01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki hefja umr. hér um réttmæti byggingar eins húss á vegum ríkisins eða ríkisstofnana frekar en að verja peningum til annarra verkefna. Hins vegar má vera ljóst að það hús sem hv. þm. spyr um hefur verið í byggingu um nokkurt skeið.

Það er spurt hve miklu fjármagni hafi verið varið til byggingar Seðlabankahússins. Svarið er: Fyrir utan lóðarverðmæti og bílastæðagjöld var heildarbyggingarkostnaður 15. okt. s.l. 67.7 millj. kr.

Það er spurt hve miklu fjármagni hafi verið varið til byggingar hússins á árinu 1983. Til framkvæmda á þessu ári hefur verið varið 50.1 millj.kr.

Það er spurt hve miklu fjármagni fyrirhugað sé að verja til byggingar árið 1984. Í framhaldi þess verkþáttar sem nú er unnið að, þ.e. uppsteypu kjallara og jarðhæðar, hefur þegar verið samið við verktaka um að ljúka á næsta ári uppsteypu hússins og smíði þaka að hluta. Nemur kostnaður við þann verkþátt 19.8 millj.kr. á verðlagi 1. okt. s.l. Um frekari framkvæmdir á næsta ári hefur ekki verið tekin nein ákvörðun. Ég vænti þess að það sem ég hér hef sagt séu fullnægjandi svör við því sem hv. þm. hefur spurt um.