19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3820 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég kem í ræðustól til að gera grein fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 460 ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og snertir tekjur Erfðafjársjóðs.

Um síðustu áramót tóku gildi lög um málefni fatlaðra, en með þeim lögum var kveðið á um stóraukin verkefni í þágu þroskaheftra og fatlaðra frá því sem verið hafði. Lög um aðstoð við þroskahefta og lög um endurhæfingu frá 1970 féllu úr gildi, en ákvæði um Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra og Erfðafjársjóð, sem fjármagnað hafði framkvæmdir í þágu þroskaheftra og fatlaðra, voru felld inn í ákvæði nýju laganna. Skv. ákvæðum þeirra laga áttu tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra að vera með þeim hætti að ríkissjóður átti að leggja sjóðnum til árlega næstu fimm árin a. m. k. jafnvirði 55 millj. kr., miðað við verðtag 1. jan. 1983, og í sjóðinn áttu einnig að renna tekjur Erfðafjársjóðs — og í aths. við þá grein í frv. kom skýrt fram að í sjóðinn áttu að renna óskertar tekjur Erfðafjársjóðs.

Þessi ákvæði laga um málefni fatlaðra, sem samþykkt voru á s. l. Alþingi og tóku gildi um áramótin síðustu, voru þverbrotin við afgreiðslu fjárlaga. Skv. lögunum hefði framlag ríkissjóðs átt að vera 91 millj. kr. í stað 40 millj. kr. á fjárlögum. Það hækkaði aðeins um 40 þús. milli ára eða um 0.1% Skv. því er framlag ríkissjóðs til sjóðsins skert um 51 millj. kr. eða um 56%. Skv. lögunum áttu einnig tekjur Erfðafjársjóðs að renna til sjóðsins, sem áætlað er að verði á þessu ári 40 millj., en við fjárlagaafgreiðslu er það stórlega skert sem renna á til sjóðsins eða yfir 50% og er skv. fjárlögum aðeins 19 millj. og 400 þús. Er þar einungis um að ræða 215 þús. kr. hækkun milli ára eða 0.11%.

Samtals nam því skerðingin á Erfðafjársjóði og framlagi ríkissjóðs skv. lögum í Framkvæmdasjóð fatlaðra um 71 millj. kr. eða tæplega 55%.

Ég tel að fullyrða megi að engin framkvæmdaframlög hafi verið skert eins gífurlega í nýafgreiddum fjárlögum og framlög þessi sem renna áttu í framkvæmdir í þágu fatlaðra og þroskaheftra. Meðan fjárlögin gera ráð fyrir að framlög til einstakra framkvæmdaflokka hækki að jafnaði um 11% milli ára er hækkun á Erfðafjársjóði aðeins 0.11% milli ára, en framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs fatlaðra einungis hækkað um 0.1% milli ára.

Við fjárlagaafgreiðslu var gerð tilraun til að hækka framlagið úr ríkissjóði í Framkvæmdasjóð fatlaðra; þannig að framlagið yrði 55 millj. í stað 40, en 55 millj. er sú krónutala sem nýsamþykkt lög gera ráð fyrir og þá ekki gert ráð fyrir neinni verðtryggingu eins og þó var kveðið á um í lögunum. Þessi brtt. ásamt annarri, er kvað á um 50 millj. eða 10 millj. kr. hækkun, voru felldar við afgreiðslu fjárlaga. Ég sé því ekki að það þjóni neinum tilgangi þó á nýjan leik nú við afgreiðslu lánsfjárlaga, yrði reynt að ná fram hækkun á framlagi ríkissjóðs í framkvæmdasjóðinn. Ég vil þó freista þess nú ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að reyna að ná fram leiðréttingu að því er snertir tekjur Erfðafjársjóðs og því er þessi till. flutt. Hér er um að ræða tekjur sem inn koma af erfðafjárskatti, eti ekki bein framlög úr ríkissjóði og ætti það að skipta nokkru máli. Þessar tekjur, sem inn koma, eiga lögum skv. að renna í Erfðafjársjóð, en skv. fjárlagaafgreiðslunni ætla stjórnvöld sér að taka yfir helming af þessum tekjum í ríkissjóð, sem renna eiga til framkvæmda í þágu fatlaðra.

Um það mætti hafa mörg orð hve fráleitt er að ríkissjóður taki þannig bróðurpartinn af tekjum sem renna eiga til framkvæmda í þágu fatlaðra, en skatturinn er innheimtur á þeim forsendum. Ég læt nægja að vitna til orða núverandi formanns fjvn., sem hann viðhafði við fjárlagaafgreiðslu 1983 er hann fjallaði um vinnubrögð varðandi ráðstöfun á tekjum Erfðafjársjóðs. Núverandi formaður fjvn. sagði þá, með leyfi forseta:

„Sé talið eðlilegt að lækka framlög til sjóðanna um félagsleg markmið, t. d. Erfðafjársjóðs, á að sjálfsögðu að gera það með breytingum á lögum. Sé það ekki gert er skatturinn innheimtur á fölskum forsendum.“

Ég hef áður vitnað til þess sem segir í aths. með frv. um málefni fatlaðra, en þar er skýrt tekið fram að óskertar tekjur Erfðafjársjóðs eigi að renna í framkvæmdasjóðinn. Ég tel að hæstv. félmrh. hafi staðfest þessa túlkun í síðustu viku þegar fjallað var um lánsfjárlögin við 2. umr., en þá sagði hæstv. félmrh., með leyfi forseta:

„Það er ljóst að með þeirri lagabreytingu, sem tók gildi 1. jan. s. l., eiga tekjur Erfðafjársjóðs að renna óskiptar til Framkvæmdasjóðs fatlaðra.“

Óskiptar, sagði hæstv. félmrh. Ég er honum sammála og vænti þess að hann standi við orð sín og samþykki þá brtt. sem hér er fram borin.

Nú er það iðulega svo að tekjur af erfðafjárskatti verða meiri en ráð er fyrir gert við fjárlagaafgreiðslu. Þannig var við fjárlagaafgreiðslu 1983 gert ráð fyrir að tekjur af erfðafjárskatti yrðu 21.6 millj. Skv. þeim upplýsingum sem ég hef nú varð innheimtur erfðafjárskattur á því ári 37 millj. og 53 þús. kr. eða um 48% hærri en ráð hafði verið fyrir gert, en einungis fóru 19 millj. 185 þús. af þeim tekjum til framkvæmda í þágu fatlaðra, sem þó er með lögum ætlað að renna óskertum til fatlaðra. Allt eins má gera ráð fyrir að þessar tekjur verði einnig hærri á yfirstandandi ári en gert var ráð fyrir í fjárlagaafgreiðslu, sem var um 40 millj. kr.

Ef við gerum ráð fyrir sömu þróun og í fyrra, að tekjurnar verði 48% hærri en ráð er fyrir gert nú, þá yrðu tekjur af innheimtum erfðafjárskatti nálægt 60 millj. kr. eða sama upphæð og allt ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra er á yfirstandandi ári. Það mundi þýða í raun að framlag frá ríkissjóði sjálfum væri ekkert því að fullar tekjur kæmu á móti af innheimtum erfðafjárskatti. Ég tel það því enga ofrausn né mundu sliga ríkissjóð þó að auk þessa 40 millj. kr. framlags, sem skv. fjárlögum á að renna í framkvæmdasjóðinn, gæti Alþingi fallist á að tekjur Erfðafjársjóðs af innheimtum erfðafjárskatti rynnu að fullu til sjóðsins, eins og lög gera ráð fyrir, til þess að hægt væri að einhverju leyti að standa við öll þau loforð og fyrirheit sem í nýsamþykktum lögum um málefni fatlaðra felast.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að rökstyðja þá knýjandi þörf sem er fyrir aukið framlag í framkvæmdasjóðinn frá því sem nú er ráð fyrir gert í fjárlögum. Þá þörf rökstuddi ég ítarlega við afgreiðslu fjárlaga og sé ekki ástæðu til að endurtaka hér. Ég tel að allt stefni í að framkvæmdasjóðurinn geti ekki staðið við þegar gerðar skuldbindingar, hvað þá að hægt sé að byrja á nýjum framkvæmdum sem knýjandi þörf er á, ekki síst fyrir fjölfötluð börn, en þar ríkir nú neyðarástand, eins og rækilega kom fram við afgreiðslu fjárlaga og svæðisstjórn Reykjavíkur hefur gert fjvn. grein fyrir. Sú brtt. sem hér er flutt mundi bæta þarna nokkuð úr, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„16. gr. orðist svo:

Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. fjárlaga fyrir 1984, 07971 Erfðafjársjóður, skulu allar tekjur af innheimtum erfðafjárskatti renna í Erfðafjársjóð, sbr. og 35. gr. laga nr. 41 1983.“

Ég vil benda hæstv. forseta á að það vantar inn í brtt. sem hér hefur verið lögð fram: fjárlaga fyrir 1984. Ég hef gert ráðstafanir til þess að það verði leiðrétt og að réttu þskj. verði dreift til þm.

Vænti ég þess að þm. geti sameinast um þessa brtt., sem leyst gæti það neyðarástand sem nú ríkir hjá fjölda fatlaðra í landinu.