19.03.1984
Efri deild: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3873 í B-deild Alþingistíðinda. (3293)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Lárus Jónsson:

Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur skoðað þetta frv. eins og það kemur frá Nd. en það kemur til Ed. á nýjan leik eins og fram kom hjá hv. þm. Tómasi Árnasyni. Þm. sem styðja ríkisstj. í hv. fjh.- og viðskn. leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kemur frá Nd. Ég skal með örfáum orðum gera grein fyrir þeim breytingum sem urðu á frv. í Nd.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að til Landsvirkjunar verði tekið lán að fjárhæð 900 millj. kr. Það er sama upphæð og gert var ráð fyrir að tekin yrði til láns í frv. upphaflega. En í þeirri brtt. sem samþykkt var í Nd. er gert ráð fyrir að þessari fjárhæð verði varið á nokkuð annan veg en í þeirri till. sem hér var samþykkt á sínum tíma. Hér er gert ráð fyrir því að til Suðurlínu verði varið 180 millj. kr. en þar var um lægri fjárhæð að ræða m. a. Eins er gert ráð fyrir því að framlag til Kristnisjóðs verði 3.6 millj. í stað 2.5. Auk þess eru heimildir, sem samþykktar voru í Nd., fyrir fjmrh. að hann geti heimilað að endurgreiða Flugleiðum hf. og Cargolux lendingargjöld og að fjmrh. hafi heimild til að ábyrgjast sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 30 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt sem Bjargráðasjóður tekur og endurlánar kartöflubændum. Þá er sams konar heimild fyrir fjmrh. til að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán að fjárhæð 30 millj. til Bjargráðasjóðs vegna ótíðar sumarið 1983. Og að lokum er nánast leiðrétting á tilvísun til laga út af ákvæði um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins en þar er ekki um efnisbreytingu að ræða.

Þetta eru þær breytingar sem orðið hafa á frv. í Nd. Ég endurtek að við leggjum til að frv. verði samþ. óbreytt.