20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3926 í B-deild Alþingistíðinda. (3358)

437. mál, undirbúningsframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun

Fyrirspyrjandi (Sveinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins að það komi fram að í huga mér er ekki tortryggni í garð hæstv. ráðh. En ég get ekki neitað því að að mér læðast örlitlar efasemdir eftir þær yfirlýsingar — og upplýsingar reyndar — sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, sem á sæti í stjórn Landsvirkjunar, en Landsvirkjun er einmitt það afl sem hefur afgerandi úrslit, held ég, um framvindu virkjanamála hér á landi. Ég ber vissa tortryggni í brjósti í hennar garð því að Landsvirkjun hefur aldrei að fyrra bragði unnið að virkjunarrannsóknum eða undirbúningi að virkjunum annars staðar en á Þjórsárvirkjunarsvæðinu.

Það er fyrst með yfirlýsingu í stjórnarsáttmála Gunnars Thoroddsen frá 1980 þess efnis að stefnt skuli að því að virkjað sé annars staðar en á Þjórsárvirkjunarsvæðinu að byrjað er að vinna markvisst að því að svo megi verða. Ég gat þess í minni framsögu að unnið hefði verið markvisst að því síðan. Ég held að ekki sé í huga Austfirðinga mikil tortryggni í garð fyrrv. iðnrh. um hans gerðir í þessum efnum því að við gerum okkur ósköp vel grein fyrir því við hvað er að eiga í þessu máli. En þegar Orkustofnun kannaði æskilega virkjunartilhögun var það virkjanaröðin Blanda, Fljótsdalsvirkjun, Sultartangi sem var ótvírætt talin fjárhagslega hagstæðust eins og fram kemur í skýrslu Orkustofnunar frá febr. 1981.