standa undir kostnaði eða sjá til þess að hann verði greiddur af störfum sem þessum, sem það felur framkvæmdavaldinu að vinna. Ég tel að við athugun máls á vegum hv. allshn. hafi það komið fram í álitum sem bárust nefndinni. Eitt slíkt hef ég undir hendi frá Rafmagnsveitum ríkisins dags. 16. des. 1983, stílað til allshn. Þar er sterklega tekið undir þörfina á athugun sem þessari og ég sé ástæðu til þess, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp niðurlag álitsgerðar Rafmagnsveitna ríkisins um þetta efni því að hún varpar nokkru ljósi á viðhorf frá því fyrirtæki sem sér dreifbýlinu sérstaklega fyrir raforku, fyrst og fremst í smásölu. Þar segir:

„Þrátt fyrir mikil og dýr flutnings- og dreifikerfi Rafmagnsveitna ríkisins, sem teygja sig um land allt að undanskildum Vestfjörðum, er það orkuöflunarkostnaðurinn sem er ráðandi kostnaður við öflun, flutning og dreifingu raforkunnar. Á þeim árum þegar Rafmagnsveiturnar bjuggu við óhagkvæma orkuöflun með dísilvélum og smáum vatnsaflsvélum var varla við öðru að búast. Á árinu 1982 voru aðeins framleiddar 3 gwst. með olíurafstöðvum og er því orsakanna núna að leita annars staðar. Gífurlegar hækkanir á raforku frá Landsvirkjun á undanförnum misserum vega hér þungt.

Rafmagnsveitur ríkisins telja að þessar hækkanir Landsvirkjunar umfram verðbólgu séu tilkomnar vegna: 1. Rangrar verðlagsstefnu stjórnvalda á undanförnum áratug. 2. Of lágs verðs til stóriðjufyrirtækja.

Um fyrri þáttinn er fjallað í málslið 2, en varðandi seinni þáttinn er rétt að draga fram eftirfarandi staðreyndir varðandi sölu Landsvirkjunar til stóriðju og almenningsveitna miðað við verðið eins og það var 8. nóv. 1983.“

Fylgir síðan tafla sem hefur að geyma þessi efnisatriði: Íslenska álfélagið hf., verð í kr. á kwst. 0.267, keypt magn 1982 í gwst. 1.315. Áburðarverksmiðja ríkisins, verð 0.267, keypt magn 119 gwst. Íslenska járnblendifélagið hf., verð 0.203, keypt magn 402 gwst. Almenningsveitur, verð 1.171 eyrir og keypt magn í gwst. 1.105. Gerð er sú athugasemd neðanmáls við þennan lið að hér er miðað við kaup á 132 kw. málmspennu og 2000 stunda nýtingartíma. Til samanburðar skal þess getið að kostnaðarverð frá nýjum virkjunum er talið vera 0.40 — 0.50 kr. á kwst. skv. upplýsingum frá Landsvirkjun.

Þrátt fyrir að bætt sé við kostnaðinn vegna 220 kw. og 132 kw. stofnlínukerfa Landsvirkjunar er ljóst að verð til almenningsveitna er nær tvöfalt miðað við kostnaðarverð raforkunnar. Á sama tíma greiðir stóriðjan einungis helming kostnaðarverðsins og varla það. Þetta segir í álitsgerð Rafmagnsveitnanna og þær ljúka þessari samantekt þannig:

„Vegna hins háa orkuöflunarverðs þykir Rafmagnsveitum ríkisins einsýnt að þær beri skarðan hlut frá borði við skiptingu tekna af raforkusölu eins og dæmið um rafhitunarsöluna hér að framan sýnir svo glögglega. Rafmagnsveitur ríkisins styðja það því eindregið að skipuð verði nefnd óháðra sérfræðinga til að kanna gaumgæfilega orsakir hins háa raforkuverðs til almennings hér á landi“.

Ég tel að sá rökstuðningur sem hér kemur fram sé mjög athyglisverður — þó að þau atriði sem þar koma fram séu engin ný sannindi fyrir mig — og hann renni einnig styrkum stoðum undir það að úttekt af því tagi fari fram sem lagt er til í till. frá allshn.

Ég ætta ekki að dvelja frekar við þetta. Ég vænti þess að þessi till. verði samþykkt og úttekt þessi fari fram og hæstv. ráðh. og ríkisstj. sjái til þess að finna valinkunna og óháða sérfróða aðila til að vinna þetta verkefni.

Ég vil hins vegar nota hér tækifæri til þess að víkja aðeins að einum þætti sem snertir raforkuverðið og mjög hefur borið á góma í umr. á þessu þingi og undanförnum þingum, þ. e. húshitunarkostnaðinn eins og hann hefur þróast á undanförnum árum. Það mál var til umr. ítrekað fyrir jólahlé Alþingis, m. a. við afgreiðslu fjárlaga. Þar ræddi hv. 11. landsk. þm. Egill Jónsson þetta mál m. a. og sagði við það tækifæri, með leyfi hæstv. forseta við umr. í Sþ. 19. des. um fjárlög 1984:

„Það er hins vegar athyglisvert og ég hjó alveg sérstaklega eftir því í till. þm., að þar gerir hann ráð fyrir að sem viðmiðun við kostnað við upphitun á meðalíbúð verði haft til hliðsjónar 6 vikna kaup verkamanns. Þessi tala virðist ekki tekin af neinni tilviljun. Þegar tekið er meðaltal áranna fyrir embættistímabil Hjörleifs Guttormssonar var kostnaðurinn þessi. Þá tók það verkamann um sex og hálfa viku að vinna fyrir ársreikningi til húsahitunar. Á valdaferli Hjörleifs Guttormssonar þrefaldaðist þessi tala. Hún fór úr sex vikum og upp í rúmar átján vikur. Ég hygg að hvergi sé hægt að finna jafnskýra mynd af árangri af störfum eins ráðh. og þá sérstaklega þessa ráðh. og með þessum einfalda hætti að orkuverð til húsahitunar hækkar eins og þarna kemur fram á fimm árum.“

Þetta læt ég nægja sem tilvitnun í mál hv. 11. landsk. þm. Ég vefengdi við umr. þessar upplýsingar eða þessar staðhæfingar hv. þm. og greindi frá því að ég hefði undir höndum tölur sem sýndu allt annað þótt húshitunarkostnaður hefði vissulega farið hækkandi að raungildi á þessu tímabili sem ég ekki vefengdi. Ég hef síðan látið fara nánar yfir þessar tölur, sem ég hafði þá ekki handbærar, og vil greina frá því að sérfræðingar frá Orkustofnun hafa litið á það hver var hækkun á hitaveitukostnaði hjá Hitaveitu Reykjavíkur og á rafhitunarkostnaði hjá Rafmagnsveitum ríkisins á tímabilinu frá því í ágúst 1978 þar til 10. maí 1983 þegar síðast breyttust gjaldskrár í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég vil hér leyfa mér að greina frá þessum niðurstöðum:

Miðað er þá við fast sambærilegt verðlag miðað við þróun byggingarvísitölu. Hún var við upphaf þessa tímabils, sumarið 1978, 217 en hafði hækkað í 1774 stig þann 10. maí s. l.

Verðbólguþróun hjá Hitaveitu Reykjavíkur á þessu tímabili var sú að verðið reiknað til núverandi verðlags var í ágúst 1978 9.53 kr. miðað við seldan rúmmetra vatns, en á núvirði miðað við maí 1983 var verðið 10.80 kr. eða hafði hækkað um 13% á þessum tíma miðað við sambærilegar tölur og sama verð, sömu verðviðmiðun.

Hjá Rafmagnsveitum ríkisins var þróunin sú að verðið í ágúst 1978 fyrir kwst. var 0.805 kr. eða 80 1/2 eyrir, en 10. maí 1983 á sama verðlagi niðurgreitt 0.97 aurar eða hafði hækkað sem svaraði 20% á þessu tímabili miðað við byggingarvísitölu. Óniðurgreitt verð frá Rafmagnsveitum ríkisins hafði hins vegar hækkað í 1.27 kr. í maímánuði eða um 58%. Þetta eru upplýsingar sem ég taldi rétt að koma hér á framfæri því að þær segja allt aðra sögu en fram hefur verið haldið í umr. um þessi efni hér á hv. Alþingi. Ég tel að ekki sé óeðlilegt að miða við byggingarvísitölu í þessu sambandi.

Varðandi þróun húshitunarkostnaðar síðan hefur það verið rakið að hann hefur farið hækkandi á þeim tíma sem síðan er liðinn í tíð núv. ríkisstj. Alveg sérstaklega hefur heildarorkukostnaður heimilanna farið hækkandi á þessu tímabili. Ef miðað er við að húshitunin taki 2/3 þar sem hitað er upp með raforku en heimilisrafmagn 1/3 leit dæmið þannig út eftir gjaldskrárbreytingar 1. ágúst 1983 að orkukostnaður heimilanna hafði hækkað um sem svaraði 24% eftir þá gjaldskrárbreytingu. síðan hefur verið bætt lítillega í niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar. En eftir sem áður og þrátt fyrir þær breytingar á kaupgjaldi sem heimilaðar hafa verið af ríkisstj. á þessum tíma hefur orkukostnaðurinn orðið íþyngjandi í tíð núv. ríkisstj. umfram það sem var við stjórnarskiptin. Þetta er hægt að rekja um tölur, en ég ætla ekki að fara nánar út í þau efni hér.

Ég vildi svo, herra forseti, aðeins að lokum inna hæstv. iðnrh. eftir því við þessa umr. hvenær vænta megi þeirra tillagna í frumvarpsformi sem hæstv. ráðh. boðaði í umr. um fjárlög 1984 rétt fyrir jól og boðaði á fyrstu dögum eftir jólaleyfi að lagt mundi verða fram, frv. og tillögur af hálfu ríkisstj. um úrbætur í þessum þætti, þ. e. varðandi lækkun húshitunarkostnaðar. Þær tillögur hafa ekki komið fram enn og ég tel ríka ástæðu til þess að inna eftir því, þar sem rætt er um raforkuverð, hvenær þessara tillagna sé að vænta og hvað valdi því að þær eru ekki fram komnar.