19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3861 í B-deild Alþingistíðinda. (3274)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þessi brtt. var flutt af meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. núna við 3. umr. málsins og málið kom aldrei til meðferðar í fjh.- og viðskn. (PP: Þér sýnist það.) Ég er ekki búinn að ljúka máli mínu, hv. þm.

Forsendur málsins hafa aldrei legið fyrir, hvorki fyrir fjh.- og viðskn. sem hv. þm. og frammíkallari er formaður fyrir, né heldur hefur hv. þm. haft fyrir því að kynna deildinni málið. Ég vil láta þessa getið vegna þess að hér er mjög óvenjulega að málum staðið. Ég tel að nauðsynlegt sé að fara þess á leit við hæstv. félmrh., sem fer með málefni Bjargráðasjóðs, að hann geri fjh.og viðskn. grein fyrir þessu máli á síðari stigum þannig að n. megi fara yfir þá úthlutun sem hér er ráðgert að fram fari. Mér finnst orðalagið á þessu að sumu leyti nokkuð óljóst en þó er það ekki ólíkt því sem var þegar um var að ræða sjálfskuldarábyrgð á láni vegna kartöflubænda sem var afgreitt við 2. umr. málsins.

Með tilliti til þess að ég geri ráð fyrir því að hér verði farið með mál á svipaðan hátt og verið hefur á vegum Bjargráðasjóðs þá segi ég já við þessari till.