20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3909 í B-deild Alþingistíðinda. (3339)

215. mál, kafarar Landhelgisgæslunnar

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör sem hann gaf. Ég þykist mega treysta því, og geri það að sjálfsögðu þegar hann tekur svo til orða sem hann gerir, að í það verði gengið nú af fullum krafti að ná þessum samningum. En mig langar að sýna þm. fram á hvað það er sem skildi á milli. Það mun hafa verið t. d. að síðasta tilboð Landhelgisgæslu, sem boðið var, var 2500 kr. fyrir köfun innan hafnar, en kröfur kafara 2825 kr. Það eru 325 kr. sem þarna bar í milli. Varðandi köfun utan hafnar bar meira á milli. Það voru 1320 kr. En teljandi ágreiningur var ekki um önnur mál. En höfum þó í huga, eins og hæstv. ráðh. kom inn á, að tveir ættu að kafa, það væri krafa um að þegar kafað væri í sjó væri annar til staðar til björgunar ef eitthvað kæmi fyrir þann sem væri við köfun. Það hefur staðið á þessu. Vonandi verður það leyst. En þetta átti að koma fram á launum þeirra sem að köfun unnu. Það hafði komið fram hjá Landhelgisgæslunni að það væru heildarlaun kafaranna sem ættu að skerðast, en hins vegar var alveg ljóst að Landhelgisgæslan ætlaði að halda áfram að taka nákvæmlega það sama frá verkkaupanda og hún gerði áður.

Ég skal ekki, herra forseti, hefja neinar frekari umr. um þetta mál, en ég bendi þó á þá erfiðleika sem þessir menn eiga í til að ná rétti sínum. Þetta er eina stéttin á Íslandi sem ekki hefur möguleika á því að ná fram rétti sínum eins og gert er hjá öðrum stéttarfélögum. Það hefur ekki enn þá verið, öll þau ár frá því að þessi lög voru sett, farið formlega þá leið, sem lög kveða á um, að taka upp samninga við stéttarfélögin sjálf, sem þessir menn tilheyra. Þetta er eitt þeirra atriða sem verður auðvitað að ráða fram úr í sambandi við endurskoðun laga um Landhelgisgæsluna. Það hefur verið breytt lögum um íslenska löggæslumenn síðan lög um landhelgisgæslu voru sett. Þeir eiga jafnvel möguleika á að boða takmörkuð verkföll og fara í takmarkað verkfall, en starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa ekki nokkra möguleika á því. Þessir menn eru algjörlega undir stjórn þeirra sem teljast stjórnendur Landhelgisgæslunnar, og þykir mér það út af fyrir sig í lagi ef menn eiga í hlut eins og hæstv. dómsmrh., en þegar það eru strákar úr fjmrn. tel ég það ekki nógu gott. Ég fagna því yfirlýsingu ráðh. og þakka honum enn einu sinni fyrir svarið.