20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3924 í B-deild Alþingistíðinda. (3355)

437. mál, undirbúningsframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun

Egill Jónsson:

Herra forseti. Út af fyrir sig er ekki óeðlilegt þótt hv. fyrirspyrjandi komist þannig að orði að efasemdir vakni með Austfirðingum í sambandi við virkjanamál. Satt að segja er ærið tilefni til þess að Austfirðingar, miðað við fyrri reynslu, hafi nokkrar efasemdir í þeim efnum. Þannig var nefnilega árið 1979, rétt áður en þáv. orku- og iðnrh. lét af störfum, að hann gaf út fyrirmæli um að hafinn skyldi undirbúningur að virkjun í Fljótsdal. Menn hafa sumir orðað það svo að þessi ákvörðun hafi verið tekin einum stundarfjórðungi áður en sá heiðursmaður lét af embætti í iðnrn. Þá hafði sá ráðh. ekki átt langan starfsferil að baki, en það kom líka að því að hann tók aftur við sama embætti. Þá skyldu menn hafa ímyndað sér að haldið yrði áfram í framhaldi af ákvörðunum sem teknar höfðu verið af honum sjálfum aðeins fáum mánuðum áður. En svo var þó ekki. Hjörleifur Guttormsson var orku- og iðnrh. í mörg ár án þess að taka ákvörðun um virkjun í Fljótsdal.

Þetta er ég ekki að segja honum neitt sérstaklega til lasts. Það voru ekki aðstæður til þess, m. a. vegna þess að ekki var unnið að markaði, ekki var unnið að orkuöflun og hún var ekki til staðar og er því miður ekki enn til staðar. En samt sem áður eru vinnubrögð af þessu tagi kjörin til þess að valda tortryggni. Þetta eru vinnubrögð sem eru með þeim hætti að teknar eru ákvarðanir þegar menn eru að ganga út úr rn. en síðan setið auðum höndum þegar menn taka við embættunum aftur. Það eru vissulega vinnubrögð sem eru til þess fallin að vekja tortryggni.

Þess vegna hefði verið full ástæða til þess af hv. ræðumanni, Sveini Jónssyni, að segja frá því hvers vegna Austfirðingar væru tortryggnir í þessum efnum.

Þetta er raunar ekki einsdæmi. Nú hefur verið frá því sagt hér — (Forseti hringir.) — ég er rétt að ljúka máli mínu, herra forseti — að fyrrv. iðnrh. hafi gengið frá stórum upphæðum inn á lánsfjáráætlun sem hafi átt að verja til virkjunarrannsókna í Fljótsdal. Þetta er bara ekki satt. Þessi liður, sem ráðh. merkti Fljótsdalsvirkjun eftir að hann hætti sem iðnrh., var ekki merktur henni þannig fyrir. Hann sagði einungis frá því eftir að hann var ráðh. og kominn í okkar kjördæmi austur á land að svona hefði fénu átt að verja. Þannig er það vissulega ekki að ástæðulausu að hv. þm. Sveinn Jónsson, sem þekkir jafnvel til starfa fyrrv. iðnrh. og raup ber vitni, taki eitthvert mið af reynslunni og segi frá — efasemdum Austfirðinga.