20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3891 í B-deild Alþingistíðinda. (3314)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður, en það er vegna síðustu upplýsinga hæstv. ráðh. Það gæti valdið misskilningi hjá þeim þm., sem ekki þekkja til, þegar talað er um lífeyrisgreiðslur og það af fiskiskipunum, eins og ég heyrði að hæstv. ráðh. orðaði það. Það eru tvískiptar reglur um greiðslur í lífeyrissjóði á fiskiskipunum. Á stærri togurunum, sem eru með sína sérsamninga, er borgað af öllum tekjum, bæði sjómenn sjálfir og útgerðarmenn. Hins vegar á svokölluðum minni togurum, 500 rúmlestir og minni, og fiskibátum er miðað við kauptrygginguna og það eru fyrst og fremst þeir menn sem fá allt of lítið út úr sínum lífeyrisréttindum þegar þeir þurfa á þeim að halda. Á verslunarskipunum er hins vegar eins og á stærri togurunum borgað af öllum launum þeirra sjómanna sem þar starfa.