19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3838 í B-deild Alþingistíðinda. (3256)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Það er ekki nýtt að þegar ráðherrar Sjálfstfl. og aðrir ráðherrar í þessari ríkisstj. kjósa að þegja og veita ekki svör komi hv. þm., varaformaður Sjálfstfl., Friðrik Sophusson upp í ræðustólinn og veiti svör. Það væri fróðlegt að vita í krafti hvers hann gerir það. Hann er enginn sérstakur verkstjóri hér í þinginu, þó að hann kannske haldi það. Hann kann að vera það í Sjálfstfl. og þá er best hjá honum að nota það verkstjóravald heima hjá sér. Sá sem er verkstjóri Sjálfstfl.-þm. hér er hv. þm. Ólafur G. Einarsson og í forföllum hans varaformaður þingflokksins, Halldór Blöndal. Ég held að því sé tími til kominn að hv. þm. Friðrik Sophusson hætti þessum slettirekuskap hérna í þinginu, nema hann vilji sýknt og hellagt vera að sýna hæstv. fjmrh. að það þurfi að hjálpa honum í hverju málinu á fætur öðru og hæstv. ráðh. sé ekki einfær um að veita svör við því sem hann er spurður um.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Friðrik Sophusson sagði, að ég bar hér fram ýmsar spurningar. Þeim var hins vegar að mjög litlu leyti svarað. Nú hefur hv. þm. Svavar Gestsson ítrekað mjög margar þessara spurninga á mjög ítarlegan hátt og greinargóðan og lagt fram sundurliðaðar óskir um svör frá hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. um þau efni. Ég tel það ekki þjóna neinum tilgangi, hv. þm. Friðrik Sophusson, að ég sé að koma hér upp á ný og endurtaka mikinn hlut af þessu efni, ef það er ætlun manna að greiða fyrir þingstörfum. Ef það er hins vegar ekki lengur neitt kappsmál að greiða fyrir þingstörfum er alveg sjálfsagt að halda áfram með mælendaskrána eins og hún er hjá virðulegum forseta. En það var ósk hæstv. ríkisstj. að greiða svo fyrir þessum málum að þau mætti afgreiða frá Nd. í dag. Ég hef gefið hæstv. ráðh. tvö tækifæri til að láta skrá sig á mælendaskrána og svara þessum spurningum svo að ég geti t. d. stytt ræðu mína og gæti jafnvel íhugað hvort ég þurfi þá yfir höfuð að kveðja mér hljóðs. En fyrst hæstv. ráðherrar hafa ekki orðið við þeirri ósk hafa þeir, eins og ég lýsti yfir áðan, alveg greinilega slitið í sundur samkomulagið sem hér var gert. Ég veit að hv. þm. Ólafur G. Einarsson þekkir ósköp vel að það kann ekki góðri lukku að stýra að ráðh. verði þannig til þess að slíta sundur samkomulag sem gert hefur verið til að greiða fyrir framgangi mála. Ef það er kappsmál hjá ríkisstj. að slíta þetta samkomulag í sundur verður að hafa það og við beygjum okkur fyrir því. En það er þá alveg ljóst á hverra ábyrgð það er.