31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

11. mál, launamál

Jón Baldvin Hannibalsson (frh.):

Herra forseti. Þess er varla að vænta að ég eða áheyrendur muni hvar var komið ræðu minni fyrir tæpri viku. (Gripið fram í: Það er bættur skaðinn.) Bættur er skaðinn, segir hv. skrifari, og má vel vera að honum þyki það og hann meini það.

Það er fljótsagt hver afstaða okkar jafnaðarmanna er til staðfestingar á þessum umræddu brbl. Þar eru tvö aðalatriði.

Í fyrsta lagi er spurningin: Vilja menn afnema með lögum vísitölukerfi launa, eins og hér er gert ráð fyrir, það vísitölukerfi sem við höfum búið við í rúma fjóra áratugi? Það er annað meginatriðið. Og svar okkar Alþfl.- manna er mjög skýrt og einfalt. Að fenginni reynslu erum við því fylgjandi að það verði afnumið og persónulega gæti ég bætt við: Og þótt fyrr hefði verið.

Hin spurningin er þessi: Geta menn jafnframt fallist á það, um leið og sjálfvirkt vísitölukerfi launa er afnumið, að samningsréttur aðila vinnúmarkaðarins fari þá á sama veg og verði afnuminn með lögum? Svar okkar við þeirri spurningu er jafnskýrt og afdráttarlaust nei og sér í lagi við þessar kringumstæður. Hversu oft hafa menn ekki heyrt sagt: Ef vísitölukerfi launa verður afnumið mun það þýða að aðilar vinnumarkaðarins semji til skemmri tíma, það verði samið oftar en ella. Einmitt þess vegna er algerlega fráleitt, um leið og aukin pólitísk samstaða næst um að falla frá sjálfvirku vísitölukerfi launa, að beita lagasetningarvaldi til að svipta aðila vinnumarkaðarins samningsrétti.

Tilefni þess að þetta þarf að ræðast svolítið betur er í fyrsta lagi aths. hv. 1. þm. Suðurl., Þorsteins Pálssonar, sem í jómfrúrræðu sinni hér á Alþingi fann að gagnrýni stjórnarandstöðunnar á þetta frv. til laga um launamál, einkum og sér í lagi út frá samningsréttarbanninu. Hv. þm. spurði sem svo: Er það krafa stjórnarandstöðunnar að Alþingi hlutist frekar til um málefni vinnumarkaðarins? Er það raunverulega krafa stjórnarandstöðunnar að Alþingi eða löggjafarvaldið líti jafnvel á það sem sitt hlutverk að breyta launahlutföllum á vinnumarkaðinum? Svar okkar er mjög einfalt. Við erum þeirrar skoðunar, að það sé atgert neyðarúrræði að löggjafinn blandi sér í málefni aðila vinnumarkaðarins. Hlutverk þeirra á að vera undir öllum venjulegum kringumstæðum að ná samningum um kaup og kjör, ekki aðeins um launataxta heldur líka launabil, og ég hef takmarkaða trú á því að Alþingi bæti þar um betur undir öllum venjulegum kringumstæðum.

Það er algerlega út í hött að gagnrýni stjórnarandstöðunnar á afnám samningsréttarins feli í sér kröfu um íhlutun ríkisvaldsins í staðinn, þvert á móti. Við segjum sem svo: Afnám vísitölukerfisins var réttlætanlegt. Rök stjórnarsinna fyrir því að fylgja því eftir með afnámi samningsréttar voru að þeir óttuðust að hitt mundi ekki skila árangri í tæka tíð í hjöðnun verðbólgu. Um þessi rök þarf ekki að fara mörgum orðum, því að nú er það komið á daginn að einhliða afnám vísitölukerfis launa hefur þegar skilað mjög umtalsverðum árangri í lækkun framfærsluvísitölu, lækkun verðbólgu minni verðbólguhraða. Það lá fyrir strax þegar þessi brbl. voru sett að samningar opinberra starfsmanna og almennir kjarasamningar yrðu lausir nú í haust. Hafi menn óttast að menn settust að samningaborði áður en árangur væri kominn í ljós er alveg augljóst að sá ótti reyndist ástæðulaus. Þessi meginröksemd fyrir því að beita lagasetningarvaldi til að fresta kjarasamningum er þess vegna fallin um sjálfa sig. Þess vegna er ástæða til að ræða það hér á hv. Alþingi og beina því til hæstv. ríkisstj., hvort ekki sé kominn tími til að hún endurskoði afstöðu sína í þessu máli.

Ég rifja upp að hæstv. forsrh. hefur breytt orðalagi sínu í þessum efnum nokkuð. Hann hefur sagt sem svo, að ef sýnilegt sé að svipaður eða sambærilegur árangur náist að því er varðar hjöðnun verðbólgu á þessu ári til loka þessa árs, þrátt fyrir að fallið verði frá afnámi samningsréttar, þá sé ekkert því til fyrirstöðu að svo verði gert. Ef ég tók rétt eftir viðhafði hæstv. utanrrh. eitthvað svipuð ummæli.

Nú er frá því skýrt að á samráðsfundi hæstv. forsrh. við aðila vinnumarkaðarins, þar sem forustumenn launþegasamtakanna reyndar gengu út af fundi, hafi talsmenn vinnuveitenda tekið eindregið undir þau sjónarmið launþegaforustunnar að ekki væri ástæða til að svipta þá samningsréttinum. M.ö.o.: Ég veit ekki betur en það sé rétt, og ég verð þá leiðréttur hér á eftir, að talsmenn vinnuveitenda hafi sjálfir tekið undir óskir og kröfur forustumanna verkalýðshreyfingarinnar um að samningsrétturinn verði fenginn aðilum vinnumarkaðarins á ný. Af því tilefni vil ég eindregið beina þeim spurningum til hæstv. ráðh., hvort þetta er rétt — og miðað við þeirra eigin ummæli um að þeir séu reiðubúnir að endurskoða afstöðu sína, ef ekkert bendir til þess að sú endurskoðun eyðileggi þann árangur sem þeir vænta um hjöðnun verðbólgu á þessu ári, eru þeir þá ekki reiðubúnir að falla frá umdeildasta atriði þeirra laga sem hér eru til staðfestingar á hv. Alþingi?

Því er yfirleitt slegið föstu, að jafnvel þótt samningaviðræður hæfust innan fárra daga væru sáralitlar líkur á því að þeir samningar yrðu leiddir til niðurstöðu á skemmri tíma en vikum og mánuðum. M.ö.o.: meginröksemdin fyrir því að svipta aðila vinnumarkaðarins samningsrétti er nú fallin um koll, hún stenst ekki lengur. Um það eru menn sammála. Í öðru lagi er ljóst, að jafnvel þótt samningaumleitanir hæfust nú þegar tæki sjálf samningagerðin slíkan tíma að engar líkur eru á því að niðurstöður kjarasamninga hefðu nein úrslitaáhrif á þróun verðbólgu, hver svo sem niðurstaðan yrði, það sem eftir lifir árs. Ég fæ því ekkí betur séð en öll rök mæli með því að það ákvæði umræddra laga sem kveður á um bann við samningsrétti sé með öllu óþarft. Ég leyfi mér úr þessum ræðustól að skora á hæstv. ráðh. að fylgja nú eftir orðum sínum, taka tillit til einróma tilmæla aðila vinnumarkaðarins, ekki aðeins forustumanna verkalýðshreyfingarinnar heldur ýmissa fulltrúa vinnuveitenda einnig, og endurskoða þetta ákvæði og gera það heyrum kunnugt áður en lengra líður á þessar umræður.

Að því er varðar umræður um vísitölukerfi launa og afnám þess er margt hægt að segja. Rétt er að rifja upp að þau mál komu talsvert til umr. á seinasta þingi án þess þó að verða leidd til lykta. Gagnrýni manna á þetta vísitölukerfi beinist að mörgu. Ég segi fyrir mína parta að ég hef verið eindreginn andstæðingur þess um nokkurra ára skeið og minnist þess t.d., að fyrir kosningar 1979 heimsótti ég marga vinnustaði hér í Reykjavíkurborg og dró ekki dul á þá skoðun mína að ég teldi að launþegum væri engin kaupmáttarvörn í því vísitölukerfi eins og það var. Ég minnist þess, að í umr.

á þessum vinnustöðum kom berlega í ljós að allur þorri launþega hér á þéttbýlissvæðunum hafði löngu gert sér grein fyrir því að í þessu kerfi var enginn kaupmáttarvernd fólgin.

Meginástæðan er sú, að þetta vísitölukerfi var byggt á fyrir fram gefnum forsendum um framfærslukostnað í staðinn fyrir að mun skynsamlegra væri að tengja slíkt vísitölukerfi fremur þjóðhagsvísitölu eða viðskiptakjaravísitölu, tengja hana m.ö.o. vexti þjóðarframleiðslu eða þjóðartekna á mann, þannig að um leið og ytri skilyrði þjóðarbúskapar bötnuðu fengju launþegar sjálfkrafa í sinn hlut hærri raunlaun vegna þess að forsendur væru fyrir því, en ef þjóðarbúið yrði fyrir áföllum bitnaði það jafnt á launum sem öðrum þáttum þjóðarframleiðslunnar. Þetta var að mínu mati sú viðmiðun sem verkalýðshreyfingin hefði átt að berjast fyrir sjálf ef hún á annað borð vildi leggja traust sitt og hald á sjálfvirkt vísitölukerfi að því er varðaði kaupmátt, sem hins vegar er fullkomlega álitamál.

Hin fjarstæðukenndu dæmi um áhrif framfærslukostnaðar viðmiðunar vísitölu eru mörg. Úr því sem komið er er slíkt ekki meginatriði þessa máls. Við getum aðeins nefnt sem dæmi að opinberum þjónustufyrirtækjum hér í Reykjavík var árum og áratugum saman haldið niðri að því er varðaði verðlagningu á sinni þjónustu vegna vísitölukerfis. Vísitölukerfið virkaði nefnilega þannig, að ef strætisvagnaþjónusta í Reykjavík hækkaði hækkaði kaupgjald um land allt. Vísitölukerfið virkaði þannig, að ef þjónustufyrirtæki í Reykjavík, eins og Hitaveita Reykjavíkur, hefðu hækkað sín þjónustugjöld til að standa undir eigin rekstri og sínum eigin fjárfestingum — gott og gegnt fyrirtæki á gömlum og grónum merg sem það var — hefði það leitt til kauphækkunar um land allt. Vísitölukerfið virkaði þannig, að um leið og þjóðarbúið varð fyrir verulegum áföllum svo að nefnt sé dæmi um olíuverðsprengingar 1973 og 1979, um leið og reikningur þjóðarbúsins í heild og fyrirtækja, ekki síst fyrirtækja í sjávarútvegi og útflutningsgreinum, vegna olíu hækkaði — þá leiddi það til kauphækkana um land allt. M.ö.o.: þeim mun minni sem geta þj6ðarbúsins og einstakra fyrirtækja varð til þess að greiða hærri laun, þeim mun hærri laun skyldu þau greiða. Það er þetta sem menn eiga við þegar sagt er að þetta vísitölukerfi tryggi á engan máta hagsmuni launþega, það tryggi ekki kaupmátt launþega, það tryggi ekki rekstrargrundvöll fyrirtækja, það tryggi raunverulega ekki neitt nema hringekju verðbólgunnar að sínum hluta, það tryggi sívaxandi útgjöld án tillits til þess hver var þróun raunstærða þjóðarbúsins. Og því fór fjarri að það tryggði kaupmátt launa, hvorki kauptaxta né raunverulegra ráðstöfunartekna, sbr. þá staðreynd að kaupmáttur kauptaxta hefur farið minnkandi á Íslandi allt frá árinu 1978.

Gallarnir á þessu vísitölukerfi voru margir fleiri. Ég ætla aðeins að nefna það, að ríkisstj. sem vildi hækka óbeina skatta til að draga úr eftirspurn og kaupmætti gat ekki gert það vegna þess að óbeinir skattar voru inni í vísitölukerfinu. Það þýddi að um leið og óbeinir skattar voru hækkaðir, annaðhvort til að draga úr eftirspurn eða til að auka samneyslu eða félagslega þjónustu þegnanna, sem raunverulega er kaupmáttaraukandi á sinn máta, fór kaupgjald í landinu hækkandi. M.ö.o.: þarna rak hvað sig á annars horn. Aðgerð til að draga úr kaupmætti einkaneyslu, draga úr eftirspurn, hafði þveröfug áhrif. Sama er að segja um þá hugmynd að beinir skattar voru ekki inni í vísitölukerfinu. Þannig var vísitölukerfið farið að ráða skattakerfinu. Það leiddi til þess að ríkisvaldið sóttist eftir því að hafa áhrif á kaupgjald, vísitölu og verðbólgu með niðurgreiðslu og eru fræg að endemum ýmis dæmi þeirra vísitölufalsana.

Enn eitt dæmi um skaðleg áhrif þessa vísitölukerfis eru áhrif þess á orkubúskap þjóðarinnar. Hæstv. iðnrh. vitnaði til þess í frægum sjónvarpsþætti um daginn, að á liðnum áratug hefði það gerst að verðlagning á þjónustu orkufyrirtækjanna hefði ekki nándar nærri því fylgt byggingarvísitölu, henni hefði verið haldið í skefjum. Afleiðingarnar voru þær, að ekki einasta ný fjárfesting í orkubúskapnum heldur rekstur orkufyrirtækjanna var fjármagnað með erlendum lánum. Allt var þetta réttlætt með því að ekki væri gerlegt að verðleggja þessa þjónustu réttilega vegna áhrifa á vísitölukerfið, það mundi hækka kaup, framleiðslukostnað og verðbólgu.

Þessi dæmi eiga að nægja til að sýna fram á hversu fáránlegt og vitlaust í alla staði þetta vísitölukerfi var. Og það er reyndar undrunarefni, eftir alla þá umræðu sem átt hefur sér stað um þessi mál, eftir allar þær atlögur sem gerðar hafa verið af hálfu ýmissa ríkisstjórna til að koma þessu kerfi fyrir kattarnef eða breyta því, að ekkert skuli hafa gengið. Það er því miður, hygg ég, verkalýðshreyfingunni til lítils sóma að hafa hvað eftir annað tekið þátt í tilraunum og umræðum, t.d. í sérstökum nefndum um þetta mál, þar sem tilgangurinn var að fá þessu kerfi breytt, fá helstu agnúana af því sniðna, fá það stokkað upp í grundvallaratriðum eða jafnvel afnumið, að fulltrúar launþegasamtakanna skyldu ekki sjálfir taka frumkvæði að því í tæka tíð í staðinn fyrir að þvælast fyrir, kveða ekki upp úr um afstöðu sína, fá málunum slegið á frest með þeim afleiðingum, sem óhjákvæmilegar voru, að loksins kom að því að kerfinu varð ekki lengur uppi haldið og það var afnumið með einu pennastriki.

Ef marka má yfirlýsingar einstakra talsmanna stjórnmálaflokka er nú svo komið að allflestir viðurkenna að rétt sé og skynsamlegt að afnema þetta vísitölukerfi. Ég vitnaði til þess, að við Alþfl.-menn sögðum fyrir seinustu kosningar að vísitölukerfið hefði gengið sér til húðar, það bæri að afnema. Stjórnarflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., eru báðir þeirrar skoðunar að þetta kerfi beri að afnema, sbr. þetta frv. Ég minni á að hv. 7. þm. Reykv. Guðmundur J. Guðmundsson sagði í umr. um stefnuræðu forsrh. að krafa verkalýðshreyfingarinnar væri um samningsrétt, og undir það tökum við, en hún væri engan veginn endilega um að fá aftur gamla vitlausa vísitölukerfið.

Því má bæta við að aðstoðarmaður hv. 7. þm. Reykv., þ.e. aðstoðarmaður hans í stéttarfélaginu Dagsbrún, fyrrum aðstoðarmaður fjmrh. og einn af fáum mönnum í Alþb. sem sett hefur fram á undanförnum árum skynsamlegar skoðanir á efnahagsmálum, kvað upp úr um það strax á s.l. ári að vísitölukerfið hefði gengið sér til húðar. Hér á ég við Þröst Ólafsson fyrrum aðstoðarmann fjmrh., nú aðstoðarmann formanns Dagsbrúnar. Hann kvað upp úr um það strax á s.l. vetri að þetta kerfi hefði gengið sér til húðar, vísitölukerfi launa tryggði ekkert annað en viðgang verðbólgunnar, sagði hann. Hann kvað upp úr um það, að þetta kerfi væri verkalýðshreyfingunni, launþegum í landinu, ekki lengur í hag.

Ég hlýt því að komast að þeirri niðurstöðu að þeir séu orðnir ákaflega fáir sem mæla bót þessu gamla vísitölukerfi. Ég fæ ekki betur séð en að loksins sé svo komið, að allur þorri manna, jafnt meðal launþega, atvinnurekenda og forsvarsmanna stjórnmálaflokka, sé kominn að þeirri niðurstöðu að þetta gamla vísitölukerfi beri ekki að endurreisa. sjálfur er ég þeirrar skoðunar og hef verið lengi, að þetta væri fráleitt kerfi.

Ég bæti því að vísu gjarnan við, að það er ekki nóg og ekki einhlítt að afnema þennan þátt sjálfvirkninnar í okkar þjóðarbúskap. Það hefði átt að ganga lengra og afnema líka sjálfvirk tengsl milli meðaltalslauna launþega annars vegar og hins vegar búvöruverðlags. Það ætti líka um leið að afnema sjálfvirk tengsl milli landbúnaðarframleiðslu og niðurgreiðslna eða styrkja af almannafé til að greiða niður framleiðslukostnað við offramleiðslu landbúnaðarvara. Reyndar er þetta allt saman ein heild, þessi sjálfvirku tengsl sem finna má í ríkisbúskapnum. Það hefði auðvitað verið rétt, um leið og hæstv. ríkisstj. réðst til atlögu gegn sjálfvirku vísitölukerfi verðlags og launa, að stíga skrefið til fulls. Ef hún hefði gert það stæði hún betur að vígi gagnvart gagnrýni okkar stjórnarandstæðinga þegar við segjum: Þessar aðgerðir bitna um of einhliða á launþegum. Hér er raunverulega verið að framvísa reikningum vegna óstjórnar s.l. áratugar — framvísa þeim reikningum til launþega. En það eru ákveðnir þættir í þjóðarbúskap okkar sem eru undanskildir. Það eru ákveðnir forréttindahópar sem ekki eru látnir borga sinn hlut af óhjákvæmilegum herkostnaði í stríðinu við verðbólguna eða af þeim gjaldföllnu reikningum sem fyrrv. ríkisstj. eru nú að framvísa.

En látum það útrætt. Meginkjarni málsins er sá, að ég fæ ekki séð að úr þessu verði þær kröfur hafðar uppi að hið gamla vísitölukerfi launa verði endurreist. Ég held að segja megi að það sé hér með grafið og huslað í eitt skipti fyrir öll og ég harma það lítt. Ágreiningsefnið er því ekki um vísitölukerfið.

Nú má vel vera að málsvarar verkalýðshreyfingarinnar eigi síðar meir eftir að setja fram kröfur um nýtt vísitölukerfi. Það eru uppi ýmsar hugmyndir um að hægt sé að taka upp aðrar aðferðir við að tryggja kaupmátt launa — aðrar aðferðir en nákvæmlega það vísitölukerfi sem við bjuggum við. Einfaldasta dæmið um það er ósköp einfaldlega ákvæði í samningum um það, að ef verðbólgan verður meiri en spáð er á samningstímabilinu séu samningar lausir og megi taka þá til endurskoðunar.

Þessa hluti þýðir ekki að ræða fyrir fram. Við skulum sjá hvaða kröfur þar eru fram settar. Sjálfur hef ég afar litla trú á slíkum kerfum. Ég bendi á reynstu annarra þjóða í því efni. Sér í lagi er athyglisverður sá árangur sem Vestur-Þjóðverjar hafa náð og reyndar þýski heimurinn, Vestur-Þjóðverjar, Austurríkismenn og Svisslendingar. Vestur-Þjóðverjar hafa tekið þann kost, minnugir reynslunnar frá Weimar og hruns þess lýðveldis á sinni tíð, að binda það í stjórnarskrá að vísitölukerfi af þessu tagi samrýmist ekki stjórnarskránni. Reynsla þeirra af því er góð. Þeim hefur óneitanlega gengið betur að bæta lífskjör þýskra þegna jafnt og þétt, auka kaupmátt, auka framleiðni o.s.frv. en okkur þrátt fyrir ákvæði að forminu til um verndun kaupmáttar með vísitölukerfi. Ég held við ættum að læra lexíuna í eitt skipti fyrir öll og forðast slík kerfi. Við skulum aðeins rifja upp að af þeim rúmlega 40 árum sem við höfum búið við sjálfvirkt vísitölukerfi var þetta kerfi óskert einungis í tæplega þrjú ár á öllum þessum árafjölda, frá 1940 til 1982. Allan tímann voru ríkisstjórnir að basla við sjálfvirkar verðbólguafleiðingar af þessu kerfi. Ætti sú reynsla að nægja okkur, a.m.k. næstu árin ef ekki áratugina, til þess að læra rétta lexíu. M.ö.o.: vísitölukerfið var gagnslaust, það var skaðlegt. Það má kannske orða það í einni setningu á þann veg, að ef hagstjórn er skynsamleg í einu landi, þannig að sómasamlegt jafnvægi ríki, er vísitölukerfi af þessu tagi með öllu óþarft. Ef hagstjórn er vitlaus og galin, og þjóðarbúskapurinn rekinn frámunalega illa, jafnvægisleysið er mikið, óðaverðbólga er mikil, þá gerir vísitölukerfið ekkert gagn, þá gerir það aðeins illt verra.

En þá er það spurningin um samningsréttinn. Það er mjög einfalt mál, að meðan verið er að ná niður hrikalegri verðbólgu, eins og við höfum búið við allt of lengi, og það er gert með því að afnema sjálfvirkt vísitölukerfi, þá skyldi maður ætla að launþegar brygðust við á þann veg að þeir mundu reyna að ná samningum til skemmri tíma en ella hefði verið. Einmitt þess vegna er það fráleitt að ætla með lögum að svipta aðila vinnumarkaðarins samningsrétti mánuðum saman, meir en hálft ár, á sama tíma og vísitölukerfið er numið úr gildi. Ég hef áður sagt: Röksemdirnar fyrir þessari aðgerð eru fallnar um koll, þær standast ekki lengur. Bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa viðurkennt að þeir gætu fallist á að endurskoða þetta ákvæði. Ég held að það sé þarflaust að ræða það miklu frekar fyrr en það kemur á daginn hver alvara fylgir þeim orðum. Auðvitað væri æskilegt að þessi ummæli væru endurtekin hér og það kæmi skýrt og skilmerkilega fram við þinglega afgreiðslu málsins að ekkert er því til fyrirstöðu af hálfu stjórnarflokkanna eða hæstv. ríkisstj. að skila aftur samningsréttinum, enda engin rök fyrir því að beita lagaþvingunum lengur. Það gerir aðeins illt verra. Það er aðeins einn þáttur í því að efna að óþörfu til tortryggni, úlfúðar og stéttaátaka. Auðvitað er það meginatriðið út frá sjónarmiði einnar ríkisstjórnar að þau markmið sem ríkisstj. hefur sett sér náist. Og allir aðilar hafa lýst því yfir að úr því sem komið er sé sýnt að þau markmið náist á þessu ári, án þess að nauðsynlegt sé að lögbinda samningsrétt. Þess vegna væri það auðvitað stórpólitísk aðgerð og hefði verulegt gildi ef þessum orðum yrði fylgt eftir með því að í meðferð þingsins nú væri samningsréttinum skilað til aðila vinnumarkaðarins.

Herra forseti. Annað tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs var það, að fyrr við umr. kom enn einu sinni fram að hæstv. forsrh. vill enn ekki viðurkenna að fyrir löngu sé svo komið í okkar þjóðarbúskap að það sé orðið eitt af erfiðari efnahagsvandamálum þjóðarinnar að fiskveiðifloti okkar er of stór, að á undanförnum árum hefur verið fjárfest allt of mikið í nýjum veiðiskipum og að afleiðingar þess eru nú að flestra manna mati eitt erfiðasta efnahagsvandamál þjóðarinnar og reyndar hrikalegt viðfangs.

Það þýðir ekki að deila um það, enda er það ekki meginatriði málsins, hver beri hér stærsta sök. Það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir. Hæstv. forsrh. veifaði hér gömlu dagblaði og tíundaði hvað hver sjávarútvegsráðherra í seinustu ríkisstjórnum hafði veitt margar heimildir fyrir innflutningi á mörgum nýjum skipum. Það liggur allt saman ljóst fyrir. Það liggur ljóst fyrir að um það leyti sem hann tók við sem sjútvrh. í fyrrv. ríkisstj. höfðu verið veittar heimildir, af hálfu allra sjútvrh. þessara ríkisstjórna fyrir innflutningi og smíðum 90 togara. Það liggur alveg ljóst fyrir að í sjútvrh.-tíð Kjartans Jóhannssonar, en þá voru veittar heimildir fyrir sex nýjum togurum, var að lokum tekin sú ákvörðun að stöðva þennan innflutning. Ástæðurnar fyrir þessu voru augljósar. Framan af var þetta mjög eðlileg, arðvænleg og gagnleg fjárfesting, í rökréttu samhengi við stækkun okkar á landhelginni. En eftir 1975–1976 var hins vegar fyrstu viðvörunarbjöllum hringt um að afkastageta fiskistofna væri ekki slík sem menn höfðu ætlað og árið 1978–1979 voru flestir dómbærir menn á einu máli um að flotinn væri orðinn þá þegar nægilega stór, ef ekki of stór, og úr því mætti ekki bæta við hann. Um þetta þarf ekkert að della og ætti ekki að þurfa að hafa um mörg orð, ef ekki vildi svo til að hæstv. forsrh. endurtæki það enn að hann er ósammála þessari skoðun.

Í ræðu minni, sem ég varð að gera hlé á seinast vitnaði ég til ummæla hans í þjóðhagsáætlun, þar sem hann svarar því sjálfur í tvígang að þessi skoðun er rétt. Ég vitnaði til þess, herra forseti, að í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1984 er staðfest í tvígang að flotinn er orðinn of stór og afkastageta flotans of mikil, hún er „meiri en samsvarar aflabrögðum nú“, eins og hér segir. Og enn fremur er því slegið föstu að stækkun fiskiskipastólsins hafi „átt sinn þátt í því að minni afli kemur á hvert skip en ella“. Ég skil því ekki nákvæmlega af hverju hæstv. forsrh. er enn við það heygarðshornið að vilja ekki viðurkenna staðreyndir í þessu efni, þrátt fyrir að hann geri það hér skriflega í þjóðhagsáætlun. Og þrátt fyrir að allir aðilar í núv. ríkisstj., sbr. t.d. forustugrein Morgunblaðsins nú nýverið, viðurkenna þetta og þrátt fyrir að samstarfsaðilar hans í fyrrv. ríkisstj. voru farnir að viðurkenna þetta. Um þetta var orðið hreinlega ekki deilt. Þess vegna sé ég ekki hvaða tilgangi það þjónar að halda því enn til streitu að hér sé ekki um vandamál að ræða. En hann vill ekki kannast við það, sem fyrrv. sjútvrh., að hann beri á þessu verulega ábyrgð.

Það er tvennt sem þarf að ræða hér í samhengi: Það er ekki einasta stærð flotans, heldur líka sú fiskveiðistefna sem rekin var. Þegar menn líta til baka þá eru þeir sammála um að frá og með árinu 1980 hefði átt að framfylgja stranglega innflutningsbanni á nýjum skipum, gæta þess stranglega að flotinn væri ekki stækkaður og jafnframt taka mark á ráðgjöf fiskifræðinga þegar þeir settu sín hámarksákvæði að því er varðaði veiðar. Það er ástæða til að minna á að árið 1980 voru niðurstöður Hafrannsóknastofnunar um leyfilegt aflahámark á þorski 300 þús. tonn. Þegar upp var staðið var veiðimagn á þorski á þessu ári hins vegar 428 þús. tonn eða rúmlega þriðjungi meira en aflahámarkið sem fiskifræðingar mæltu með. Þess er að geta að fiskifræðingar lögðu eindregið til á þessu ári að beitt yrði margvíslegum ráðstöfunum til að halda aflamagninu innan æskilegra marka, t.d. með því að vetrarvertíð yrði stöðvuð fyrr en ella, ef aflamagnið færi langt umfram það sem æskilegt var talið. Og enn fremur að skrapdagafjöldi yrði aukinn varðandi veiðar togaraflotans, ef sýnt yrði frá og með vori að aflinn væri langt umfram æskileg mörk. Fiskveiðistefnan var í því fólgin, að þessum óskum var ekki sinnt. Þess vegna gerðist hvort tveggja í senn: Haldið var áfram ár eftir ár að stækka veiðiflotann umfram það sem æskilegt var og skynsamlegt, og um leið að fiskveiðistefnan, sem mótuð var. tók mið einungis af skammtímahagsmunum, en tók ekki mark á vísindalegri ráðgjöf með þeim afleiðingum að þetta hefur heldur betur komið okkur í koll. Nú viðurkenna allir aðrir en hæstv. forsrh. að við sitjum uppi með sjávarútveginn, okkar undirstöðuatvinnugrein, í lamasessi. Hann er að sligast undan þeim byrðum sem á hann voru lagðar á þessum árum. Það er upplýst að sjávarútvegurinn er kominn í skuld við hið opinbera sjóðakerfi eitt saman upp á 5 milljarða kr., og þessar tölur hækka reyndar frá viku til viku eftir því sem nýjar upplýsingar bætast við. Það er upplýst að allar greinar útgerðarinnar eru reknar með dúndrandi tapi. Allar eru þessar tölur hins vegar byggðar á meðaltölum. Það kemur hins vegar á daginn, þegar reynt er að skyggnast á bak við meðaltölin, að það er ekki hvað síst sá hluti útgerðarinnar sem fjárfest var í á þessum seinustu þremur árum sem verst er ástatt um, eftir að ljóst var að enginn rekstrargrundvöllur var fyrir nýjum skipum, eftir að ljóst var að ný skip, ég tala nú ekki um skip smíðuð hér innanlands, höfðu engar forsendur til að geta staðið undir rekstri sínum, eftir að ljóst var að hver sá útgerðaraðili sem raunverulega var að leggja út í þessa fjárfestingu var vitandi vits að segja sem svo: Það er enginn rekstrargrundvöllur fyrir þessu, ég á út af fyrir sig enga fjármuni til að leggja í þetta. Það lá alveg ljóst fyrir að þennan hluta flotans var frá upphafi verið að gera út á skattgreiðendur eða ríkissjóð. Hverjar eru afleiðingarnar? Afleiðingarnar eru þær, að sjávarútvegurinn sem slíkur rís ekki lengur undir þessum byrðum.

Það er ástæða til að spyrja: Ef stigið hefði verið á bremsurnar eins og skyldan hefði boðið árið 1980, ef stigið hefði verið á bremsurnar þá, ef þá hefðu verið stöðvaðar frekari viðbætur við flotann, ef framfylgt hefði verið skynsamlegri fiskveiðistefnu frá og með þessum tíma, hversu miklu betur staddur væri ekki sjávarútvegurinn nú? Þetta er ekki bara spurning um pólitíska ábyrgð aftur í tímann, vegna þess að við stöndum hér frammi fyrir einni lykilspurningu um efnahagsprógramm þessarar ríkisstj.: Verður einhver árangur til frambúðar af því einu saman að afnema vísitölukerfi launa? Verður einhver árangur af því til frambúðar að snúa sér til launþega og segja: Þið verðið að hafa biðlund, þið verðið að sætta ykkur við að vísitölukerfið er afnumið, þið verðið að sætta ykkur við skerðingu á umsömdum vísitölubótum. Verður nokkur árangur af þessu, þegar menn standa frammi fyrir því hins vegar að undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar er svo skuldugur upp fyrir haus að tölurnar úreldast frá einni viku til annarrar, að stór hluti af þessum flota er gjörgæslufyrirtæki. Ráðh. segja nú fullum fetum: Þessar skuldir verða aldrei greiddar. Hæstv. fjmrh. varpar fram þeirri hugmynd að þessar skuldir verði hreinlega að afskrifa, að almenningur í landinu verði að taka þessar skuldir á sig því að aðrir séu ekki borgunarmenn fyrir þeim.

Að vísu verður að játast að frásagnir blaða af þessum hugmyndum hæstv. fjmrh. eru næsta ónákvæmar. Hann hefur ekki haft fyrir því að gera nákvæma grein fyrir því enn hvað hann á við.

Hvaða skuldir á almenningur að greiða? Hvaða skuldir á að gefa eftir? Engu að síður stendur hæstv. ríkisstj. frammi fyrir vali: Annars vegar að framvísa þessum skuldum til viðbótar öllum hinum, sem hún þegar hefur framvísað til launþega í landinu, mörgum milljörðum króna til viðbótar allri þeirri kjaraskerðingu sem þegar hefur yfir launþega dunið, eða leysa vandamál sjávarútvegsins enn einu sinni með hefðbundinni aðferð, þ.e. með því að fella gengið og standa þá frammi fyrir þeirri staðreynd að allt hennar prógramm, allt prógramm hæstv. ríkisstj., öll yfirlýst markmið um hjöðnun verðbólgu og aukinn stöðugleiki í efnahagslífi, ljúki út um gluggann.

Það er kaldhæðni örlaganna að hæstv. forsrh., sem í kosningabaráttu sinni árið 1979 fór hamförum gegn stefnu núv. ríkisstj., sem hann kallaði leiftursókn og fór mörgum orðum um að væri fyrir fram vonlaust mál og mundi ekki leiða til annars en styrjaldarátaka á vinnumarkaði, fjöldaatvinnuleysis og væri gagnslaus aðgerð gegn verðbólgu, situr nú í forsvari fyrir ríkisstj. sem framfylgir þeirri stefnu sem hann hefur fordæmt hvað harðast og stendur nú frammi fyrir því að spurningin um árangur ríkisstj., spurningin um hvort yfirlýst markmið hennar geti orðið að veruleika, sú spurning er fyrst og fremst komin undir því hvað menn ætla að gera í sjávarútveginum. Hvernig ætla menn að leysa vandamál sjávarútvegsins eftir að svo er komið að hann er að hruni kominn? Hvernig ætlar hæstv. forsrh. að taka á þeim vandamálum sem hann tók við úr hendi hæstv. fyrrv. sjútvrh.?

Hæstv. ráðh. fara yfirleitt mörgum orðum um það, þegar þeir reyna að sannfæra sjálfa sig og aðra um að þeir séu á réttri leið, hversu slæm afkoman var. Já, já, um það er enginn ágreiningur við okkur Alþfl.- menn. Við vitum að afkoman var mjög slæm. Það er jafnvel eitthvað til í því að hún hafi verið mun verri en við gerðum okkur grein fyrir fyrir kosningar og upplýst var fyrir kosningar. Hún var vissulega slæm að því er varðaði erlenda skuldasöfnun, hún var vissulega slæm að því er varðaði viðskiptahalla, hún var vissulega slæm að því er varðaði ríkisfjármál, hún var vissulega slæm að því er varðaði húsnæðismál. Hún var vissulega slæm líka að því er varðaði orkumál. Hún var slæm yfir alla línuna. Þó er mér til efs að hún hafi verið jafnhrikaleg í nokkrum einstökum málaflokki og í málefnum sjávarútvegsins. Spurningunni hvort þessari ríkisstj. tekst að ná nokkrum árangri í viðureign við verðbólguna verður ekki svarað fyrr en upplýst verður hvernig ríkisstj. hyggst taka á málefnum sjávarútvegsins.

Við því hafa engin svör fengist. Hæstv. fjmrh. hefur gefið út sína pennastrikslausn. Aðrir ráðh. hafa haft hana að háði og spotti. Engu að síður er því haldið fram að ríkisstj. muni hvergi falla frá þeirri stefnu sinni að hanga á föstu gengi. En um leið og það er sagt vakna spurningarnar um hvað þá á að gera að öðru leyti til þess að tryggja rekstrargrundvöll útgerðarinnar.

Því er yfir lýst af framkvæmdastjóra LÍÚ að flotinn muni stöðvast að sjálfu sér. Það er alveg augljóst mál að skuldakóngarnir, sem nutu hvað mest náðarinnar í tíð hæstv. fyrrv. sjútvrh., eru engir borgunarmenn fyrir sínum skuldum. Það er frumatriði áður en lengra verður haldið með þessa umr., hún snýst ekki orðið um annað, að hæstv. ráðh. upplýsi hvað vakir fyrir þeim að gera til að leysa þessi mál. Ef þeir hafna gengisfellingu verða þeir um leið að svara því af alvöru hvað þeir ætla að gera í staðinn. Það þýðir ekki fyrir einn ráðh., hæstv. fjmrh., að koma með einfaldar hugmyndir sem menn ekki átta sig á, fá ekki skýringar á. Það liggur alveg ljóst fyrir að þessum spurningum verður að svara.

Ég læt það verða mín niðurlagsorð að þessar deilur um stjórnunaraðferðir og fjárfestingu í sjávarútvegi hafa staðið lengi. Það var formaður míns flokks sem kvað upp úr um það, þann skamma tíma sem hann var sjútvrh., að flotinn væri orðinn of stór og stöðvaði frekari stækkun flotans á þeim tíma. Hæstv. forsrh. hefur allan tímann hafnað þeirri skoðun og gerir enn.

Við höfum síðan lagt fram ýmsar till. til lausnar þessum vanda. Alþfl. hefur lagt fram till. um að nýjar stjórnunaraðferðir í sjávarútvegi verði kannaðar hleypidómalaust, og þá eigum við við veiðileyfastjórnun í sjávarútvegi, þar sem að grundvallaratriðið er að reynt sé að ná einhverju samræmi milli afkastagetu flotans og afkastagetu fiskistofna og reynt að haga því svo til að bestu og hagkvæmustu útgerðirnar, hagkvæmustu útgerðarstaðirnir, verði til þess að nýta fiskimiðin og þannig verði dregið úr tilhneigingu til offjárfestingar í útgerðinni. Þessar hugmyndir eru auðvitað mjög athyglisverðar, en þær hafa ekki hlotið stuðning. Kannske fer að verða mjög tímabært að taka afstöðu til þeirra.

Við höfum einnig flutt hér á þingi þáltill. þar sem skorað er á ríkisstj. að taka upp samninga við önnur ríki um að finna hluta af þessum allt of stóra flota ný verkefni. Þær hugmyndir fengu litlar undirtektir og voru mörgum aðhlátursefni. Engu að síður er svo komið, að nú lesum við blaðafréttir um að íslenskum skipum sé boðið að veiða við Bandaríkjastrendur, sbr. forsíðufrétt í Dagblaðinu 26. október s.l. Hugmynd eins og þessa ber að taka alvarlega. Það átti auðvitað að nota tímann til þess að vinna að því að koma henni í framkvæmd.

Þetta eru hugmyndir sem ber að skoða. En því miður er það svo, að meðan helsti forustumaður ríkisstj. fæst ekki einu sinni til að viðurkenna að hér sé um að ræða höfuðvandamál, ekki aðeins vandamál sem heyri fortíðinni til, heldur lykilvandamál sem sker úr um líf eða dauða þessarar ríkisstj., sker úr um hvort þessi ríkisstj. nær takmarki sínu eða ekki, þá er varla við miklu að búast.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.