19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3803 í B-deild Alþingistíðinda. (3231)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Reykv. mun hafa byggt sína afstöðu til þess máls sem hér er á dagskrá á því að ég hafi lýst því yfir að skattahækkun kæmi ekki til greina í minni fjmrh.-tíð og grundvallað á þeim ummælum mínum mótmælir hann því að skattstiginn skuli nú vera færður úr 4% aftur upp í 6%. Er það ekki rétt skilið?

Yfirlýsing ríkisstj. í þessum málum er sú, að skattbyrði skuli ekki þyngjast á milli ára. Ég held að hér sé ekki um íþyngjandi skattbyrði að ræða frá því sem hefur verið og var s. l. ár. Ríkisstj. er að standa við sína stefnu. Ég lít ekki svo á að hér sé um nýja skatta að ræða eða skattbyrði til viðbótar við það sem segir í stefnu ríkisstj. um að skattbyrði skuli ekki þyngjast milli ára.

Ég vil taka það fram vegna ummæla hv. 8. þm. Reykv. að það bréf sem fór til stofnana og ráðuneyta um samstarf um að framfylgja stefnu ríkisstj. um 5% sparnað í rekstri og 2.5% sparnað í launum fór til viðkomandi aðila til þess að ríkisstj. gæti betur fylgst með, fengið tillögur frá forustumönnum á hverjum stað, hvort sem það var úr rn. eða stofnunum, um hvernig þeir hefðu hugsað sér að framfylgja stefnu ríkisstj., eins og þeim bar skylda til miðað við þær ákvarðanir sem ríkisstj. var búin að taka um sparnað bæði í rekstri og í launum. Þannig er of snemmt að segja nú hvort það ber árangur eða ber ekki árangur. Það kemur ekki í ljós fyrr en upp er staðið í lok ársins hvort sparnaðartilraunir ríkisstj. bera þann árangur sem hún vonast til, en allavega mun ríkisstj. reyna að fylgja þessari stefnu eftir.

Ég skil ekki í að nokkur maður vilji vinna á móti sparnaði í ríkisgeiranum. Ég mundi frekar ætlast til þess, hvort sem það væru stjórnarandstæðingar eða stjórnarliðar, að menn tækju saman höndum og reyndu að lækna það sem læknað verður í þessu þjóðfétagi á þann hátt að draga saman frekar en að auka skuldir, hvort sem þær eru innlendar eða erlendar, til þess að mæta þeim vanda sem rekstrarlega blasir við stofnunum og fyrirtækjum.