01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Aðhald og sparnaður í ríkiskerfinu vegna slæmrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs, stórkostlegur niðurskurður á fjárveitingum til hinna ýmsu og brýnu verkefna í uppbyggingu víðs vegar úti um land, er sá boðskapur sem út er látinn ganga frá hæstv. ríkisstj. og stjórnarliði.

Á engan hátt skal dregið úr því að við efnahagsvanda er að glíma og vissulega þörf aðhalds og sparnaðar. En eigi að síður hlýtur það að vekja eftirtekt almennings í landinu þegar ýmsar hallir eru reistar hér á höfuðborgarsvæðinu og ekki að sjá annað en að einhvers staðar í þjóðfélaginu séu nægir peningar til þess að framkvæma — og það að fullu — áform um byggingar af ýmsu tagi. Nægir þar að nefna Seðlabankahúsið sem ég tel að hefði mátt bíða frekar en ýmislegt annað sem nauðsynlegra er. Þar nægir að nefna Landsvirkjun sem er að byggja yfir sig. Ekki sýnist manni að þar sé mikið sparað. Rafmagnsveita Reykjavíkur byggir stórhýsi. Ekki virðast vera nein sparnaðaráform, a.m.k. ekki í útlitinu, þar. Ekki er minna um að vera á sviði bygginga að því er varðar landbúnaðarþáttinn með byggingum Osta- og smjörsölunnar í Reykjavík. Svo mætti lengi telja.

Ég hef því leyft mér að leggja fram á þskj. 20 fjórar fsp.

Hér er nú sú fyrsta til umr., sem er um Seðlabankabygginguna.

Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hve miklu fjármagni hefur verið varið til byggingar Seðlabankahússins?

2. Hve miklu fjármagni hefur verið varið til byggingar hússins á árinu 1983?

3. Hve miklu fjármagni er fyrirhugað að verja til byggingarinnar á árinu 1984?“

Ég er þeirrar skoðunar að það hljóti að hafa mátt — undir þeim kringumstæðum sem þjóðfélagið og efnahagslífið hefur verið í undangengið — bíða með þessa byggingu og sinna öðrum og brýnni verkefnum í uppbyggingu víðs vegar á landinu heldur en hér er um að ræða, þó að ég vilji á engan hátt draga úr nauðsyn á slíkri byggingu þegar vel áraði, en ekki á þeim tíma þegar skornar eru niður við trog fjárveitingar til annarra miklu brýnni verkefna en ég tel þessa byggingu vera.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, enda ekki ástæða til, herra forseti, en vænti þess að fá gagngert svar frá hæstv. ráðh.