19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3860 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að gefa hæstv. ríkisstj. tækifæri til þess á lokastigi málsins að sjá sig um hönd og gefa þinginu tækifæri til að fjalla um þau göt sem tvímælalaust hafa verið leidd í ljós í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Ef hæstv. ráðh. hafa ekki vilja til þess að taka þessu tilboði, hafna því algjörlega og vilja fá þetta frv. afgreitt svona úr garði gert, eins og hér hefur verið lýst mjög rækilega, er það auðvitað þeirra vilji. Þeir ráða í þeim efnum.

Ósk mín til hæstv. forseta var eingöngu sett fram í því skyni að gefa hæstv. ríkisstj. tækifæri til þess nú í matarhléinu að hugsa sig um. Vill hún taka því tilboði að erlendi lánahlutinn yrði afgreiddur nú og síðan gæfist þinginu tækifæri til að fara ofan í alla aðra þætti málsins og leiða þá skýrt fram til þess að þjóðin þyrfti ekki til viðbótar við stórgötótt og sundurskotið fjárlagafrv. að standa uppi með botnlausar fjárfestingar á lánsfjáráætlun? Þetta er annað meginplaggið í efnahagsstjórn ríkisins. En ef hæstv. ráðh. vilja ekki taka þessu tilboði, herra forseti, á forseti engan annan kost en að ljúka þessari umr.

En það verður hins vegar tekið eftir því síðar meir og á það minnt að hæstv. ríkisstj. átti þennan kost, að geyma afgreiðslu þessara mála í þinginu þar til þau skýrðust nánar, en hún hafnaði því. Þá þýðir ekkert, hæstv. fjmrh., að koma á nýjan leik og segja að hæstv. ráðh. hafi ekki verið varaður við. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðh. segir að ég eigi að hætta að spila trúð. Þetta er— (Forseti: Ekki samtal). Jú, ég held að það að þau komi fram hér sé einmitt af hinu góða svo að þingsagan og þingtíðindin fái að geyma mjög rækilega síðustu orð hæstv. fjmrh. í umr. um þetta mál hér í deildinni. Ef nokkurn tíma hefur verið lögð fram trúðsleg lánsfjáráætlun og trúðslegt lagafrv., sem er byggt á þeim skollaleik sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson greindi frá í Ed. í dag, þá er það það sem hér er verið að afgreiða. (Gripið fram í.) Hæstv. fjmrh. situr uppi með þann titil, reynslan sýnir að hann er mesti trúðurinn sem setið hefur í embætti fjmrh. á Íslandi. (Gripið fram í.) Hann er með sundurskotna trúðshúfu, hann er með sundurskotinn trúðskufl, hann er með stórt gat á nefinu til að minna á götin í fjárlagafrv. og lánsfjáráætluninni og birtist þjóðinni í þeim búningi. Það ber svo að fagna því að þessi setning hafi verið lokin á ummælum hæstv. fjmrh. og komi þannig í þingtíðindin. — [Fundarhlé.]