31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

13. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að segja hér örfá orð. Í fyrsta lagi að ég vil lýsa stuðningi við þetta frv. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem er vert að fylgja eftir með raunhæfum aðgerðum. Það er mín skoðun að slík könnun og niðurstöður hennar séu í raun og veru lykilatriði til að hægt sé að mæta vanda þeirra þjóðfélagsþegna sem verst eru settir hverju sinni í þjóðfélaginu.

Það má segja að það sé nokkurt undrunarefni eins og við höfum hér sterk samtök á vinnumarkaðnum, bæði atvinnurekenda og launþega og stofnanir á þeirra vegum, að það skuli vera svo í dag að slíkar upplýsingar, eða a.m.k. verulegur hluti af þeim upplýsingum sem hér eru nefndar, skuli ekki vera til staðar. Ég held að það sé alveg ljóst að það skortir mjög á upplýsingar um vinnumarkaðinn hér á landi og að við erum langt á eftir öðrum þjóðum hvað þetta snertir, bæði hvað varðar launakjör og eins þau atvinnutækifæri sem víðs vegar eru á okkar vinnumarkaði. Ég tel mjög brýnt að setja þessi mál í fastara form. Það er raunar eitt af því sem ég varð var við þegar ég kom í félmrn. að þar er fyrir hendi sérstök deild, vinnumáladeild, sem á samkv. reglugerð að hafa með þessi mál að gera, en hún hefur því miður frá því að hún varð til verið lítt skipuð starfsliði. Þar hefur aðeins verið einn starfsmaður sem hefur aðeins getað sinnt mjög einangruðu verkefni. Þessu þarf að breyta. Ég tel að það sé einn liðurinn í þessum málum almennt að svo verði gert og það er þegar byrjað að vinna að því verkefni.

Ég vil þó geta þess hér að ríkisstj. fór fram á það við Þjóðhagsstofnun s.l. sumar að láta gera slíka úttekt eða hluta af þeirri úttekt sem hér er til umfjöllunar og að því hefur verið unnið. Það er nýlega kominn fram fyrsti hluti þessarar úttektar, sem er unnin hjá ríkisskattstjóraembættinu. Þetta er fróðleg skýrsla og getur orðið verulega til bóta fyrir það verk sem slík nefnd, sem hér er verið að leggja til, mun vinna að, og ekki síst þar sem framhald verður á því. En það vantar ýmislegt í okkar skattkerfi, eins og réttilega kom fram hjá hv. frsm., sem gerir þessa skilgreiningu nægjanlega ljósa.

Ég hef velt því fyrir mér hvernig stendur á því að stofnun eins og kjararannsóknanefnd skuli ekki geta gefið út ákveðnar upplýsingar um vinnumarkaðinn að því er varðar sérstaklega láglaunahópa í þjóðfélaginu. Ég hef leitað eftir því formlega hvers vegna en ekki fengið viðhlítandi svör. Eins og ég sagði áður þá finnst mér ákaflega furðulegt að við skulum þurfa að búa við það, ef okkur vantar upplýsingar sem eru mikilvægar í því skyni að rétta kjör vinnandi fólks eða láglaunafólks í landinu, að þá skuli ekki vera hægt að fá þær á fljótvirkan hátt eða með auðveldum hætti. Þessu þarf að ráða bót á og ég tel sjálfsagðan hlut að allir hljóti að vera sammála um gildi þess. Það hefur ekki svo lítið að segja þegar menn eru sammála um að rétta hlut þeirra lægst launuðu í þjóðfétaginu eða verst settu, að hægt sé að ganga að ákveðnum staðreyndum sem hægt er að miða aðgerðir við.

Nú vil ég geta þess hér, fyrst ég er kominn hingað í ræðustól, að fyrrv. ríkisstj. skipaði sérstaka nefnd til að gera könnun á stöðu einstæðra foreldra í landinu. Þessi nefnd hefur unnið mikið starf og ég hef nýverið samið um það við félagsmáladeild Háskóla Íslands að taka að sér hluta af þessari könnun í samráði við nefndina þ.e. að safna ýmsum upplýsingum um stöðu þessa fólks. Síðan mun nefndin skila niðurstöðum, sem áætlað er að geti orðið síðla vetrar. Ég vænti þess að þær upplýsingar sem þar koma fram verði haldgóðar svo að hægt sé að draga af þeim réttar ályktanir þegar um verður að ræða að rétta hlut þessa fólks, sem ég geri ráð fyrir að flestir séu sammála um að hafi mjög slæma stöðu í þjóðfélaginu, svo ekki sé meira sagt.

Ég vil svo aðeins endurtaka það að ég tel að hér sé um mjög þarft mál að ræða og að ástæða sé fyrir Alþingi að taka undir með flm. og koma þessu máli á það stig sem ætlast er til með þessu frv.