19.03.1984
Efri deild: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3886 í B-deild Alþingistíðinda. (3303)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. 11. þm. Reykv. spyr með hvaða rökum forustumenn lífeyrissjóðanna töldu líklegt að kaup þeirra á skuldabréfum til framkvæmdasjóða mundu standast. Það er náttúrlega á þeim rökum sem augljós eru. Miðað er við tekjur sjóðanna og það átti að nægja að sjóðirnir keyptu allir 40% af sínu ráðstöfunarfé, þ. e. aukningunni. Þeir gerðu ekki athugasemdir eins og ég sagði, þegar hæstv. félmrh. og ég töluðum við þá. En rétt er að taka fram að þessir forystumenn lífeyrissjóðanna ráða ekki útlánunum. Þeir geta aðeins beint þeim tilmælum til sjóðanna að þeir standi við eða fari eftir þeirra óskum. Það er byggt á þeim rökum að þeir gerðu ekki athugasemdir. En nú er annað orðið uppi á teningnum og ég verð því miður að draga í efa að þessi fjárhæð náist, ég hef ekki hikað við að gera það og hef sagt að ef hún ekki næst hef ég ekki peninga til þess að láta úf úr ríkissjóði, sú fjárhæð hefur ekki komið inn eins og gefur að skilja. Því hef ég undirstrikað það að ef ekki eru til peningar verða húsbyggjendur að seinka sínum framkvæmdum, það verða allir að gera.

En hv. 3. þm. Norðurl. v. var að gefa þá skýringu að ég blandi hér saman láni til Flugleiða að upphæð 1.6 millj. Bandaríkjadala og uppgjöri varðandi lendingargjöld, leigugjöld vegna aðstöðu á Keflavíkurflugvelli svo og tekju- og eignarskatt, launaskatt og önnur gjöld félagsins vegna þess að þau eru frádráttarbær frá láninu við uppgjör ef reksturinn ber sig ekki. (Gripið fram í.) Það er bara samningur sem gerður er við félagið og undirritaður af fyrrv. fjmrh. Hann er fyrir hendi og heimildin í frv. er í beinu framhaldi af þeim samningi þannig að þetta liggur alveg ljóst fyrir. Vegna ummæla hv. 3. þm. Norðurl. v. vil ég upplýsa það sem stendur í bréfi frá Ríkisendurskoðun. Bréfinu lýkur á þessum orðum:

„Að mati Ríkisendurskoðunarinnar gefur rekstrarreikningurinn glögga mynd af rekstri umrætt tímabil og af heildartapi félagsins, sem er 7 millj. 923 þús. dollarar, má rekja 4 millj. 545 þús. til starfsemi félagsins á Norður-Atlantshafsflugi.“

Þannig að það er mikið tap á þessum rekstri enn þá þó að félagið á þessari flugleið gangi mun betur en það gerði áður. Ekki fer á milli mála að hér er um verulegt tap að ræða og þetta þýðir það að félagið getur ekki staðið við afborganir af sínum lánum. Lendingargjöld og annar kostnaður, sem það á annars að gera upp, verður dreginn frá þessum lánum sem falla nú þrjú í röð með stuttu millibili árið 1984. Þetta er hluti af þeim vanda sem — (RA: Þau eru þegar uppgerð.) Þau eru ekki uppgerð, ég verð að endurtaka þetta allt saman. Virðulegi forseti. Ég verð að fá að lesa þetta nokkrum sinnum yfir til að það nái þangað sem ég er að reyna að senda það. Hér stendur hérna: „Lán þetta fellur í gjalddaga á árinu 1 984 í þrennu lagi, 1. mars, 1. júní og 1. sept.“ Er það ekki rétt? (RA: Fyrir 1981 og 1982.) Ég er að tala um það sem um var samið. Ég held að ég endurtaki það ekki oftar, þetta er svo ljóst. En ég skal skilja þessa pappíra eftir hjá virðulegum 3. þm. Norðurl. v. ef hann vill læra það utan að. Þá hef ég lokið máli mínu.