01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. bankamálaráðh. óvenju glögg en þó stutt svör við þessari fsp. Það liggur þá fyrir að um 138 millj. muni það vera sem þegar er búið að ráðstafa til þessarar byggingar og fyrirhugað er að ráðstafa á næsta ári. Ég vil láta það koma sérstaklega fram hér að ég tel að þeim 138 millj. hefði verið betur varið á ýmsan annan hátt en þarna er um að ræða. Og þó að ég reikni varta með að hæstv. ráðh. svari því nú, þá er ástæða til að spyrja hvort fyrirhugaðar séu nokkrar stöðvunarframkvæmdir í þessa byggingu til þess að veita fjármagni til annarra miklu brýnni verkefna víðs vegar heldur en hér er um að ræða. Hér liggur fyrir þáltill. á þann veg og það væri vissulega fróðlegt, án þess að nokkur ástæða sé til að krefjast svara um það nú, að vita hver er hugur hæstv. bankamálaráðh. til þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir um að stöðva Seðlabankabygginguna eins og nú er.