20.03.1984
Sameinað þing: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3939 í B-deild Alþingistíðinda. (3364)

184. mál, friðarfræðsla

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Undir þá till. til þál., sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir hefur nú talað fyrir, hlýtur hver einasti hugsandi maður að taka. Þm. hefur gert grein fyrir efni till. Ég held að enginn komist hjá því að horfast í augu við að á þessum málum verður nú að taka.

Við horfum öll fram á vaxandi vonleysi æskufólks. Það hefur ótrú á þeirri tvíhyggju að annars vegar beri því að undirbúa sig undir gott og farsælt líf í þágu lands og þjóðar, en hins vegar eigi það að ganga hugsunarlaust inn í þá veröld vanhugsunar og vígbúnaðarkapphlaups sem gerir allt líf okkar hér á jörðinni meira en vafasamt. Unga fólkið trúir vitanlega ekki á þetta uppeldi lengur. Það sér í gegnum þessa blekkingu. Og öll sjáum við fyrir okkur afleiðingarnar: ofneyslu fíkniefna af öllu tagi, örvæntingu, firringu og óhæfni til að deila geði og gleði við annað fólk. Uppeldiskerfi okkar er orðið ónothæft og við vitum það öll.

Við verðum að læra að hugsa á annan veg hvert eitt og einasta okkar. Vísindi og siðferðileg ábyrgð verða ekki lengur aðskilin. Vísindamaður nútímans er ekki lengur að finna upp ljósaperu eða dyrabjöllu, heldur drápstæki sem geta margsinnis grandað okkur öllum á örfáum augnablikum. Kristin siðfræði er komin í sömu blindgötu. Boðskapur Jesú Krists og æ skelfilegri framleiðsla kjarnorkuvopna geta ekki farið saman. Kirkjan getur ekki horft aðgerðalaus á ógnvekjandi ákvarðanir stjórnmálamanna um heim allan. Og læknar geta ekki lengur horft aðgerðalausir á undirbúning mannanna undir gereyðingu mannkynsins, á meðan þeir leggja dag við nótt til að bjarga einu og einu mannslífi.

Ekkert eitt starfssvið getur lengur verið úr samhengi við önnur. Öll mannanna verk verða að miðast við framhald lífsins á jörðinni, við betri jörð en við tókum við. Sá boðskapur að við eigum að margfaldast og uppfylla jörðina er enn í fullu gildi. Umgengni okkar við jörðina ógnar henni nú. Þetta er stjórnmálamönnum smám saman að verða ljóst og þeir eru þegar tilbúnir að ræða um þau mál.

Á nýafstöðnu Norðurlandaþingi áttu umhverfismál stóran hluta þingtíma. Það er satt að segja skelfilegt að sjá með berum augum sem venjulegur ferðamaður í nágrannaríki okkar gjöreydda skóga, í Suður-Svíþjóð, vegna súrs regns. Menn horfðu hugsunarlaust á sjónvarpsþátt um það efni. Ég verð að játa að ég hafði satt að segja ekki gert mér grein fyrir hversu ógnvænlegt er að sjá þessa eyðingu. Um þetta vandamál voru menn tilbúnir að tala og gerðu það. En þegar kemur að vígbúnaðarkapphlaupinu, sem er ekki síður skelfilegt, eru menn fastir í eigin fordómum, sínum uppeldislegu fordómum, sínum pólitísku fordómum. Menn eru ekki við því búnir að upphefja pólitík yfir hversdagslega umræðu um pólitíska smámuni, sem við erum því miður öll allajafna að fást við.

En svo er þó komið að ýmsar gleðilegar blikur eru á lofti. Friðarþrá og vilji mannanna hefur brotið sér leið gegnum gelda og staðnaða pólitík og umræður stjórnmálamanna og almenningur um heim allan hefur látið til sín taka. Eins og menn vita situr nú í Stokkhólmsborg ráðstefna, sem sitja mun væntanlega næstu tvö árin, þar sem þjóðir heimsins ræða mér er óhætt að segja í fyrsta sinn, af alvöru um þá tortímingu sem nú ógnar mannkyninu. En tengsl almennings, sem nú fyllir götur stórborga heimsins til að mótmæla vígbúnaðarkapphlaupinu, eru því miður stundum nokkuð óljós við þá staði þar sem ákvarðanir eru teknar. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að það erum við stjórnmálamennirnir sem tökum þessar ákvarðanir. Hlutir gerast ekki. Þeir eru gerðir.

Það er t. d. enn svo, að fimm eða öllu heldur sjö friðsamar þjóðir á Norðurlöndum sitja árlega þing um það sem best má verða til farsældar fyrir þessar þjóðir, en enn má þar ekki álykta um það sem skiptir mestu máli í lífi okkar allra, þ. e. hvort við fáum að lifa áfram á þessari jörð. Það má ekki álykta um svokölluð utanríkismál.

Sannleikurinn er sá, að hann er orðinn afskaplega þunnur skilveggurinn milli utanríkismála og innanríkismála. Það er ákaflega erfitt að skilja þessi mál í sundur á okkar tímum þó að það sé gert. Auðvitað er skýringin á því sú, að við erum enn þá föst í umræðunni sem haldið hefur verið uppi og þorum ekki, a. m. k. ekki öll, að tengja saman vígbúnaðarkapphlaupið í heiminum og efnahagsmál heimsins. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að orsökin fyrir vígbúnaðarkapphlaupinu er gróðahyggja mannsins. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að það hefði vissulega áhrif á velferð hinna ríku þjóða ef vígbúnaðarkapphlaupinu yrði skyndilega hætt. Það er barnaskapur að horfast ekki í augu við það. (JBH: Annað sagði frsm.) Það er ljóst að væri því hætt hefði það áhrif á efnahag hinna ríku þjóða og alveg á sama hátt og fátækt hinna snauðu þjóða heldur við velferð okkar hinna enn þá. Það er hins vegar ljóst að með þessari pólitík er mannkynið komið í blindgötu og út úr henni kemst það ekki nema í krafti nýrrar hugsunar, nýrrar pólitíkur og allt öðruvísi pólitíkur.

Þegar ég tala um pólitík er ég ekki að tala um það flokkapex sem er kallað pólitík, heldur lífsviðhorf manna, þar sem menn gera sér grein fyrir að hlutverk hvers einasta stjórnmálamanns hlýtur að vera að tryggja að mannkynið fái að lifa í friði, að það fái að lifa áfram á betri jörð en það tók við. Siðferðileg ábyrgð stjórnmálamanna hefur ekki verið höfð í hávegum, en ég held að ekkert okkar geti lengur lokað augunum fyrir henni.

Ég held að við verðum að fara að tengja betur saman hin ýmsu starfssvið mannanna. Fyrir tveimur árum sátum við hv. þm. Halldór Blöndal ráðstefnu í Skálholti um hlutverk kirkjunnar og boðskap friðarins og ég held að við ráðstefnugestir höfum flest verið sammála um að friðarboðskapur kirkjunnar verði tæplega aðskilinn frá friðarboðskap stjórnmálamanna. Ég held að við hljótum öll, hvert á okkar sviði, hvort sem við erum listamenn, stjórnmálamenn, kirkjunnar menn, kennarar, læknar og hvað sem við tökum að okkur í lífinu, að láta það sjónarmið verða ofar öllum öðrum sjónarmiðum að hlutverk okkar sé ekki að deyða hvert annað, ekki að eyða jörðinni, sem við fæddumst á, heldur að skila henni betri í hendur barnanna okkar og gefa þeim möguleika á að lifa áfram á þessari jörð.

Ég efast ekki um að ýmsum kaldhæðnum þm. þyki þetta kannske upphafin umr. og nokkuð viðkvæmnisleg. En þetta er bláköld staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Við verðum að gera eitthvað og til þess þarf algerlega ný viðhorf, þ. á m. þarf ný viðhorf í uppeldi. Börnin okkar trúa ekki lengur á það uppeldi sem við höfum boðið þeim, hvers kyns tvíhyggju, skinhelgi og hræsni. Þau vita betur. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að orsök óhamingju þeirra milljóna unglinga um allan heim sem eygja ekki neina framtíðarvon byggist á því að þeir trúa hvorki á stjórnmálamenn né kirkjunnar menn — ekki einu sinni á foreldra sína. Þessu verðum við að breyta. Og þessu verðum við að byrja að breyta undir eins og við fáum börnin okkar í hendur. Þess vegna er þessi till., sem hér liggur fyrir, stórmerkileg og ég treysti því satt að segja að hún verði samþykkt. Ég held að líf okkar sé beinlínis undir því komið.

Nú situr að störfum nefnd, sem á að gera fyrstu drög að námsskrá fyrir dagheimili. Ég vil leyfa mér að minna á að áður en sú nefnd lýkur störfum tel ég eðlilegt og sjálfsagt að friðarfræðsla verði gerð einn meginþáttur í þeirri námsskrá. Ég vil vara íslenska þm., þm. þjóðar sem ber ekki vopn og vill ekki bera vopn og er hvenær sem er tilbúin að leggja allt það af mörkum sem hún getur til að bjarga einu mannslífi, sem betur fer, — ég vil þó vara við að draga þessa umr. niður í pólitískt þvarg um hernaðarbandalög heimsins. Það á á engan hátt við og væri ekki sæmandi. Uppalendur og kennarar þessara þjóða eru fullvel færir um að útbúa námsefni í þessum tilgangi.

Ég hef séð, bæði erlendis og hérlendis, þröngsýna fávísa stjórnmálamenn rísa upp og fara að tala um, þegar þessi mál hefur borið á góma, friðarfræðslu, að það verði að gæta þess að öll sjónarmið komist til skila. Sjónarmið NATO, sjónarmið Varsjárbandalagsins, sjónarmið allra bandalaga og viðhorfa þar á milli. Þetta kemur ekkert málinu við. Hernaðarbandalög munu aldrei leysa nokkurt mál nema með skelfingu og ógnvekjandi afleiðingum. Ég held að heimurinn hljóti að verða að fara að horfast í augu við að við leysum engin vandamál með manndrápum. Við höfum aldrei gert það og munum aldrei gera það. Og ég skora á hv. alþm. að reyna nú að rétta úr herðunum og draga þessa umr. ekki niður í það hversdagslega raus, sem við erum að fást hér við alla jafna, og ræða þessi mál í dýpstu alvöru. Íslendingar geta hér farið á undan öðrum og sýnt fram á að hægt er að vinna að þessum málum af alúð og skilningi meðal manna, hverjar aðrar skoðanir sem menn kunna að hafa um hin smærri mái. Ég held að þessi tvö mál, stöðvun vígbúnaðarkapphlaupsins og ný stefna í umhverfismálum, séu þau mál sem yfirskyggi öll önnur vandamál og sem okkur beri að taka á af dýpstu alvöru en ekki með flokkspólitísku pexi. stjórnmálamanna hefur ekki verið höfð í hávegum, en ég held að ekkert okkar geti lengur lokað augunum fyrir henni.

Ég held að við verðum að fara að tengja betur saman hin ýmsu starfssvið mannanna. Fyrir tveimur árum sátum við hv. þm. Halldór Blöndal ráðstefnu í Skálholti um hlutverk kirkjunnar og boðskap friðarins og ég held að við ráðstefnugestir höfum flest verið sammála um að friðarboðskapur kirkjunnar verði tæplega aðskilinn frá friðarboðskap stjórnmálamanna. Ég held að við hljótum öll, hvert á okkar sviði, hvort sem við erum listamenn, stjórnmálamenn, kirkjunnar menn, kennarar, læknar og hvað sem við tökum að okkur í lífinu, að láta það sjónarmið verða ofar öllum öðrum sjónarmiðum að hlutverk okkar sé ekki að deyða hvert annað, ekki að eyða jörðinni, sem við fæddumst á, heldur að skila henni betri í hendur barnanna okkar og gefa þeim möguleika á að lifa áfram á þessari jörð.

Ég efast ekki um að ýmsum kaldhæðnum þm. þyki þetta kannske upphafin umr. og nokkuð viðkvæmnisleg. En þetta er bláköld staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Við verðum að gera eitthvað og til þess þarf algerlega ný viðhorf, þ. á m. þarf ný viðhorf í uppeldi. Börnin okkar trúa ekki lengur á það uppeldi sem við höfum boðið þeim, hvers kyns tvíhyggju, skinhelgi og hræsni. Þau vita betur. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að orsök óhamingju þeirra milljóna unglinga um allan heim sem eygja ekki neina framtíðarvon byggist á því að þeir trúa hvorki á stjórnmálamenn né kirkjunnar menn — ekki einu sinni á foreldra sína. Þessu verðum við að breyta. Og þessu verðum við að byrja að breyta undir eins og við fáum börnin okkar í hendur. Þess vegna er þessi till., sem hér liggur fyrir, stórmerkileg og ég treysti því satt að segja að hún verði samþykkt. Ég held að líf okkar sé beinlínis undir því komið.

Nú situr að störfum nefnd, sem á að gera fyrstu drög að námsskrá fyrir dagheimili. Ég vil leyfa mér að minna á að áður en sú nefnd lýkur störfum tel ég eðlilegt og sjálfsagt að friðarfræðsla verði gerð einn meginþáttur í þeirri námsskrá. Ég vil vara íslenska þm., þm. þjóðar sem ber ekki vopn og vill ekki bera vopn og er hvenær sem er tilbúin að leggja allt það af mörkum sem hún getur til að bjarga einu mannslífi, sem betur fer, — ég vil þó vara við að draga þessa umr. niður í pólitískt þvarg um hernaðarbandalög heimsins. Það á á engan hátt við og væri ekki sæmandi. Uppalendur og kennarar þessara þjóða eru fullvel færir um að útbúa námsefni í þessum tilgangi.

Ég hef séð, bæði erlendis og hérlendis, þröngsýna fávísa stjórnmálamenn rísa upp og fara að tala um, þegar þessi mál hefur borið á góma, friðarfræðslu, að það verði að gæta þess að öll sjónarmið komist til skila. Sjónarmið NATO, sjónarmið Varsjárbandalagsins, sjónarmið allra bandalaga og viðhorfa þar á milli. Þetta kemur ekkert málinu við. Hernaðarbandalög munu aldrei leysa nokkurt mál nema með skelfingu og ógnvekjandi afleiðingum. Ég held að heimurinn hljóti að verða að fara að horfast í augu við að við leysum engin vandamál með manndrápum. Við höfum aldrei gert það og munum aldrei gera það. Og ég skora á hv. alþm. að reyna nú að rétta úr herðunum og draga þessa umr. ekki niður í það hversdagslega raus, sem við erum að fást hér við alla jafna, og ræða þessi mál í dýpstu alvöru. Íslendingar geta hér farið á undan öðrum og sýnt fram á að hægt er að vinna að þessum málum af alúð og skilningi meðal manna, hverjar aðrar skoðanir sem menn kunna að hafa um hin smærri mái. Ég held að þessi tvö mál, stöðvun vígbúnaðarkapphlaupsins og ný stefna í umhverfismálum, séu þau mál sem yfirskyggi öll önnur vandamál og sem okkur beri að taka á af dýpstu alvöru en ekki með flokkspólitísku pexi.