19.03.1984
Efri deild: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3871 í B-deild Alþingistíðinda. (3292)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Frv. til lánsfjárlaga, sem verið hefur í þinginu í margar vikur og raunar fleiri mánuði, hefur sætt nokkrum breytingum í Nd. Alþingis þannig að það er nú komið aftur til Ed. Á sínum tíma urðu verulegar umr. um lánsfjárlögin. Gerð var grein fyrir þeirri meginstefnu sem ríkisstj. hefur markað í fjárfestingarmálum, þ. e. að hægja nokkuð á fjárfestingu frá því sem verið hefur um allmörg ár. Mig minnir að gert væri ráð fyrir að fjárfesting yrði tæp 24% af þjóðarframleiðslu sem er talsvert minna en sú stefna sem mörkuð hefur verið við afgreiðslu lánsfjárlaga á mörgum undanförnum árum. Venjulega var þetta hlutfall áætlað á bilinu 25–27% og varð venjulega 26–27% af þjóðarframleiðslu þegar árið var gert upp.

Höfuðeinkenni lánsfjárlaganna er það að hægja á fjárfestingu, sem ætti að draga úr þenslu og væntanlega stuðla að því að halda niðri verðbólgu.

Breytingar urðu í Nd. á 3. gr. lánsfjárlaganna. Landsvirkjun er, skv. því sem Nd. samþykkti nú, heimilt að taka lán á árinu 1984 að fjárhæð allt að 900 millj. kr. sem skiptist þannig:

Í fyrsta lagi til Blönduvirkjunar, 200 millj. kr. Í öðru lagi Kvíslaveitur og Þórisvatn 350 millj. kr. Í þriðja lagi Suðurlína 184 millj. og í fjórða lagi í annað 170 millj.

Þá skal enn fremur gætt ákvæða 14. gr. laga nr. 42/ 1983 við þessar lántökur og teljast lán, sem Landsvirkjun er heimilt að taka skv. þessari grein án samþykkis eignaraðila, hluti af ofangreindri fjárhæð.

Síðan er viðbót við 24. gr. frv., að í stað 2.5 millj. kr., sem þar eru tilgreindar, komi 3.6 millj. kr. En 24. gr. frv. hljóðar þá svo, með leyfi hæstv, forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. laga nr. 35/1970, um skipun prestakalla og prófastsdæma og um Kristnisjóð, skal framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs eigi fara fram úr 3.6 millj. kr. á árinu 1984.“

32. gr. frv. fjallar um það að fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs gegn þeim tryggingum sem hann metur gildar, að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem tekin eru til smíði skips sem Vélsmiðja Seyðisfjarðar hf. hefur í smíðum. Skip þetta má vera allt að 26 metra langt og með vélarafl allt að 600 hestöflum. Mega lánin nema allt að 80% smíðaverðs skipsins skv. mati ríkisábyrgðasjóðs. Ábyrgð þessi skal falla niður þegar smíði skipsins er lokið og skipasmíðastöðin afhendir það til kaupanda.

Þótt afhending skipsins hafi farið fram er fjmrh. heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð erlend vörukaupalán sem tekin kunna að verða fyrir milligöngu innlendra banka til smíði skipsins. Þegar lokið er smíði skipsins mega slík lán nema allt að 20% af endanlegu matsverði skipsins fullbúnu. Til tryggingar sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs komi 2. veðréttur í skipinu og má samanlögð fjárhæð vörukaupalánanna og annarra lána sem á undan eru í veðröð nema allt að 80% af matsverði skipsins fullbúins. Fjmrh. ákveður nánari framkvæmd þessa ákvæðis með reglugerð.

Síðan komi á eftir þessari grein frv. tvær nýjar greinar sem hljóða svo:

„33. gr. Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að endurgreiða Flugleiðum hf. og Cargolux lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli vegna Norður-Atlantshafsflugs. Heimildin gildir fyrir tímabilið 1. okt. 1983 til 31. des. 1984. Ráðh. er heimilt að ákveða nánari framkvæmd lagagreinar þessarar með reglugerð í samráði við fjvn.

34. gr. Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán að fjárhæð allt að 30 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt sem Bjargráðasjóður tekur og endurlánar kartöflubændum vegna uppskerubrests á árinu 1983. Endurlán Bjargráðasjóðs skulu vera með sömu kjörum og til jafnlangs tíma og ábyrgðarlán ríkissjóðs að viðbættri eðlilegri þóknun til Bjargráðasjóðs.“

Þetta er smávægileg, nánast tæknileg, breyting á 12. gr. Þá fjallar brtt. um að 35. gr. heimili ríkisábyrgð fyrir 30 millj. kr. láni til Bjargráðasjóðs, sem endurláni bændum vegna ótíðar sumarið 1983.

Þetta eru þær breytingar sem urðu á frv. í Nd. og hafa nú komið aftur til Ed. Vegna þess að menn hafa áhuga á því, eins og hv. þdm. er kunnugt, að afgreiða þetta mál í kvöld eða nótt eftir atvikum vegna þess að það stendur þannig á með lántökur að þessi heimild þarf helst að verða að lögum fyrr en seinna, vil ég leyfa mér að beina þeim tilmælum til hv. þdm. og fjh.- og viðskn., sem væntanlega fjallar um frv., að stuðla að því að svo megi verða að frv. geti orðið að lögum á þessum fundi.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Það er freistandi að taka eina lotu um skipasmíðarnar og skipastólinn en ég held að ég stilli mig um það. Ég hef þó ekki heyrt neina stórræðu um að loðnuskipin væru of mörg núna alveg á síðustu dögunum en þær voru margar fyrir áramót. En ég skal stilla mig um þetta og leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.