19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3800 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Jóhannesson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að eins og sakir standa nú er ég andvígur öllum tillögum um hækkun á skattaprósentunni og mun þar af leiðandi greiða atkv. gegn þessum brtt. sem meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur flutt á þskj. 443.

Þær röksemdir, sem nefndar hafa verið í þessu sambandi fyrir því að eðlilegt væri að hækka þessa skattaprósentu, að kaup hafi orðið nokkru hærra en reiknað var með, get ég ekki fallist á. Mér finnst þær óviðfelldnar í hæsta máta. Mér finnst það óviðfelldið ef fólk hefur fengið eitthvað hærra kaup en gert var ráð fyrir, kauphækkun, sé því veifað framan í það um leið að hluti af þessu verði tekinn aftur í stað þess að fara þá eðlilegu leið sem ætíð á við að tekjur þessa árs verði skattstofn næsta árs miðaður og þá verði fólkið auðvitað að greiða af þeim hækkunum sem hafa orðið á kaupi ásamt öðrum tekjum þess. Ég vildi taka þetta fram um mína afstöðu.

Ég verð um leið að láta það í ljós að ákaflega tel ég það óviðkunnanlegt að hæstv. fjmrh. skuli ekki geta verið viðstaddur þessa umr. (LJ: Hann er í umr. í Nd., er í ræðustól.) Já. Hann á sæti í þessari hv. deild og þetta er fjárhagsmál. (Gripið fram í: Hann er í ræðustól.) Já, hann er í ræðustól, við því verður ekki gert. Hann er í ræðustól, sjálfsagt að flytja einhverjar yfirlýsingar sem ég vil ekki á neinn hátt koma í veg fyrir eða verða til þess að tefja fyrir. En ég hefði gjarnan viljað minna hann á að hann hefur margoft lýst yfir að í sinni tíð verði skattar alls ekki hækkaðir. Það verður að krefjast þess að menn í ráðherrastóli standi við sín orð. Þess vegna hefði verið eðlilegt að hann gerði grein fyrir þessu hér vegna þess að þó að verið sé að tala um að þetta séu leiðréttingar er það auðvitað skollaleikur sem hvert barn sér í gegnum.