19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3793 í B-deild Alþingistíðinda. (3220)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Hv. formaður iðnn. Ed. hefur hér gert grein fyrir vinnubrögðum iðnn. í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Þar langar mig þó til aðeins að bæta við að þegar við vorum að fjalla um þetta mál létu hv. stjórnarþm. það kyrrt liggja að mæta á fundum. Svo langt gekk þetta að það þurfti að fá þm. úr Nd. til þess að vera viðstaddur umr. í nefndinni þannig að þetta gæti að einhverju leyti færst á milli flokka. Það var fulltrúi framsóknarmanna sem kom þangað, hv. formaður sjútvn. Nd., og var þar sem áheyrnarfulltrúi.

Kannske er ekki neitt sérstakt við það að stjórnarþm. telji ekki ástæðu til að fylgja málum eftir í nefndum. Það hefur því miður komið oftar fyrir í öðrum nefndum Ed. að þannig er unnið að það eru fyrst og fremst stjórnarandstæðingarnir sem um málið fjalla. Það getur verið að málin séu það vel búin frá ríkisstj. og ráðherrum að nefndarmenn telji ekki ástæðu að fjalla um þau frekar, en ég tel samt ástæðu til þess að átelja slík vinnubrögð, ekki síst þegar um stórmál er að ræða, sem oftar er um verið að fjalla heldur en hitt.

Í sambandi við þá umr. sem átti sér stað í nefndinni fór hv. formaður n. hér nokkrum orðum, en ég vil þar nokkru við bæta. Í sambandi við skeyti bæjarstjórnar Siglufjarðar, sem formaður n. lýsti áðan, finnst mér það lýsa nokkru þeim vinnubrögðum sem hér hafa átt sér stað í sambandi við flutning og framgang þessa máls. Bæjarstjórn Siglufjarðar lýsir því raunverulega yfir að þessi mál séu unnin á þann veg að tilgangslaust sé og ástæðulaust fyrir aðila eins og bæjarstjórn eins sveitarfélags að skipta sér frekar af því, þetta sé mál sem þegar sé komið í ákveðinn farveg og ástæðulaust sé að blanda þar þeirra skoðunum inn í. Á ósköp svipaðan hátt sagði formaður lagmetisiðjunnar okkur að hefði verið komið fram við stjórn lagmetisiðjunnar. Hún var aldrei kölluð til ráðagerðar eða umsagnar um þetta mál heldur var málið frágengið á öðrum vettvangi.

Ég tel ástæðu til að lesa hér þá ályktun sem nefndinni barst frá verkamannafélaginu Vöku á Siglufirði og ég vil gjarnan gera flest það sem þar kemur fram að mínum orðum. Með leyfi hæstv. forseta, les ég þetta bréf:

„Stjórn verkalýðsfélagsins Vöku telur að ríkið hefði ekki átt að selja lagmetisiðjuna Siglósíld á Siglufirði. Stjórnin telur eðlilegt að ríkið eigi og reki ýmis fyrirtæki í landinu og bendir t. d á síldarverksmiðjur ríkisins í því sambandi og að almennt sé viðurkennt að rekstur þess fyrirtækis sé síst síðri en annar rekstur á sama sviði í einkaeign. Einnig vill stjórnin benda á í þessu sambandi að lagmetisiðjan Siglósíld hafði skv. þeim lögum sem um rekstur hennar giltu þýðingarmiklu hlutverki að gegna í íslenskum lagmetisiðnaði. Enda þótt deila megi um það á hvern hátt það hlutverk hefur verið rækt fram til þessa er ljóst að eftir að verksmiðjan er seld einkaaðilum er ekki um það hlutverk að ræða. Sala fyrirtækisins á s. l. ári var að áliti stjórnar Vöku röng ákvörðun og fljótfærnisleg. Fyrirtækið var þá í leigu hjá Þormóði ramma hf. og hafði samrekstur þessara tveggja fyrirtækja reynst vel og styrkt rekstur þeirra beggja og töldu flestir sem til þekkja að þessi samrekstur mundi verða til styrktar atvinnulífi í Siglufirði. Við þessar aðstæður mæltu engin rök með sölu fyrirtækisins til einkaaðila og hefði sú ákvörðun verið mun skynsamlegri þá að halda samrekstri þessara tveggja fyrirtækja áfram. Eftir að ákvörðun um sölu var tekin telur stjórn Vöku að öðruvísi hefði átt að standa að sjálfri sölunni. Við teljum að tryggja hefði mátt fulla eignaraðild að fyrirtækinu á Siglufirði í stað þess að selja 50% til aðila utan Siglufjarðar. Þá verður söluverð og kaupskilmálar að teljast hæpnir svo að ekki sé meira sagt. Eins og málum er nú komið telur stjórn Vöku að brýnast sé að Siglósíld hf. verði áfram tryggður eðlilegur hluti í gaffalbitaframleiðslunni og að verksmiðjan geti haldið uppi sem mestri atvinnu og framleiðslu.“

Ég legg hér fram nál. þar sem ég geri grein fyrir minni afstöðu. Einnig fylgir því nál. grg. þeirra Ragnars Arnalds alþm. og Hannesar Baldvinssonar stjórnarformanns Siglósíldar er þeir sendu iðnrn. í jan. s. l. Ég legg til að þetta frv. verði fellt.