19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3855 í B-deild Alþingistíðinda. (3264)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Svavar Gestsson:

Herra forseti: Ég hafði gert ráð fyrir að ráðh. reyndu að drattast hér í stólinn einu sinni enn. væru ekki orðnir svo þungir af setunni þarna að þeir kæmust ekki þennan spöl. — En hæstv. fjmrh. spyr til hvers, og er greinilega undrandi á því að menn skuli þurfa að ræða við hann um þessi mál. Hann hefur haft þann hátt á í þessari umr., eins og svo oft áður, að reyna að axla málinu fram af sér og hefur ekki lagt sig mjög fram um, að mér hefur fundist stundum, að reyna að setja sig í smáatriðum inn í þau mál sem hér eru á dagskrá og menn þurfa þó að kunna skil á ef þeir ætla að fylgja þeim í gegnum þingið.

Hæstv. forsrh. var hins vegar að greiða fyrir umr. hérna áðan, flýta fyrir því að lokið yrði 3. umr. um lánsfjárlög. Hann fullyrti í fyrsta lagi að ég hefði í máli mínu fyrr í dag í tvígang farið rangt með það sem hann sagði. Það er mjög athyglisvert ef ég hef gert svo, vegna þess að ég tók eftir því að þessi orð hans vöktu gífurlega athygli í salnum. Ég var áreiðanlega ekki sá eini sem skildi hans orð svo, að hann væri bæði sammála hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., sem þó höfðu gjörsamlega gagnstæðar skoðanir á því máli sem var um að ræða þá stundina. Hæstv. forsrh. hefur einfaldlega orðað hlutina illa og óskýrt og það er þess vegna sem hann verður svo að koma í stólinn aftur og þýðir ekkert fyrir hann að reyna að bera upp á mig útúrsnúning í því efni. Málið snýst heldur ekkert um hvort mér sárni eitt eða neitt í þessum efnum. Það er ekki það sem stjórnarandstaðan hefur verið að tala hér um. Ekki var hv. þm. Kristín S. Kvaran í síðustu ríkisstj. svo ég nefni dæmi — ekki félmrh. né heldur talsmaður þeirrar stjórnar. (Gripið fram í.) Ég skal biðja um orðið um þingsköp vegna framkomu ráðh. Ef hæstv. fjmrh. óskar eftir því get ég tekið mér tíma í það.

Hæstv. forsrh. dró því miður í land í sinni yfirlýsingu áðan og reyndist vera sammála hæstv. fjmrh., en ekki félmrh. Hann sagði í sambandi við byggingarsjóðina að hann væri ekki tilbúinn að taka ábyrgð á þeim að öðru leyti en því að leitast yrði við að tryggja fjárhag þeirra ef lánsfjáröflunin brygðist. Og hvað segir þetta í raun og veru? Hæstv. forsrh. er að tala um að þarna hafi fyrst og fremst verið átt við lífeyrissjóðina. Það er algjörlega rangt. Hérna er verið að tala um það, ef forsrh. hefur ekki tekið eftir því undanfarna daga, að það vantar 200 millj. af sérstakri fjáröflun í húsnæðislánakerfið, sem er í óvissu, það vantar 115 millj. af því sem á að koma frá Atvinnuleysistryggingasjóði, en kemur þaðan ekki, og það vantar 75 millj. upp á áætlun í sambandi við skyldusparnaðinn. Það er þetta fjármagn sem verið er að tala um. Það er ekkert verið að tala hér um lífeyrissjóðina. Ef menn hefðu nennt að setja sig inn í þessa lánsfjáráætlun og skilja um hvað hún snýst mundu menn vita um að þessi vandi er upp á 5–6-700 millj. kr.

Það er svo auðvelt fyrir forsrh. að koma upp og hrósa sér af því að ríkisstj. hafi nú bjargað málum húsbyggjenda. Með hverju? Það liggur ekkert fyrir um hvernig það á að gerast á árinu 1984. Það er allt galopið. Það eru engar upplýsingar til um það til eða frá. Ráðh. hafa engu svarað. Félmrh. hefur sagt: Ég trúi, ég trúi. — Vonandi verður honum að trú sinni. Aftur og aftur hef ég lýst því yfir að ég er tilbúinn að styðja hann til þess að það náist saman endar hjá Húsnæðisstofnuninni. En það liggur ekkert annað fyrir en trú hæstv. félmrh. Trú hefur stundum gefist mönnum vel undir Jökli. Vonandi gengur honum vel líka í þetta skipti.

Staðreyndin er sú, að það alvarlega sem stendur upp úr í umr. núna er að félmrh. hefur ekki treyst sér til að sverja af sér fyrirhugaðan niðurskurð á verkamannabústaðakerfinu. Það er verið að segja við það fólk sem verið er að úthluta verkamannabústöðum núna: Bíðið þið fram á árið 1986. — Og hitt, sem er stóralvarlegt, er að hæstv. forsrh. hefur gengið í lið með óvissuöflunum í sambandi við Byggingarsjóð ríkisins ásamt hæstv. fjmrh. Það er alvarlegt og það er mikill ábyrgðarhluti af hæstv, félmrh. að ganga frá lánsfjáráætlun svona árið 1984. En eins og ég tók fram áðan lít ég svo á að yfirlýsing hans frá s. l. miðvikudegi standi þar sem ekki hefur annað verið tekið fram og þeir sem slíkar yfirlýsingar gefa séu ómerkir orða sinna ef þær ekki koma til framkvæmda.

Staðan í þessum málum er sú, að það er verið að afgreiða hér lánsfjárl. þar sem allt er í uppnámi. Lánsfjárlögin eru ekki gat heldur gatasigti. Það er ekkert sem stemmir. Það var þess vegna sem stjórnarandstaðan lagði til af velvild sinni að málinu yrði vísað aftur til ríkisstj., þannig að ríkisstj. gæti gert heimaverkefni sín betur en hún hefur gert til þessa.