15.03.1984
Sameinað þing: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3782 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka allshn. sþ. fyrir umfjöllun hennar um þetta mái. Nefndin hefur orðið einróma ásátt um að gera nokkrar breytingar á minni upphaflegu till. sem að stóðu auk mín aðrir þm. Alþfl. Skemmst er frá því að segja að ég hef ekkert við brtt. n. að athuga og felli mig í hvívetna við að till. verði samþykkt í þeirri breyttu mynd sem allshn. mælir með. Ég hef ekkert við það að athuga og ekki óeðlilegt að einhverjar breytingar séu gerðar á till. einmitt í nefnd. Kannske eru þær breytingar sem nefndin mælir með heldur til bóta.

Hins vegar verð ég að segja það að ég get ekki lýst neinni sérstakri ánægju með það sem hæstv. iðnrh. sagði þegar hann kom í þennan ræðustól. Þótti mér málflutningur hans vera allur mjög í skötulíki, svo að notað sé eitt af eftirlætisorðatiltækjum ráðh. Satt best að segja á ég ekki gott með að skilja hvers vegna hann velur þann kost að leggjast gegn því að þessi till. verði samþykkt og vill láta vísa henni frá. Hann taldi að vísu upp ýmislegt sem að væri verið að vinna á vegum hans rn. og fyrir hans frumkvæði í þessa veru og allt gott um það sjálfsagt. En hér er gert ráð fyrir því að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að kanna gaumgæfilega orsakir verðmyndunar á raforku til almennings og almenns atvinnurekstrar og gera samanburð á verðmyndun á raforku hérlendis og í nálægum löndum. Það er alveg skýrt og skilmerkilegt hvað hér á að gera og þarf enginn að velkjast í vafa um það. Hins vegar sá hæstv. ráðh. ástæðu til að fetta fingur út í orðalag í till. þar sem talað er um þrjá óháða sérfræðinga og var helst á honum að skilja að slíkir menn fyrirfyndust ekki á Íslandi. Mér hefur sýnst hæstv. ráðh. eiga býsna gott með að finna óháða sérfræðinga til að sinna ýmsum verkefnum. Ég hef ekki betur séð á undanförnum vikum og mánuðum en að hæstv. ríkisstj. hafi fundið eitt lykil- og lausnarorð í öllum þeim tilvikum þar sem þarf að láta framkvæma einhvers konar úttekt á rekstri. Það er Hagvangur. Ef eitthvert vandamál kemur upp, þá er öllu vísað til Hagvangs. Þetta held ég að hafi verið gert með Sementsverksmiðjuna, þetta hefur verið gert með ýmis fleiri fyrirtæki. Nú hef ég ekkert misjafnt um hið ágæta fyrirtæki Hagvang að segja. Ég geri ráð fyrir að það sé í flesta staði hið mætasta fyrirtæki. Hins vegar efast ég um að það sé þess umkomið að leysa allan vanda, benda á tillögur til úrbóta í öllum rekstri, hvort sem um er að ræða Rafmagnsveitur ríkisins eða Sementsverksmiðjuna eða eitthvað annað. Ég fullyrði hins vegar að svo mikið eigum við af vel menntuðum mönnum á þessu sviði að vandalaust er með öllu að finna menn sem þetta gætu tekið að sér. Ég held að það sé ekki kjarni vandans.

Hitt er svo annað mál, að hæstv. ráðh. vill ekki að Alþingi samþykki slíka yfirlýsingu. Hann vill fá að hafa frumkvæði þessara mála sjálfur. En ekki hefur hann meiri trú á því sem verið er að vinna á hans vegum um þessar mundir en svo, að hann segir: Ef það skilar ekki árangri, þá er ég reiðubúinn til þess á haustdögum að samþykkja þessa till. Ég hvet þm. hins vegar til að greiða þessari till. atkv. nú, greiða atkv. gegn till. hæstv. iðnrh. um að málinu verði vísað frá, greiða atkv. gegn þeirri dagskrártillögu sem hann hefur flutt. Ég held að brýnt sé að óháðir aðilar geri úttekt á því hvernig raforkuverð myndast hér, hvar það er sem okkur hafa orðið á skyssur og hvað það er sem veldur því umfram annað að raforkuverð hér er svo hátt sem raun ber vitni.

Ég ítreka þá skoðun mína, herra forseti, að þessa till. beri að samþykkja og fara þar með að einróma áliti hv. allshn. Ég hygg að það sé næsta fátítt hér í þinginu að ráðh. leggist gegn till. með þessum hætti sem nefnd hefur afgreitt einróma. Ég hygg að það sé næsta fátítt og verður fróðlegt að fylgjast með hvernig menn greiða atkv. þegar þar að kemur.

Ég ítreka að lokum, herra forseti, að ég skora á hv. þm. að greiða þessari till. atkv. en fella jafnframt dagskrártillögu hæstv. iðnrh.