01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Vegna þessara umr. finnst mér rétt að benda á að þær upplýsingar sem fram koma hér frá hæstv. ráðh. segja auðvitað ekki nærri alla söguna, vegna þess að þær fölur sem hér koma fram eru ekki færðar upp til núgildandi verðlags, heldur er hér um að ræða samtölu úr framkvæmdum liðinna ára. Talan segir því auðvitað ekki nema hálfa sögu í þessu efni.

En ég kvaddi mér hljóðs, herra forseti, vegna þess að fyrir nokkrum dögum var rætt um málefni Seðlabankans hér á Alþingi og þá fullyrti hæstv. fjmrh. að Seðlabankinn framkvæmdi svo að segja reglulega lögbrot. Hæstv. ráðh. orðaði þetta svo, með leyfi forseta:

„Það hef ég margoft sagt hér, enda brjóta þeir að mínu mati lög þegar þeir ákveða sína eigin vexti. Þeim ber skylda til að ákveða vexti fyrir viðskiptabankana en það er hvergi í lögum um Seðlabanka Íslands heimild til þeirra að ákveða sína eigin vexti, svo að það hlýtur að vera í verkahring Alþingis eða ríkisstj. að gera það,“ eins og hæstv. fjmrh. komst að orði.

Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé þeirrar skoðunar einnig að Seðlabankinn brjóti lög með starfsemi sinni með þeim hætti sem hæstv. fjmrh. lýsti á dögunum.