19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3841 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það var ánægjulegt að hv. þm. Ólafur G. Einarsson kom í salinn áðan og tók við stjórninni á Sjálfstfl. og ráðherrunum af hv. þm. Friðrik Sophussyni. Þá fyrst fór þetta að ganga og ráðh. að átta sig á að það væri betra fyrir þá að veita svör við þessum spurningum. Ef þessari umr. lýkur á skikkanlegum tíma er það greinilega því að þakka að hv. þm. Friðrik Sophusson hætti afskiptum af þessu máli og hv. þm. Ólafur G. Einarsson tók við stjórninni á nýjan leik. Ef gefa mætti Sjálfstfl. og ríkisstj. ráð væri það að láta nafna minn vera meira í forsvari fyrir þessum málum hér í salnum, en benda varaformanni Sjálfstfl. á að hugsa meira um ástandið heima hjá sér. (FrS: Hann þakkar fyrir góð ráð í auðmýkt.) Já, það er ágætt. Þá er bara að fylgja þeim.

Hæstv. fjmrh. hefur opinberað í þessum umr. sérkennilega hlið, sem að vísu hefur borið dálítið á undanfarið en aldrei verið eins skýr og í dag. Það er alveg sama hvar komið er að einhverjum mistökum í stjórn efnahags- og fjármála sem heyra undir ráðh. og rökstudd gagnrýni er sett fram, þá hleypur hæstv. ráðh. upp í ræðustólinn og segir: Ekki ég, ekki ég. Það er ekki mín sök. Það eru einhverjir aðrir sem bera ábyrgð á því. — Hæstv. ráðh. var bent á að yfirdrátturinn í Seðlabankanum hefði stórlega aukist frá því að hann gaf yfirlýsingu sína hér á Alþingi. Það var ekki hans sök. Hæstv. ráðh. var bent á hið mikla gat sem er í fjárlögunum og hann kom hér upp í ræðustólinn og sagði: Það er ekki mín sök. Það er Alþb. að kenna. — Engu að síður sögðu hæstv. ráðh. og Lárus Jónsson, formaður fjvn., um þessi sömu fjárlög fyrir nokkrum mánuðum að þetta væru raunhæfustu fjárlög sem afgreidd hefðu verið. En nú er gatið allt í einu Alþb. að kenna. Þegar hæstv. ráðh. var bent á það að erlendar skuldir kynnu kannske að fara upp fyrir 60% mörkin sagði hæstv. ráðh. líka: Ja, það verður ekki mín sök. Það verður sökum þess að það bregst innlend lánsfjáröflun. — Og þegar hæstv. ráðh. er kominn út í horn út af þeirri skattahækkun sem lögð hefur verið til á tekjuskatti og rökstudd er með tilvísunum í síðustu kjarasamninga, þá kemur hæstv. ráðh. og segir: Það er ekki mín sök. Það eru ekki mín rök. Það eru rök sjálfstæðismanna í Ed. (Fjmrh.: Það er alveg rétt.) Já, það er auðvitað allt rétt, en það er dálítið sérkennilegt að upplifa að hæstv. ráðh. sé svona lítill karl. (Fjmrh.: Að segja satt?) Nei, ekki að segja satt, heldur vera að þeirri léttvægu pólitísku iðju að finna sífellt sökudólga í sínum eigin félagahóp og vera sífellt að benda í þingsalnum á einhverja aðra menn, ýmist í eigin flokki eða í öðrum flokkum, og gera eins og litla gula hænan sem segir: Ekki ég, ekki ég. (Gripið fram í.) Já, það getur vel verið að hæstv. ráðh. finnist það. En eins og hér hefur komið fram í þessum umr. . . . (Gripið fram í.) Það er alveg rétt að ég hefði átt að lesa litlu gulu hænuna aðeins betur. Þá hefði komið fram að það var einmitt litla gula hænan sem kannaðist við sín verk. Það hefði verið rétt að hafa líkinguna þannig, að hæstv. fjmrh. hafi ekki einu sinni jafnmikinn kjark og litla gula hænan.

Við eigum sjálfsagt eftir að upplifa þetta oftar hér í þinginu, að meginpólitísk iðja hæstv. fjmrh. verður að finna sökudólga til að skella á skuldinni af sínum eigin mistökum, ýmist innan Sjálfstfl., meðal annarra stuðningsmanna ríkisstj. eða hjá stjórnarandstöðunni. Það hefur gerst í umr. í dag að hvort sem minnst er á aukna skuld við Seðlabankann, auknar erlendar lántökur, götin í fjárlögunum eða auknar skattheimtur, allt þetta hefur hæstv. ráðh. sagt að ekkert þýði að sakast um við sig, en hefur bent á aðra sökudólga innan þingsins. Ég verð að segja það við hæstv. ráðh. að miklu væri skemmtilegra ef hann vildi vera jafnstór karl hér í þinginu og hann vill gjarnan vera utan þings og kannast við sín eigin verk.

Hæstv. ráðh. var að reyna að skjóta sér undan því að gatið í fjárlögunum væri á hans ábyrgð og endurtók hér í stólnum fullyrðingar um að þetta gat væri Alþb. og síðustu ríkisstj. að kenna. Þegar fjárlagafrv. var afgreitt hér í þinginu sagði hæstv. fjmrh., með leyfi hæstv. forseta:

„Í fjárlagafrv. er gerð alvarleg hreingerning í þessu efni og reynt að áætla raunhæft fyrir þeim rekstri sem áætlaður er“.

Ráðh. sagði enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: „Metið er á raunhæfan hátt umfang rekstrar miðað við haldbestar upplýsingar um hvað starfsemin raunverulega kostar“.

Og hæstv. fjmrh. sagði einnig:

„Ekki mun á næsta ári þýða að koma í fjmrn. og biðja um aukafjárveitingar“.

Hv. þm. Lárus Jónsson, formaður fjvn., sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Eitt grundvallarstefnumiðið við gerð þessara fjárlaga er að þau verði sem raunhæfust“.

Það er hægt að lesa upp hér í ræðustól fjöldann allan af öðrum tilvitnunum í hæstv. ráðh. og helstu trúnaðarmenn hans í fjármálakerfinu, þar sem þeir sögðu hver um annan þveran að nú hefði Alþingi í fyrsta skipti afgreitt raunhæf fjárlög, nú væri ekki verið að afgreiða marklaust pappírsgagn eins og í tíð fyrrverandi ríkisstj. En þegar það kemur í ljós tveimur mánuðum seinna að þeirra eigið frv. er sundurskotið af þeirra eigin götum eru þessir menn svo huglausir að þeir hlaupa til og reyna að hía á stjórnarandstöðuna fyrir sín eigin verk.

En hvað segir sá embættismaður sem ber ábyrgðina á gerð fjárlaga? Vill ekki hæstv. fjmrh. kynna sér það? Hann segir í blaðaviðtölum að verulegur hluti af þessum götum sem ráðh. hefur nú gert opinber sé tilkominn „vegna ákvarðana ríkisstj. eftir að fjárlagafrv. var samþykkt.“ Æðsti embættismaður ríkisins, yfirmaður fjárlagagerðarinnar, lýsir því yfir í viðtali við fjölmiðla að það séu ákvarðanir ríkisstj. sjálfrar, eftir að frv. var samþykkt, sem hafi skapað þessi göt. Það kom fram í viðtölum bæði við Morgunblaðið og Þjóðviljann. Ætlar kannske hæstv. fjmrh. líka að fara að hía á þennan embættismann og reyna að skjóta sér á bak við hann? Væri ekki nær að hæstv. ráðh. viðurkenndi mannborulega hér að honum hafa orðið á einhver mestu mistök í gerð fjárlaga sem þingið hefur orðið vitni að? Það er hans eigin ríkisstjórn sem ber ábyrgð á þessum götum.

Hæstv. fjmrh. verður að horfast í augu við að hann var svo linur innan ríkisstj. að hann leyfði samráðherrum sínum að bora hvert gatið á fjárlögin á fætur öðru. Það er kjarni málsins að hæstv. fjmrh. stóð ekki í stykkinu gagnvart samráðherrum sínum innan ríkisstj. Það eru þeir sem hafa borað göt í þessi fjárlög. Það væri nær fyrir hæstv. ráðh. að svipast um í kringum sig innan ríkisstj. og skoða þessa gatameistara, sem þar eru, í stað þess að vera að reyna á opinberum vettvangi og á Alþingi að koma þeirri sök yfir á stjórnarandstöðuna og síðustu ríkisstj. Og vil ég bara benda hæstv. fjmrh. á að lesa greinargóð svör æðsta embættismanns síns í þessum málum við spurningum um það hvernig á þessum götum standi og hvernig þau séu til komin.

Ég ætla þess vegna að vona að hæstv. fjmrh. hætti því hér í ræðustólnum að vera sífellt að reyna að koma þessum fjárlagagötum yfir á stjórnarandstöðuna, síðustu ríkisstjórn og Gunnar Thoroddsen. Það var nú eftir öðru að fjmrh. reyndi að koma þessari sök yfir á Gunnar Thoroddsen. (Fjmrh.: Hvað ætlar þú að fara langt niður fyrir beltið?) Hæstv. ráðh. hefur gefið fullt tilefni til þess hér í ræðustól, að farið sé æðilangt niður fyrir það ef á að bjóða mönnum upp á það í rökræðum um þessi mál á þinginu að í stað þess að koma með greinargóð og skynsamleg svör við spurningum sé reynt að benda á með einhverjum deilurökum sökudólga í öðrum flokkum.

Það liggur alveg ljóst fyrir að götin í fjárlögunum eru að meginhluta til komin vegna stjórnmálalegra ákvarðana ríkisstj. sjálfrar, vegna vanefnda einstakra ráðh. á þeim loforðum sem þeir hafa gefið og vegna þess að fjármálastjórn hæstv. fjmrh. hefur verið of lin. Hann hefur ekki verið nógu harður húsbóndi yfir samráðherrum sínum.

Annað meginatriði í svörum hæstv. ráðh. var að segja að yfirdrátturinn gagnvart Seðlabankanum væri allur á ábyrgð fyrrv. ríkisstj . Það væri ekki hans sök. Það væri sök fyrrv. ríkisstj. Ég vil benda hæstv. ráðh. á töflu á bls. 18 í þskj. 442, þar sem birtar eru tölur frá seðlabankanum um þróun samskipta ríkissjóðs og Seðlabankans á undanförnum árum eftir einstökum mánuðum. Þar kemur skýrt fram að frá miðju ári 1983, í júnímánuði, skömmu eftir að ríkisstj. tekur við, og til ársloka er skuld ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum nokkuð stöðug. Hún er að vísu mjög há, en hún er nokkuð stöðug. Hún er 1 milljarður 319 millj. í júní. Hún er 1 milljarður 468 millj. í júlí. Hún er aftur 1 milljarður 393 millj. í ágúst. Hún er 1 milljarður 170 millj. í september. Hún er 1 milljarður 285 millj. í október. Hún er 1 milljarður 169 millj. í nóvember og hún er 1 milljarður 470 millj. í desember. Á þessu 6–7 mánaða tímabili frá því að ríkisstj. tók við er skuldastaðan gagnvart Seðlabankanum nokkuð stöðug, sveiflast frá 1 milljarði 170 millj. upp í 1 milljarð 470 millj. En hvað hefur svo gerst frá áramótum, hæstv. fjmrh.? Það sem gerst hefur frá áramótum er það að í janúarmánuði er skuldastaðan 1 milljarður 626 millj., 15. febrúar er hún komin upp í 2 milljarða 564 millj. og 15. mars er hún komin upp í 2 milljarða 759 millj. Á fyrstu tæpum þrem mánuðum þessa árs, 21/2 mánuði rýkur skuldastaðan upp úr öllu valdi og allt að því tvöfaldast frá því sem hún var á öllum seinni helmingi síðasta árs eftir að ríkisstj. tók við.

Hvernig má það vera, hæstv. fjmrh., að þessi skyndilega sveifla upp á við sé síðustu ríkisstj. að kenna? Ef hún hefði átt að vera síðustu hæstv. ríkisstj. að kenna hefði það átt að koma fram jafnt og þétt á seinni hluta síðasta árs. Eins og ég hef hér rakið í tölum gerðist það ekki. Það varð að vísu allmikil hækkun á fyrstu fimm mánuðum ársins, úr 243 millj. og upp í 1 milljarð. Við skulum segja að sú aukning sé að einhverju leyti á ábyrgð síðustu ríkisstj. og þeirra þm. sem hlupust undan merkjum og hættu að styðja hana, þ. e. hæstv. núv. fjmrh. og hv. þm. Eggerts Haukdal. Við skulum láta málin liggja þannig, þó það megi svo sem ýmislegt annað segja en að það sé eingöngu á ábyrgð þeirrar ríkisstj. Síðan kemur allur seinni hluti ársins. Þá er hallinn nokkuð stöðugur á því bili sem ég var að lýsa. En það er ekki fyrr en í upphafi þessa árs sem þessi skyndilega skuldasöfnun við Seðlabankann á sér stað. Þess vegna benda töflur frá Seðlabankanum alveg eindregið til þess að það sé núv. hæstv. ríkisstj. og fjmrh. hæstv. sem beri alla ábyrgð á þeirri aukningu sem hefur orðið frá því að vera rúmur milljarður að jafnaði á mánuði allan seinni hluta síðasta árs yfir í það að vera núna orðinn rúmir 2 og jafnvel tæpir 3 milljarðar í skuldastöðu ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum.

Það væri nær fyrir hæstv. fjmrh. að viðurkenna þessar tölulegu staðreyndir, sem blasa hér við eins og sérhver sæmilega skynsamur maður getur séð, og reyna að gera sjálfum sér og þinginu grein fyrir því hvernig stendur á þessu. Hvað hefur farið úr skorðum á þessum fyrstu 10 vikum ársins 1984 sem gerir það að verkum að skuldastaðan fer upp í tæpa 3 milljarða á 10 vikum? Ef það á að vera skynsamleg fjármálastjórn hér í landinu er alveg óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. geri sér grein fyrir því hvað hefur gerst, en reyni ekki að telja sjálfum sér trú um að það sé stjórnarandstöðunni og síðustu ríkisstj. að kenna. Látum nú vera ef hæstv. ráðh. er bara að bera það á borð hér í áróðursskyni, en ef hann trúir sínum eigin málflutningi sjálfur er ekki von á því að það verði neinar endurbætur í stjórn ríkisfjármálanna, ef hæstv. ráðh. heldur að þetta sé allt saman síðustu ríkisstj. að kenna og það sé þess vegna ekkert við þessu að gera.

Málið er alveg skýrt og greinilega að hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson ber á því fyrsta hella ári sem hann stýrir ríkissjóði ábyrgð á hröðustu og mestu skuldaaukningu ríkissjóðs við Seðlabankann í áraraðir. Þess vegna er alveg það sama með þessa skuldaaukningu og götin á fjárlagasmíðinni að hún skrifast alfarið og algjörlega á reikning hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild sinni. Fyrst hæstv. ráðh. er svona annt um það að geta sagt að hann sé maðurinn sem kemur hreinskilnislega fram og segi hvernig hlutirnir eru væri nær fyrir hæstv. ráðh. að gera það einnig í þessu efni.

Hæstv. ráðh. var einnig að mæla gegn því hér að sú skattahækkun sem hann hefur lagt til á tekjuskatti með brtt. í Ed. væri raunveruleg skattahækkun. Þó er sú nýjung í málflutningi hæstv. ráðh., eins og ég vék að áðan, að hann er núna farinn að kenna flokksbræðrum sínum, Eyjólfi Konráð Jónssyni, Lárusi Jónssyni og Valdimar Indriðasyni, um og segir að það séu þeir sem beri sökina á því að rökstyðja þessa skattahækkun með tilvísun í nýgerða kjarasamninga. Það séu þessir þrír þm. Sjálfstfl. sem beri ábyrgð á því að í kjölfar kjarasamninganna komi hækkun á skattstiganum. Það væri fróðlegt að fá nánari útlistanir frá hæstv. fjmrh. á því hvers vegna þessum flokksbræðrum hans hefur orðið svona á í messunni að þeir dreifa hér formlegu þskj. þar sem þessi rökstuðningur kemur fram, en hæstv. fjmrh. vill svo ekkert við hann kannast. Það skyldi þó ekki vera að ástæðan væri sú að hæstv. ráðh. líði eitthvað illa vegna þess að hv. þm. Ólafur Jóhannesson, fyrrv. forsrh., tók af skarið í Ed. í dag og lýsti sig algjörlega sammála þeim meginrökum sem ég flutti hér fyrr í dag við umr. um þetta frv. (Gripið fram í.) Hv. þm. Ólafur Jóhannesson sagði í Ed. í dag, er hann lýsti sig andvígan þessari skattahækkun, með leyfi hæstv. forseta:

„Þær röksemdir, sem nefndar hafa verið í þessu sambandi fyrir því að eðlilegt væri að hækka þessa skattprósentu, að kaup hafi orðið nokkru hærra en reiknað var með, get ég ekki fallist á. Mér finnst þær óviðfelldnar í hæsta máta. Mér finnst það óviðfelldið ef fólk hefur fengið eitthvað hærra kaup en gert var ráð fyrir, kauphækkun, sé því veifað framan í það um leið að hluti af þessu verði tekinn aftur í stað þess að fara þá eðlilegu leið sem ætíð á við að við tekjur þessa árs verði skattstofn næsta árs miðaður og þá verði fólkið auðvitað að greiða af þeim hækkunum sem hafa orðið á kaupi ásamt öðrum tekjum þess.“

En hv. þm. sagði meira. Hv. þm. Ólafur Jóhannesson kallaði þau rök sem hæstv. fjmrh. flutti fyrr hér í dag — þó hann sé að reyna að hlaupa frá þeim núna — og sem þm. Sjálfstfl. Lárus Jónsson, Eyjólfur Konráð Jónsson og Valdimar Indriðason fluttu í sínu nál. og í ræðum í Ed. í dag, með leyfi hæstv. forseta, skollaleik sem hvert barn sér í gegnum. Það var dómur þessa fyrrv. forsrh. Framsfl. um rökstuðninginn fyrir skattahækkunum ríkisstj. að það væri skollaleikur sem hvert mannsbarn sæi í gegnum. Það er von að hv. þm. Páll Pétursson reyni að hlæja hér í salnum.

En hv. þm. Ólafur Jóhannesson sagði meira. Hann sagði að þótt þingflokkur Sjálfstfl. hafi samþykkt að hækka skatta hafi Ólafur Jóhannesson lýst því skýrt yfir í þingflokki Framsfl. að hann sé andvígur þessari skattahækkun. Hv. þm. Ólafur Jóhannesson sagði að hann harmaði það að svo góðum dreng sem hæstv. fjmrh. skyldi ekki reynast kleift að standa við þær yfirlýsingar sem hann hefði gefið um að auka ekki skattana á fólkinu í landinu.

Hv. þm. Ólafur Jóhannesson sagði, með leyfi hæstv. forseta: „Ég er á móti þessu af því að ég tel það ósanngjarnt að láta slíka skattahækkun, þó ekki sé stórvægileg, koma í kjölfarið á mjög tilfinnanlegri kjaraskerðingu, kjararýrnun, sem hefur verið framkvæmd hér og allir viðurkenna að hefur verið framkvæmd hér.“

Ætlar hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnarmeirihlutinn að þræta öllu lengur? Liggur það ekki alveg ljóst fyrir að sá maður í þingliði ríkisstjórnarflokkanna sem hefur lengsta ráðherrareynslu, sá maður sem lengst allra núlifandi Íslendinga hefur gegnt embætti forsrh. í landinu, hefur kveðið upp alveg skýran dóm yfir þessum skattahækkunum, þær séu ótvíræðar og þær séu siðlausar? Hvað ætla ráðh. ríkisstj. lengi að reyna að andmæla þessum dómi Ólafs Jóhannessonar? Væri ekki nær að þeir hefðu hreinskilni í þessu efni líka til að viðurkenna að auðvitað er hér skattahækkun á ferðinni? Rökin eru sótt í nýgerða kjarasamninga. Með þessum hætti er ríkisstj., ríkissjóður og ríkisjatan að sækja til sín hluta af þeim kauphækkunum sem lægst launaða fólkið í landinu fékk — eða heldur hæstv. fjmrh. virkilega að þjóðin trúi honum frekar í þessu efni en hv. þm. Ólafi Jóhannessyni? Þótt ég hafi ekki alltaf verið sammála hv. þm. Ólafi Jóhannessyni eins og allir vita hér, liggur það alveg tvímælalaust fyrir að í þessum efnum hefur hann lengur borið ábyrgð á meðferð mála í Stjórnarráði Íslands en nokkur annar þm. hér.

En hv. þm. Ólafur Jóhannesson sendi fjmrh. einnig aðra kveðju. Hún var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Fullkomin ástæða er til þess að fara að ræða fjármálapólitík hæstv. ríkisstj. og fá á henni ýmsar skýringar. Til þess er kominn tími.“

Það er einmitt þetta sem við fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna höfum verið að reyna að gera í þessum umr., að reyna að fá ýmsar skýringar á fjármálapólitík hæstv. ríkisstj. Við höfum verið að reyna að hrinda því í framkvæmd í dag sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson taldi nauðsynlegt í Ed. að gert væri. En því miður verður að segjast eins og er að þau svör, sem hæstv. ráðh. hafa leitast við að gefa, hafa ýmist verið algjörir útúrsnúningar, eins og komu fram hjá hæstv. fjmrh., eða viðurkenningar á slæmu ástandi, en sökinni þá einfaldlega komið yfir á aðra. Þannig skjóta menn sér algjörlega hjá því að reyna að rökræða vandamálið. Þess vegna væri í raun og veru full ástæða til þess að fara að hætti hæstv. iðnrh., eins og hann gerði við þáltill. fyrir helgina, og óska eftir því að fjh.- og viðskn. tæki þetta frv. aftur til meðferðar.

Ég á bágt með að trúa því — en það verður sjálfsagt að veruleika í dag — að hv. þm. Þorsteinn Pálsson sem hefur áður en hann kom á Alþingi verið talsmaður ábyrgrar fjármálastjórnar og sett sig á háan hest hér í fjölmiðlum og í þjóðfélaginu á undanförnum árum með því að krefjast ábyrgrar fjármálastjórnar af ríki og atvinnuvegum, ætli í fyrsta sinn þegar hann afgreiðir fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á Alþingi að standa að svona afgreiðslu. Hann er ekki öfundsverður af því hlutskipti, hv. þm. Þorsteinn Pálsson að hans fyrstu afskipti af ríkisfjármálum, lánsfjármálum og efnahagsstjórn á Alþingi Íslendinga sé að afgreiða marklausustu lánsfjáráætlun sem hér hefur verið til umr. á undanförnum árum.

En það er það sem hér er að gerast. Það er það sem ríkisstj. er að reyna að pína í gegn. Slíkir menn geta aldrei aftur komið fram á opinberan vettvang og gert kröfu til ábyrgrar fjármálastjórnar eða gert kröfu til annarra um að þeir sýni festu, skýrleika og heiðarleika í meðferð mála af þessu tagi. (HBl: Er þetta nú ekki ofmælt?) Nei, það er ekki ofmælt, hv. þm. Halldór Blöndal. Við erum orðnir vanir þessu frá þér en við væntum þess satt að segja að þegar hinn nýi formaður

Sjálfstfl., fyrrverandi framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, sem hefur verið mikill þátttakandi í umr. um nauðsyn ábyrgrar fjármálastjórnar í þjóðfélaginu — og þar hef ég oft og tíðum verið honum sammála um margt, þó ég hafi verið honum ósammála um annað — skuli láta það verða sitt fyrsta verk sem nm. í fjh.- og viðskn. þessarar deildar að leggja til að frv. verði samþykkt með þessum hætti.

Ég er ekkert hissa á hv. þm. Páli Péturssyni. Hann vill láta vaða á súðum í þessum efnum eins og öðrum innan þingflokks Framsfl. Ég er kannske ekki heldur alveg eins hissa á hv. þm. Friðrik Sophussyni og þó nokkuð. En að formaður Sjálfstfl. skuli gera það að sínu fyrsta meiri háttar fjárhags- og efnahagsverkefni á Alþingi að leggja til sem nm. í fjh.- og viðskn. að þetta frv. verði samþykkt er einfaldlega yfirlýsing um að hv. þm. Þorsteinn Pálsson óskar ekki eftir því að vera tekinn alvarlega í umr. um efnahagsmál. Hann hefur ekki fyrr á þessu þingi staðið að nál. um meiri háttar frv. í efnahagsstjórn. Þetta er hans fyrsta frv. þeirrar ættar og frágangurinn á frv. er yfirlýsing til Alþingis af hálfu hv. þm. Þorsteins Pálssonar um að hann dragi til baka öll sín stóru orð sem fallið hafa á undanförnum árum um nauðsyn ábyrgrar fjármálastjórnar og óski ekki lengur eftir því að vera talinn marktækur í umr. um þau mál heldur ætli sér að dansa þann sukkdans, þann gatadans og þann óráðsíudans sem hæstv. ráðherrar dansa.

En það vil ég segja við hv. þm. Þorstein Pálsson í fullri einlægni og fullum vinskap að kannske væri þörf á því, ef hv. þm. Þorsteinn Pálsson ætlar ekki að missa algjörlega tökin á atburðarásinni að hann hugleiði í alvöru að fara að dæmi hv. þm. Ólafs Jóhannessonar, fyrrv. forsrh. og fyrrv. formanns Framsfl., og afhjúpi þennan skollaleik sem, eins og hv. þm. Ólafur Jóhannesson sagði réttilega, allir sjá í gegnum. Því hv. þm. Ólafur Jóhannesson þekkir það af langri reynslu að sá tími kemur í ferli hverrar ríkisstj. að það borgar sig að segja sannleikann. Það var það sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson var að gera í dag. Það væri verðugt verkefni fyrir hinn nýja formann Sjálfstfl. að hugleiða í alvöru hvenær hann ætlar að koma fram og ganga í lið þeirra sem segja þjóðinni sannleikann í þessum efnum.