20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3920 í B-deild Alþingistíðinda. (3350)

437. mál, undirbúningsframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun

Fyrirspyrjandi (Sveinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir annars greinargóð svör, þó svo þau væru kannske ekki svo ýkja ítarleg. En þau tala sínu máli engu að síður og ég lýsi í sjálfu sér ánægju með að það skuli þó vera þessi fjárveiting til þessara framkvæmda, til undirbúnings virkjuninni, sem er afskaplega mikilvægt til þess að af framkvæmdum geti orðið skv. þeirri áætlun sem hér er unnið að.

En ég vil láta það koma hér fram að óneitanlega eru uppi vissar efasemdir og tortryggni af hálfu Austfirðinga í garð virkjunaráforma sem í dag er unnið að á vegum Landsvirkjunar sem við vitum að hefur allt forræði til stórra verka á sviði orkumála. Af gögnum þeim sem fram hafa komið af hálfu Landsvirkjunar og eru frá því í sept. s. l. verður ekki annað ráðið en að uppi séu áform sem e. t. v. kynnu að leiða til þess að niðurröðun virkjana yrði allt önnur en samþykktir Alþingis til þessa hafa gefið til kynna. Í því sambandi vil ég vitna til grg. um val og tímasetningu næstu virkjunar eftir Kvíslaveitu, sem út hefur verið gefin af hálfu Landsvirkjunar, en þar segir með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og áður er sagt stendur valið í raun milli þriggja kosta, Blönduvirkjunar, stækkunar Búrfells og Sultartanga. Allar þessar virkjanir eru vel viðráðanlegar á þeim tíma sem til ráðstöfunar er, en ekki liggur enn fyrir heimild Alþingis um stækkun Búrfellsvirkjunar, þannig að ekki er hægt að taka ákvörðun um að ráðast í byggingu hennar nú, en brýnt er að afla þeirrar heimildar.“ Efasemdir hafa sem sagt vaknað í brjósti manns og mér þykir rétt að minna á orð núv. hæstv. iðnrh., sem birtust í málgagni hans á Austurlandi, Þingmúla, 27. jan. 1981, en þar segir með leyfi forseta:

„Auk þess bera virkjunarkostir í Fljótsdal af öðrum.“ Og enn fremur: „Þjóðhagslega stenst Blönduvirkjun engan samanburð við Fljótsdalsvirkjun.“ Og í Þingmúla 12. apríl 1983 segir hann í umfjöllun um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði: „Horfur eru nú batnandi á heimsmarkaði og gera kunnugir menn ráð fyrir að óhætt muni að hefjast handa um byggingu verksmiðjunnar á þessu ári.“ Það er 1983. En í þeim lánsfjárlögum sem nú hafa verið samþykkt hér á Alþingi er ekki einn stafur þess efnis sem bendir til að ráðist verði í byggingu þeirrar verksmiðju, og það eru engar ákvarðanir sem liggja fyrir í þeim efnum.

En hæstv. iðnrh. sagði enn fremur í Þingmúla 12. apríl, sama skipti og hann fjallaði um kísilmálmverksmiðjuna, með leyfi hæstv. forseta: „Þessum framkvæmdum fylgir svo virkjun í Fljótsdal. Öllu mun til kostað að það lífshagsmunamál Austurlands nái hið fyrsta fram að ganga.“

Og samflokksmaður iðnrh., hv. þm. Egill Jónsson, segir í Þingmúla 4. júní 1983: „Það verður gaman að fylgjast með störfum Sverris Hermannssonar í hans nýja vandasama embætti.“ Og það er rétt, að Austfirðingar allir ólu kannske með sér nokkrar vonir um, í kjölfar allra stóru yfirlýsinganna, að af þessum miklu áformum yrði. Við það bindum við enn í dag vonir og væntum þess að um þetta mál allt verði samstaða og fylgt verði eftir þeim ákvörðunum sem hér hafa verið samþykktar á hæstv. Alþingi.