19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3862 í B-deild Alþingistíðinda. (3278)

196. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Eins og fram kom við 1. umr. skipaði landbrh. í desembermánuði 1982 nefnd til þess að huga að afkomu bænda, m. a. með hliðsjón af árferðisáföllum og mismunandi tekjum eftir búgreinum. Formaður þessarar nefndar var Bjarni Bragi Jónsson hagfræðingur, aðstoðarbankastjóri í Seðlabankanum. Aðrir nm. voru Ingi Tryggvason formaður Stéttarsambands bænda, Jón Ólafsson bóndi í Eystra-Geldingarholti, Sigurður Líndal bóndi á Lækjamóti og Sigurður Sigurðsson bóndi á Brúnastöðum. Í skýrslu, sem þessi nefnd hefur sent frá sér, segir m. a., með leyfi forseta:

„Þörfin fyrir skuldbreytingu svo fljótt eftir hina síðustu á sér að mörgu leyti sömu orsakir og þá, en einnig er um nýtilkomnar ástæður að ræða:

1. Ófullnægjandi frumfjármögnun fjárfestingar af lánshlutfalli og lánalengd sem einkum kemur hart niður á frumbýlingum.

2. Sérstök árferðisáföll, svo sem árið 1979 og væntanlega aftur nú 1983, svo og langvarandi örðugt tíðarfar, en það hefur komið misjafnt niður eftir landshlutum.

3. Skipulegur framleiðslusamdráttur sem haft hefur í för með sér þyngingu fjármagnskostnaðar miðað við afurðatekjur.

4. Verðtrygging mikils og vaxandi hluta lánsfjárins án þess að lengd lána hafi enn þróast til fulls samræmis við það.“

Síðar segir í þessari skýrslu:

„Af þeim athugunum sem gerðar hafa verið skv. framansögðu og umr. um þær virðist mega draga eftirfarandi ályktanir um fjárhagsvanda bænda. Ljóst er að vandinn er að nokkru almennur, háður efnahagsárferði landsins, verðbólgu, lánsfjárstefnu og stöðu landbúnaðarins í hagþróun. Markaðsþrengsli og þvingaður samdráttur framleiðslunnar skapa landbúnaðinum sérstöðu meðal atvinnuvega enda þótt vandkvæði af þeim sökum séu ekki sambærileg við þann vanda sem nú mæðir á sjávarútvegi.“

Enn segir í þessari skýrslu:

„Lán til landbúnaðar eru bæði til bænda, einkum fjárfestingarlánin, og til vinnslu- og afurðasölufyrirtækja sem bændur bera kostnað af og standa ábyrgir fyrir. Lán lánastofnana til íbúðarbygginga og kaupa eru ekki með tekin.“

Landbn. kallaði fyrir sig formann þessarar nefndar, Bjarna Braga Jónsson, og enn fremur Stefán Pálsson bankastjóra í Búnaðarbankanum. Nefndin hélt nokkra fundi um málið og eins og kemur fram í nál. meiri hl. á þskj. 438 leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt með breytingum sem eru á sérstöku þskj. Auk þess áskilja einstakir nm. sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

Þessar brtt. sem meiri hl. landbn. leggur til eru í fyrsta lagi að í 1. gr. bætist orðin „til búrekstrar“ og þá verði mgr. þannig: „Bankavaxtabréfin skulu notuð til þess að breyta í föst lán lausaskuldum bænda vegna fjárfestinga til búrekstrar á jörðum þeirra árin 1979–1983, að báðum árum meðtöldum.“

Í öðru lagi stóð í frv. í 2: gr., 2. mgr.: „Ákvörðun um lánakjör skal tekin af stjórn veðdeildar Búnaðarbanka Íslands ásamt fulltrúum Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins, að fengnu samþykki landbrh.“

Stjórn veðdeildarinnar er bankaráð Búnaðarbankans og í bankaráðinu hafa náttúrlega ekki aðrir atkvæðisrétt en þeir sem eru stjórnendur í bankaráðinu. Þar af leiðir að meiri hl. gerir þá till. að síðari mgr. 2. gr. orðist svo:

„Ákvörðun um lánakjör skal tekin af bankaráði Búnaðarbanka Íslands að höfðu samráði við fulltrúa Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins, að fengnu samþykki landbrh.“

Í þriðja lagi er breyting til samræmis við þetta við 6. gr.

Við 1. umr. þessa máls urðu verulegar umr. um þetta mál og var talið af ýmsum að jafneðlilegt væri að breyta lausaskuldum annarra, t. d. húsbyggjenda. Voru mörg orð höfð um það og raunar í framhaldi af því tillöguflutningur sem ég ætla ekki að fara út í að öðru leyti en því, að ég vil svara því sem þar kom fram á þann veg að frá síðustu lausaskuldabreytingu í þágu bænda um áramótin 19?9 og 1980 hafa farið fram tvær umferðir skuldbreytinga fyrir íbúðabyggjendur. Hin fyrri fór fram árið 1981. Voru styttri íbúðarlán viðskiptabanka og sparisjóða þá yfirleitt lengd í átta ár og svipaðri lánalengd að mestu haldið síðan á lánum ætluðum sem viðbótarlán. Við valdatöku núv. ríkisstj. var boðið upp á tvenns konar lánalengingu: Í fyrsta lagi frestun fram yfir lánstímann á fjórðungi ársgreiðslu íbúðarlána. Í öðru lagi lausaskuldbreytingu vegna þeirra sem byggt hafa eða keypt íbúð fyrsta sinn undanfarin 2–3 ár. Þessi skuldbreyting hefur verið í gangi að undanförnu eins og hv. alþm. vita en upplýsingar um fjárhæðir liggja ekki enn fyrir.

Í sambandi við sjávarútveginn má minna á það í sambandi við þær till. sem hér liggja fyrir og þær umr. sem fram fóru að á síðari hluta árs 1982 og fram um áramótin 1982–1983 fór fram víðtæk breyting lausaskulda sjávarútvegsins, ekki aðeins við lánastofnanir heldur einnig viðskiptaaðila útvegsins. Nam heildarskuldbreytingin sem þá var gerð 577 millj. kr. fyrir milligöngu viðskiptabankanna og með sérstakri fyrirgreiðslu Seðlabankans við þá. Út af því sem fram hefur komið um þetta mál vil ég minna á þetta því að segja má að skipun þessarar nefndar, sem fyrrv. landbrh., Pálmi Jónsson. skipaði eins og ég gat um áðan og núv. landbrh. fól að halda áfram könnun sinni á skuldastöðu bænda, sé í beinu framhaldi af þessum skuldbreytingum. Þessi skuldbreyting gefur því ekkert fordæmi til skuldbreytinga gagnvart öðrum aðilum. Þetta vil ég að komi hér fram.

Ég ætla ekki að ræða mikið um þær brtt. sem hér liggja fyrir. Ég vil segja það að í sambandi við þær brtt. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flytur að þó að ég sé t. d. fyrri till. efnislega sammála að flestu leyti tel ég að 1. gr. frv. feli hana að mestu leyti í sér. Í síðari brtt. leggur hv. þm. til að innlánsstofnunum sé skylt að taka við bankavaxtabréfum er gefin verða út skv. lögum þessum, Seðlabankinn endurkaupi þessi bréf. Þegar ég fer að rifja upp þær umr. sem fram hafa farið í sambandi við skuldbreytingar undanfarið minnist ég þess að rætt hefur verið um þetta hvað eftir annað. Margir af áhrifamönnum í bændastétt hafa bent á að varla væri vogandi að fara að lögþvinga slíkt vegna þess að þá væri hætt við því að ýmsar lánastofnanir mundu verða hikandi að lána bændum sem eru í erfiðleikum og eru að byggja upp á jörðum sínum miklar upphæðir ef þær mættu eiga það víst að síðan gæti svo farið að þeir væru með lögum skyldaðir til þess að taka bankavaxtabréf til langs tíma með hinum ýmsu kjörum. Seðlabankinn hefur tekið þessi bréf af innlánsstofnunum kaupfélaganna og minni sparisjóðanna, þ. e. þeim sparisjóðum og innlánsstofnunum sem eru með heildarinnlán undir 56 millj. kr., en það munu vera 54 sparisjóðir og innlánsstofnanir sem eru með innlán undir þessari tölu. Þannig að þó það hefði kannske verið að sumu leyti æskilegt ef hefði verið hægt að ganga frá þessu þannig að tryggt væri að innlánsstofnanir og Seðlabankinn endurkeyptu þessi bréf er fleira í þessu máli sem verður að athuga. Þær skuldbreytingar sem áður hafa verið gerðar hafa, held ég, tekist með allbærilegum hætti.

Vitnað hefur verið í bréf sem birst hefur í blöðum frá Guðmundi Sigurðssyni, Áslandi í Hrunamannahreppi, þar sem hann er með vangaveltur út af þessu máli. Hann segir að veðdeild Búnaðarbankans hafi tekið 1% í þóknun fyrir sín störf. Þetta er mishermt, það er 1/2% sem var tekið við síðustu skuldbreytingu og ég vil að það leiðréttist og að hv. þm. viti hið sanna í því máli. Guðmundur Sigurðsson er með vangaveltur yfir því hvernig þessi skuldbreyting mundi fara fram. En eins og frv. er úr garði gert á bankaráð Búnaðarbankans að gera till. um málið til landbrh. eða ríkisstj. sem síðan samþykkir það.

Síðast þegar þessi skuldbreyting fór fram voru vextir í bönkum á verðtryggðum lánum 2.5%. Fyrri part ársins 1980, þegar skuldbreytingin fór fram, var þetta.ástand. En kjörin voru þau að þessi bréf voru vaxtalaus. Nú er ástandið þannig á þessum markaði að vextir á þessum bréfum eru í vissum tilvikum komnir yfir 5%. Ég held að ég geti sagt það þó að ekki sé mikið búið að fjalla um þessi mál í bankaráðinu eða í Búnaðarbankanum að auðvitað mun till. bankaráðs Búnaðarbankans miðast við það að þeir sem bændur skulda taki við þessum bréfum en þó þannig að ekki verði afföll af bréfunum. Sem sagt skoðað verður mjög vel áður en gerð verður till. til ríkisstj. um þessi kjör. Þetta er það eina sem ég get sagt á þessu stigi þannig að þessi skuldbreyting komi að tilætluðum notum og nái því markmiði sem að er stefnt.

Nokkuð hefur verið rætt um hver þessi kjör verða, bæði í nefndinni, í blöðum og annars staðar. Sú nefnd sem ég var að vitna í hefur gert sínar till. og auðvitað mun bankaráðið og aðrir sem um þetta fjalla hlusta á till. þessarar nefndar þar sem formaður hennar, eins og ég gat um áðan, er aðstoðarbankastjóri Seðlabankans og hann var í síðustu nefnd líka og ég tel að þá hafi hann einnig unnið mjög gott verk.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þá afstöðu sem minni hl. hefur í þessu máli. Ég held að í raun og veru komi afstaða minni hl. fram í grg. þar sem tekið er fram að ótímabært sé fyrir Alþingi að taka endanlega afstöðu til málsins fyrr en nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir. En síðar kemur upptalning sem kom fram í fyrri umr. þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að fara að lesa hana upp frekar enda mun það koma fram í framsögu minni hl. á eftir.

Að svo komnu máli sé ekki ástæða til þess að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég bara vænti þess að þessi skuldabreyting verði til þess að laga fyrir þeim fjölmörgu bændum sem vegna þeirra orsaka sem ég hef hér talið áður eru í miklum erfiðleikum. Segja má að landbúnaðurinn sé nú í miklum erfiðleikum, kannske meiri erfiðleikum en oft áður af fleiri ástæðum en ég hef talið upp, en ég vil ekki fara út í það á þessu stigi frekar.

Meiri hl. landbn. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef skýrt frá.