19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3806 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Tómas Árnason:

Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er verið að ræða og þær brtt. sem liggja fyrir eru að mínu mati till. fjmrh. Fjmrh. hefur þarna gert till. um skattahækkun í prósentum sem gildir að sjálfsögðu áfram um skattbyrðina sem slíka, hún getur breyst ef aðrar hagstærðir breytast eins og við þekkjum.

Ég fylgdi þessu máli og þessari brtt. Ég held að ég muni það rétt að í þingflokki Framsfl. hafi ekki farið fram atkvgr. um þetta mál heldur hafi verið gengið út frá því að standa að því með hæstv. ríkisstj. En hv. 9. þm. Reykv. lýsti því yfir skýrt og skorinort í þingflokknum að hann fylgdi ekki þessari breytingu. Það er satt og rétt eins og hann greindi hér frá.

Varðandi ríkisfjármálin í heild og stöðu þeirra verð ég að segja fyrir mig að mér hefur ekkert komið á óvart þróun ríkisfjármálanna og gerði ég það að umræðuefni hér í deildinni einhvern tíma seinni partinn í des. að ríkisfjármálin væru annar þáttur í efnahagsstefnu ríkisstj. af tveimur sem væru erfiðastir úrlausnar. Hinn væri sjávarútvegsmálin.

Varla fylgist þm. sem ekki er í fjvn. með afgreiðslu fjárlaga í einstökum atriðum. Maður gengur út frá því að fjvn. og alveg sérstaklega fjmrh. viti um innviði fjárlaganna. Það er frumábyrgð fjmrh. að gera sér grein fyrir því hver grundvöllur er fyrir fjárlögunum. Á undanförnum árum hefur þetta verið þannig að við höfum búið við gífurlega verðbólgu sem hefur valdið því að forsendur fjárlaga hafa raskast stórlega á fjárlagaárinu. Þær hafa raskast frá báðum hliðum, ef svo mætti að orði kveða. Bæði hafa útgjöldin aukist og tekjurnar einnig og það er þess vegna sem menn hafa samþykkt umframfjárveitingar af viðbótartekjum fjárlaganna yfirleitt.

Nú er misjafnt hvernig jöfnuðurinn hefur verið eftir árum. Yfirleitt var ekki jöfnuður á fjárlögum gagnvart seðlabankanum — ég er nú að tala sérstaklega um greiðslujöfnuðinn — á árunum 1972–1978. Ég hygg að á árinu 1979 hafi orðið á þessu gagnger breyting því að ekki var nóg með að það væri afgangur af viðskiptum ríkissjóðs við Seðlabankann á árinu 1979 heldur greiddi ríkissjóður þá verulegar fjárhæðir beint úr sjóði til þess að standa undir fjármagnskostnaði við Kröfluvirkjun. Það ár var greidd veruleg fjárhæð í því skyni úr ríkissjóði. Síðan var farið að taka lán til þess að standa undir þessum fjármagnskostnaði eins og kunnugt er.

En varðandi þetta mál og þessar brtt. er þetta auðvitað till. um skattahækkun. Ég stend að þeirri till. Ég lít á þetta sem till. fjmrh. og ríkisstj. og á þeim forsendum álít ég að allur þorri þm. framsóknarmanna og sennilega allir — þó ég vilji nú ekki tala fyrir hönd þeirra — styðji hana nema hv. 9. þm. Reykv. Hann tók af öll tvímæli um það að hann fylgdi þessu ekki, hann væri á móti skattahækkunum og það voru hans rök fyrir afstöðunni til málsins.