20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3907 í B-deild Alþingistíðinda. (3336)

426. mál, fjármögnun húsnæðismála

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. taki vel þeim ábendingum sem fram komu hjá mér varðandi verkamannabústaðakerfið og hann reyni að gæta hófs í þeim niðurskurðaráformum sem ríkisstj. hefur í þeim efnum þrátt fyrir þau ummæli sem hann hafði hér áðan. Það er nefnilega nákvæmlega tímabært í dag að ræða um þessi mál svona eins og ég gerði vegna þess að verið er að úthluta þessu fólki þessum íbúðum. Það er alveg lágmark að hæstv. ráðh. geri Alþingi grein fyrir málinu en fari ekki undan í flæmingi eins og hann hefur gert vegna þess að hann hefur ekki þorað enn þá að tala um verkamannabústaðakerfið og niðurskurðaráform sín í ræðustólnum þrátt fyrir eftirgangsmuni af minni hálfu.

Þrátt fyrir ræðu hæstv. ráðh. áðan lít ég svo á að ræða hans frá 14. mars, um útlán til þeirra sem byggja og kaupa íbúðir, sé enn í gildi. Þrátt fyrir það að ráðh. var að skírskota til þess að Húsnæðisstofnun ætti eftir að fara yfir áætlanirnar lít ég svo á að ræðan og yfirlýsingin sem hann gaf 14. mars standi enn. Ég tel ekki að hæstv. ráðh. hafi með athugasemd sinni áðan verið að taka þá yfirlýsingu frá 14. mars til baka.