20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3905 í B-deild Alþingistíðinda. (3333)

426. mál, fjármögnun húsnæðismála

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka þær upplýsingar sem þarna komu fram. Við höfum náttúrlega heyrt þessar tölur allar áður. Eins og kom fram í máli okkar beggja hafa þessi húsnæðismál verið svo mjög til umr. Þrátt fyrir þetta sögulega yfirlit stendur það í raun og veru enn og það er kannske það sem málið snýst um að fjármögnun húsnæðislánakerfisins, hvort sem við tölum um 1050 millj. kr. eða þær viðbætur sem þar þyrftu að koma til til þess að fullnægjandi væri, stendur í raun og veru á hálfgerðum brauðfótum. Eins og margoft hefur verið rakið er veruleg ástæða til að óttast að ekki náist sett mörk í sambandi við fjáröflun þess innanlands. Við stjórnarandstöðuþm. höfum gengið í lið með hæstv. félmrh. til að reyna að afla ótvíræðra yfirlýsinga frá ríkisstj. um ábyrgðarskyldu hennar í þessu tilliti, en það hefur því miður ekki tekist. Hæstv. talsmenn ríkisstj. aðrir en félmrh. hafa látið nægja að fara um þetta mjög almennum orðum og lýsa því að húsnæðismálin hafi forgang og að þeir verði að láta sér nægja trúnaðartraust og traustvekjandi fundi með forvígismönnum peningastofnana í landinu, svo sem bankamanna og forsvarsmanna lífeyrissjóðanna.

Í raun og veru er fátt annað um þetta að segja á þessu stigi. Fyrir liggja ýmsar fleiri upplýsingar í málinu eins og fækkun nýbyggingarlána frá áætlun 950 niður í 750 og þar fram eftir götunum. En ég tel að eftir þær umr. sem farið hafa fram undanfarna daga sé ekki ástæða til að rekja það aftur. En ég lýsi vonbrigðum mínum vegna þess að ekki skuli hafa tekist með þessum umr. síðustu vikna að fá fram óyggjandi yfirlýsingu ráðh. og hæstv. forsrh. um að ríkisstj. muni skýlaust sjá um að 1050 millj. kr. a. m. k. verði lagðar til.