20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3900 í B-deild Alþingistíðinda. (3326)

427. mál, endurgreiðsla söluskatts af snjómokstri

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Fsp. sem er beint til mín á þskj. 370 er svo hljóðandi: „Hvenær hyggst fjmrh. neyta heimildar í lögum nr. 24 frá 16. mars 1983, um breytingu á lögum um söluskatt, og endurgreiða söluskatt af kostnaði sveitarfélaga við snjómokstur?“

Svar mitt er: Efnislega samhljóða fsp. var hér á dagskrá hinn 24. jan. s. l. og svaraði ég henni þá. Spunnust þá um þetta málefni allnokkrar umr. Eins og ég rakti þá er fjmrh. heimilað með lögum nr. 24 frá 1983 að endurgreiða sveitarfélögum söluskatt af kostnaði sveitarfélaga af snjómokstri.

Heimild þessi hefur enn ekki verið nýtt vegna þeirra vandkvæða sem á því eru að framkvæma endurgreiðslur af þessu tagi með sæmilegum hætti. Menn verða að átta sig á því að vinnuvélaþjónusta er söluskattsskyld hvort sem hún er unnin fyrir aðra eða í eigin þágu. Snjómokstur annast sveitarfélag bæði með sínum tækjum svo og leigutækjum. Það er ákaflega erfitt fyrir skattyfirvöld að staðreyna hvenær umrætt tæki hafi verið að moka snjó eða vinna að einhverju öðru. Í raun er hér um að ræða illframkvæmanlegt verk miðað við þann mannafla sem skattakerfið ræður nú yfir.

Að mínu mati eru aðeins tvær leiðir færar f þessu efni. Önnur er sú að undanþiggja vinnuvélanotkun söluskatti. Slík undanþága yrði óheyrilega dýr og því alls ekki ráðlegt að svo stöddu að leggja til að svo verði gert. Hin er sú að taka upp einhvers konar styrkjakerfi, annaðhvort í gegnum Jöfnunarsjóð eða ríkissjóð, til handa þeim sveitarfélögum sem þurfa að moka mikinn snjó. Ég vil ítreka að það verður að gæta hófs í að fela framkvæmdavaldinu illleysanleg mál af þessu tagi. En staðreyndin er sú, að við höfum lög í höndunum þar sem fram kemur afdráttarlaus vilji Alþingis. Ég tel að athuga ætti hvort ekki mætti breyta þessum lögum á þann veg að styrkja mætti Jöfnunarsjóð eða Samband sveitarfélaga til að ráða fram úr þeim vanda sem lög þau sem hér um ræðir leggja á rn. En ég vil þó undirstrika að ég er sammála hv. 5. þm. Vestf. um að ósanngjarnt er að ríkið hagnist af snjómokstri sveitarfélaga. Ég ætti sem 1. þm. Reykv. að fagna þessu því ég er viss um að ekkert sveitarfélag í landinu yrði fegnara en Reykjavíkurborg ef þessi lög væru framkvæmanleg. Samkvæmt upplýsingum frá gatnamálastjóra sem komið hafa fram í fjölmiðlum munu það vera um 300 km sem Reykjavíkurborg þarf að moka reglulega á hverju ári.

Ég vil ítreka það sem ég sagði hér þegar ég svaraði fsp. 24. janúar. Það er unnið að því í rn. að reyna að finna leið til að framkvæma þessi lög. Mér er hins vegar líka kunnugt um að þeir embættismenn sem um það fjalla eru í miklum vandræðum með að finna þá leið, þótt hæfir séu.