15.03.1984
Sameinað þing: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3788 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það dregur enginn í efa fullan rétt hæstv. forseta til að fresta umr. Ég vil hins vegar vekja athygli á þeirri röksemd sem forseti beitti, og hún var efnislega rétt, að það væru fjarvistir þm. sem gerðu það að verkum að forseta þætti eðlilegt að fresta umr. og áframhaldandi afgreiðslu málsins. Hér er í salnum meginhluti þm. stjórnarandstöðunnar. Það eru því þess vegna fyrst og fremst fjarvistir stjórnarþm. sem koma í veg fyrir að þetta mál geti haft eðlilegan gang. Það er ekki í fyrsta sinn sem fjarvistir stjórnarþm. eru með þessum hætti.

En þetta er sérkennilegt fyrir þá sök, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur réttilega bent á, að þetta er annað af tveimur málum frá stjórnarandstöðuþm. á þessu þingi sem á að afgreiða. Sú ríkisstjórnarþingmannasveit sem kemur þannig fram við málefni sem stjórnarandstaðan flytur til afgreiðslu getur ekki vænst mikils skilnings gagnvart þeim málum sem hún og ríkisstj. hennar — stjórnarliðsins — ber fram hér á þinginu og vill fá afgreiðslu á. Ef það eiga að vera eðlileg samskipti milli þm. hér í þinginu er það lágmarkskurteisi af hálfu þm. stjórnarliðsins að þeir sæki fundi og taki þátt í umr. þegar málefni sem stjórnarandstaðan flytur og á að afgreiða eru á dagskrá, einkum og sér í lagi þegar eingöngu eru tvö slík mál enn sem komið er til slíks afgreiðslustigs, en öll önnur mál hér eru málefni ríkisstj. og ríkisstjórnarliðsins.

Herra forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessari staðreynd, sem hlýtur óhjákvæmilega að hafa afleiðingar í áframhaldandi störfum þingsins.