20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3896 í B-deild Alþingistíðinda. (3322)

237. mál, sullaveiki

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram á þskj. 416 fsp. til hæstv. heilbrmrh. um sullaveiki.

„1. Hvað hyggst ráðh. gera til varnar gegn útbreiðslu á sullaveiki?

2. Hyggst ráðh. láta gera úttekt á framkvæmd gildandi laga um hundahreinsun?“

Síðasta dauðsfall vegna sullaveiki var árið 1961. Að sögn landtæknis var það talið síðasta tilfellið. Í 23 ár var því talið að sullaveiki í mönnum hefði verið útrýmt á Íslandi. Nú hefur komið í ljós að svo er ekki. Það er full ástæða til að íhuga hvernig þessum málum er háttað í dag hvað varðar framkvæmd gildandi laga um hundahreinsun. Auk þess sem sullaveiki hefur fundist í manni nýlega hafa komið upp nokkur tilfelli í sauðfé á Austurlandi. Er því full ástæða til að herða á eftirliti með fyrirbyggjandi aðgerðum til varnar við útbreiðslu veikinnar.

Í lögum nr. 7 frá 1953, um hundahald og varnir gegn sullaveiki, segir í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Bæjarstjórnum og hreppsnefndum er heimilt að ákveða með samþykkt, er heilbrmrn. staðfestir, að takmarka eða banna hundahald í sveitarfélögum.“ Sams konar ákvæði eru í heilbrigðisreglugerð, 83. gr., 2. tölul. Í samræmi við þessi ákvæði hafa mörg sveitarfélög sett takmörkun eða bann í viðkomandi heitbrigðissamþykktir og er slíkt bann t. d. í Reykjavík.

Brotalöm er á því að banni við hundahaldi sé framfylgt. T. d. er talið að milli 2 og 3 þús. hundar séu hér í höfuðborginni án þess að eftirlit með hreinsun þessara hunda sé framfylgt, enda eru þeir í orði kveðnu ekki til. Svo gæti háttað víðar um land.

Í reglugerð um varnir gegn sullaveiki segir, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr.: Þeir, sem annast heilbrigðisfræðslu í skólum, skulu fræða nemendur rækilega um orsakir og eðli sullaveiki í mönnum og fénaði. Ein grein þeirrar fræðslu er að kynna nemendum lög og reglur um varnir gegn sullaveiki.

Læknar og dýralæknar skulu kappkosta að brýna fyrir almenningi og leiðbeina um varúð í umgengni við hunda og um hreinlæti við sláturstörf og aðra meðferð matar til varnar gegn hvoru tveggja, að hundar sýkist af bandormum og nái að sýkja menn eða fénað af sullaveiki.“

Ég tel fulla ástæðu til að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt svo og 5. gr. sömu reglugerðar, þar sem kveðið er á um að allir, sem eiga hunda eldri en misseris gamla eða hafa þá undir höndum, láti hreinsa þá af bandormi einu sinni á ári.

Í Morgunblaðinu í morgun er þess getið að sullaveiki hafi fundist í fertugri konu á s. l. ári. Þar segir, með leyfi forseta:

„Blaðið Íslendingur, sem gefið er út á Akureyri, greinir frá því hinn 15. þessa mánaðar, að á síðasta ári hafi fundist sullur í rösklega fertugri konu á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Sullurinn hafi verið kalkaður og skaðlaus og konan því ekki verið skorin upp til að fjarlægja sullinn.

Segir blaðið, að sé sullur í fólki kalkaður sé hann skaðlaus vegna þess að kalkhúðin einangri hann frá líkamanum. Á hinn bóginn getur hann sprungið og breiðst út og þurfi þá að grípa til ráðstafana til að hefta útbreiðslu hans. Kalkaður sullur greinist í röntgenmyndatökum, og í áranna rás hafa læknar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri af og til greint slíkan sull í fólki án þess að veður hafi verið gert út af því.“

Það er því víða pottur brotinn hvað það varðar að eftirlit með hundahreinsun sé nægilegt. Verður því að gera þá kröfu til heilbrigðisyfirvalda að þau láti til sín taka nú þegar og láti kanna fjölgun hunda á Íslandi og að ákvæðum um hundahreinsun sé framfylgt.