20.03.1984
Sameinað þing: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3942 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

184. mál, friðarfræðsla

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vona að það hafi ekki verið vegna þess að hv. 10. landsk. þm. vissi að ég væri næstur á mælendaskrá, sem hún hafði svo oft við orð að hún vonaði að þessi umr. færðist ekki af hinu upphafna plani niður á eitthvað annað lægra. Þó má vel vera að svo hafi verið og kemur til af því að skoðanir okkar eru mjög skiptar um það hvernig rétt sé að standa að fræðslu um frið og hvað við tvö í rauninni meinum þegar við tölum um frið. Ég held að við séum kannske þarna komin að vissum kjarna þessa máls sem ég vænti að ekki verði kallað pex að vekja athygli á.

Ég vil í fyrsta lagi segja það að þrá mannkyns eftir friði og öryggi er jafngömul mannkyninu sjálfu og meira en það. Þessi þrá er ekki bundin við þessa einu dýrategund, ef ég má segja svo, hér á jörðu heldur er það sjálfsbjargarviðleitni okkar allra að reyna með öllum tiltækum ráðum að búa okkur og niðjum okkar öryggi og frið í bráð og lengd. Það er m. a. talið eitt hið göfugasta við móðurástina að móðirin snýst til varnar, er reiðubúin að fórna sínu lifi, ef henni þykir sem öryggi afkomenda sinna sé ógnað. Ég held að við getum öll verið sammála um það og ég held að við getum líka verið sammála um hitt, að höfuðskylda þeirra manna, sem takast þá ábyrgð á hendur að stjórna, fara með mál sinnar þjóðar, hlýtur að vera sú að tryggja öryggi hennar í bráð og lengd.

Það vakti athygli mína hjá frummælanda þegar hann talaði fyrir þessari till. að hann hafði svör á reiðum höndum í fyrsta lagi um það hvaðan mannkyninu stafaði ógn og í öðru lagi kom það skýrt fram í hennar máli að hún lagði þar að jöfnu hinar lýðfrjálsu þjóðir og aðrar sem búa við ofbeldi og lögregluríki, setti annars vegar á vogarskálina Bandaríkin, hins vegar Sovétríkin og vék orðum að því að hinar sömu hvatir réðu framleiðslu vopna og baráttufýsn í Sovétríkjunum og á Vesturlöndum. Það kemur raunar heim og saman við þá áherslu sem málflutningur hennar að öðru leyti lýsti og mér fannst því miður þess eðlis að ég hlýt að bera kvíðboga fyrir því af hvaða rótum þessi till. er flutt af hennar hálfu.

Það er líka athyglisvert að í markmiðum friðarfræðslu, eins og þeim er lýst á bls. 2, er ekki vikið að því að gera eigi börnum og unglingum grein fyrir ágæti lýðræðisskipulagsins og þeim mikla árangri sem vissulega hefur náðst í friðarátt í þeim þjóðfélögum sem við það búa.

Ég vil aðeins til þess að koma betur orðum að minni hugsun í þessu efni víkja að því að fyrir hálfri öld hefði flestum mönnum þótt það með algerum ólíkindum að á næsta leiti væri svo náin samvinna milli landa eins og Þýskalands, Frakklands og Englands að stórstyrjöld þar á milli væri með öllu óhugsandi. Ég held að með fullri sanngirni í allra garð megi segja að þetta sé langsamlega mesta framlag til friðar í veröldinni sem manninum hefur fram að þessu tekist að leggja fram. Skýringin á þessu er nærtæk. Hún er sú að í þessum löndum hefur virðingin fyrir manngildinu verið glædd, landamæri hafa verið opnuð og þessum þjóðum hefur smám saman tekist að skilja að framtíð þeirra er samofin, gæfa einnar er gæfa annarrar. Ég held að ég geti líka sagt að þeir menn sem búa við almenn mannréttindi hljóti að bera kvíðboga fyrir því hversu seint gengur að koma slíkum réttindum á í öðrum löndum. Að hafa við orð að hægt sé að glæða frið, auka öryggi í heimi, tryggja framtíð mannkyns án þess að viðurkenna þessa staðreynd og án þess að hafa hana sem útgangspunkt er neitun á staðreyndum í sjálfu sér. Undir engum kringumstæðum er hægt að fallast á að hægt sé að ástunda friðarfræðslu án sannleika, án hreinskilni, án viðurkenningar á því að til þess að við getum uppfyllt jörðina í friði áfram verðum við að læra að bera meiri virðingu hver fyrir öðrum.

Ég vil líka segja það að ég sakna þess að meðal markmiða friðarfræðslu í skólum, eins og þeim er hér lýst, skuli ekki drepið á fræðslu í kristindómi, sem aftur minnir á það sem kom í blöðum nú fyrir skömmu að sumar fóstrur hefðu neitað að kenna börnunum inntak jólanna á síðustu jólaföstu. En á hinn bóginn á ég erfitt með að skilja hvers vegna hv. 10. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, beitti sér ekki fyrir því að koma kristindómsfræðslunni hér inn sem lið í þessari fræðslu vegna þess að ég gat ekki fundið annað á Skálholtsfundi þeim, sem hún vitnaði til, en hún hefði á því djúpan skilning og næman hversu miklu kirkjan getur áorkað í þessum efnum og hversu mikið sú kenning í raun og veru hefur gert fyrir frið í veröldinni þó við um leið viðurkennum að í skjóli þessara sömu kenninga hafa margir verstu glæpir mannkynssögunnar verið drýgðir, sem aftur sýnir hversu valt það er að treysta orðum og hversu auðvelt það er fyrir óprúttna valdhafa að færa sér fagrar kenningar í nyt til þess að koma óhæfuverkum fram og efla stuðning við þau.

Þetta minnir í raun og veru aftur á að á því þingi Sameinuðu þjóðanna sem ég sat fyrir skömmu vakti athygli að fulltrúi eins lands byrjaði á guðs orði á sinni tungu í upphafi hverrar ræðu. Það var fulltrúi Khomeinis og ég held að í framhaldinu hafi hann flutt dýrari óð til friðar og mannkærleika en nokkur annar maður sem tók til máls um frið á jörðu á þeirri samkundu. Það var líka mikil lífsreynsla að upplifa það á einni viku að 79 tillögur í friðarátt voru samþykktar í fyrstu nefnd Sameinuðu þjóðanna, sumar ár eftir ár og ævinlega undir því fororði að þær væru svo mikils virði að undir engum kringumstæðum mætti vísa þeim frá eða hafna þeim. Á þessu þingi Sameinuðu þjóðanna tók ekki einn einasti maður til máls sem ekki sagði að það væri æðsta boðorð síns lands að stuðla að friði á jörðu.

Við sjáum svo ef við lítum í kringum okkur hvernig ástandið er. Okkur berast uggvænlegar fréttir frá Líbanon. Við lesum um fjöldamorð í Afganistan. Daglega berast ný tíðindi frá styrjöld Íraka og Írana. Þannig mætti lengi telja. Það er undir engum kringumstæðum hægt að ræða svo um friðarmál að öll ógn manna hér stafi af kjarnorkuvopnum, svo ægileg sem þau annars eru, því að aðrir verða nú að láta sér lynda að falla fyrir ómerkilegri drápstækjum og eru jafndauðir samt.

Ný hugsun og ný pólitík, sagði hv. 10. landsk. þm. Það er öldungis rétt að við þurfum nýja hugsun og nýja pólitík í umr. um afvopnunar- og friðarmál ef við eigum að vænta þess að árangur náist í náinni framtíð. Ég geri á hinn bóginn ekki ráð fyrir því að við séum sammála um á hvað beri að leggja áherslu þar og hverju sé þar fyrst og fremst um að kenna, eins og talað var hér áðan. En jafn augljóst og það er að aukin fræðsla um kjarnorkuvopn, um það ógnarjafnvægi sem við búum við, er af því góða, jafn augljóst er hitt að við erum víðs fjarri því að geta látið slíka fræðslu óyggjandi í té. Enda kemur það fram á þingi Sameinuðu þjóðanna, sem flm. vitnaði svo mjög til að væri sú stofnun sem helst hefði lagt fram af mörkum nokkuð sem til friðar heyrir, að í þeirri stofnun er ógjörningur að ná því fram að dyr þjóðríkjanna séu opnaðar með þeim hætti að nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna geti af eigin raun fylgst með því hvað gerist innan landamæra þess, vopnavígbúnaði sem þar fer fram og þar fram eftir götunum. Þar stendur raunar hnífurinn í kúnni. Það vantar alla forsendu fyrir því að afvopnun geti átt sér stað vegna þess að það vantar gagnkvæmt traust milli þjóða og vegna þess að ein þjóð hefur ástæðu til að tortryggja aðra.

En um leið og ég vek athygli á þessu hlýt ég að viðurkenna að orðið friðarfræðsla í sjálfu sér, sú hugsun sem ég vænti á bak við það orð liggi, er góð. Auðvitað er öll upplýsing góð. Spurningin er á hinn bóginn hvernig að slíkri fræðslu eigi að standa, með hvaða hugarfari og af hverjum. Ekkert kom fram í þessari löngu ræðu flm. um það hvernig hann hugsaði sér að staðið yrði að fræðslu t. d. um útrýmingu kjarnorkuvopna og þær áherslur sem hv. flm. vill þar leggja þyngstar. Enda er það svo að eitt rekur sig þar á annars horn. Ég skal því til rökstuðnings lesa úr grg. eina setningu sem ég skil ekki alveg og þætti fróðlegt að fá nánari útskýringu á. En þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stöðugt fleiri einstaklingar gera sér grein fyrir því að sú leið ofbeldis, hernaðar og ógnarjafnvægis, sem þjóðir heimsins hafa farið til að ná fram vilja sínum og staðfesta mátt sinn, er ekki lengur viðunandi.“

Síðan hvenær? Hvað er átt við með þessum orðum: „Er ekki lengur viðunandi“? Ég átta mig ekki alveg á því. Ég held að það hafi ekkert það nýtt gerst að breyti þeirri staðreynd að ofbeldi- og hernaðarmáttur hefur verið óviðunandi frá alda öðli og ekkert nýtt í þeim efnum sem breytir né haggar þeirri staðreynd gagnvart þeim sem um sárt eiga að binda. Ég held að það sé alveg ljóst. Enda ætla ég ekki að flm. hafi haft þá hugsun að hvarflað hafi að honum með þessari setningu að réttlæta eða afsaka ójöfnuð fyrri alda, það hvarflar ekki að mér. En hitt ætla ég að þarna sé um pennaglöp að ræða.

Menn greinir á um barnauppeldi. Sumir halda því fram að börn eigi sjálf að móta sínar skoðanir, það eigi ekki að vera með innrætingu og segja þeim á unga aldri hvað þau eigi að hugsa um hvað eina. En því miður held ég að ýmsir sem mjög ákafir eru í sinni trú þrái það umfram flest annað að fá aðgang að barnssálinni á billegan hátt og ekki sakar ef hægt er að gera það undir fögru yfirskini, það sakar ekki. Hér er verið að ræða um viðsjár í heiminum. Þetta er auðvitað mjög flókið mál og fæstir sem eru þar mjög vitandi. En á hinn bóginn liggur fyrir að skoðanir manna eru mjög skiptar á aðalatriðum, í fyrsta lagi hvernig við getum unnið að öryggi fyrir okkar litlu þjóð, sem hlýtur að standa okkur næst, og í öðru lagi hvernig okkur megi takast að stuðla að friði annars staðar í veröldinni.

Í Morgunblaðinu hinn 8. febr. s. l. er viðtal við 5–6 flm. þessarar þáltill. Athygli vekur að þeirra grundvallarskoðanir, t. d. á gildi Atlantshafsbandalagsins og varnarmætti vestrænna þjóða, er annar en þeirra tveggja ræðumanna sem töluðu áðan. Nú væri afskaplega fróðlegt að fá um það vitneskju frá 1. flm. þessarar till. hvort hann t. d. telji að rétt sé að skýra í skólum og þá hve snemma tilgang Atlantshafsbandalagsins og það sem stofnun þess hefur leitt af sér, hið mikla öryggi sem við þó þrátt fyrir allt búum við miðað við aðra heimshluta. Og nú tek ég að sjálfsögðu það svar ekki gott og gilt að kjarnorkusprengja geti ekki ógnað okkur eins og öðrum. Auðvitað veit ég það vel og auðvitað er ég ekki fáfróður um að eitt stórveldi hefur látið þau orð falla að vera kynni að sprengja dytti af þess völdum ofan á land okkar. Við skulum ekki gleyma því. En við megum heldur ekki vera svo gálaus í málflutningi að við fáumst ekki til að ræða alþjóðamál í þeirri ógnarveröld sem við búum við og miða við þá staðreynd að kjarnorkusprengjan sé til staðar. Þá er spurningin: Hvernig getum við, á meðan ekki næst samkomulag um útrýmingu kjarnorkuvopna, stuðlað að friðsamlegri sambúð þegnanna? Hvernig getum við innrætt þjóðum friðinn? Hvernig getum við haldið þannig á málum að landamæri séu opnuð, að hvarvetna í veröldinni sé reynt að glæða með mönnum virðingu fyrir manninum, stórum og smáum, litlum og gömlum? Ég held að það sé verðugt verkefni.

Þingheimi er um það kunnugt að það skáld sem einna dýrast hefur ort um frið á jörðu, Jóhannes úr Kötlum, er um leið það skáld sem dýrastan óð hefur ort um Jósef Stalín af öllum íslenskum mönnum. Það lýsir náttúrlega því sem rétt er að Jóhannes úr Kötlum var sannur friðarsinni í sínu hjarta. En hins vegar glæptist hann á að trúa því að austan járntjalds væri eitthvað það að gerast sem gæti orðið öðrum þjóðum fyrirmynd og gerðist harður talsmaður þeirrar kenningar hér á landi að okkur mundi best vegna ef Sovét-Ísland yrði að veruleika. Þetta sýnir okkur bara hvað orðið friður, hugsjónin friður, getur leitt menn á villigötur ef þeir gæta sín ekki og skoða hlutina ekki í réttu samhengi, heldur láta það eftir sér að falla fyrir áróðri og fagurgala.

Auðvitað getur friður ekki orðið án fyrirhafnar. Það væri afskaplega rangt ef við héldum því fram og það er afskaplega gagnslítið þó reynt sé að halda því fram í þessum sal að friðarfræðsla í íslenskum skólum geti orðið einhver örlagavaldur um það hvort kjarnorkuvopn haldi áfram að vera í heiminum eða ekki, eins og reynt er að gefa hér í skyn. Það er alger firra.

Vitnað er til þess í ræðu 1. flm. að friðarfræðsla í Bandaríkjunum, í Englandi, á Norðurlöndum og hér og þar hafi svo og svo mikið gildi og muni ná svo og svo langt. Ef þessi orð væru sönn og rétt væri þess heldur ekki langt að bíða að kjarnorkuváin væri úr heiminum. En hlutirnir eru ekki þannig. Hlutirnir eru einfaldlega ekki þannig. Það er allt annað sem veldur þessum viðsjám. Það er miklu flóknara mál en svo að kennsla í skólum landsins geti ráðið þar úrslitum.

En á hinn bóginn segi ég um leið: Ég er síður en svo mótfallinn því að það sé brýnt fyrir fólki, öllum Íslendingum, ungum og gömlum, hvert sé gildi friðarins, af hverju við höfum friðinn, þýðing þess að mannréttindi séu í heiðri höfð hér á landi og menn geti óáreittir farið í gönguferðir og skrifað og sagt það sem þá langar til. Ég yrði t. d. mjög ánægður yfir því ef ég frétti um það að 1. flm. þessa máls gerði sér sams konar gönguferð fyrir austan járntjald eins og hann gerði í Bandaríkjunum. (Gripið fram í.) Flm. spyr hvenær hún verði farin. (Gripið fram í.) Ég sé nú ekki annað en það ætti að vera hægt að stofna til hennar ef leikurinn er svo auðveldur og ef það er í raun og veru svo að friðarfræðslan eigi sér stað í því landi. Ef við á annað borð getum lagt Sovétríkin og Bandaríkin að jöfnu eins og flm. gerði hér áðan og ef við getum sagt að sömu hvatir ráði þar gerðum manna og afstöðu til afvopnunarmála austan tjalds og vestan, þá ætti aðgangurinn til að tjá sig og skipuleggja friðarhreyfingar austan tjalds og vestan líka að vera sá sami ef ekki væri bara verið að slá keilur, rugla menn í ríminu og tala þvert um hug sér.

Það er afskaplega einfalt hér uppi á Íslandi, í þessu litla, góða landi, að tala um að engir ógni okkar öryggi af því að við erum frjálsir nú. Það var auðvelt að halda því fram í öllum þeim löndum sem fengu fullveldi og lýðræði eftir fyrri heimsstyrjöld að þau þyrftu ekki að hugsa um sínar varnir, hlutleysisyfirlýsing ein dygði. Það var auðvelt að segja það í Eistlandi, Lettlandi, Litháen. Það var auðvelt að segja það í Póllandi, það var auðvelt að segja það í Úkraínu. En hvar eru þessi lönd nú sem fengu frelsið um leið og við Íslendingar og ættu jafnlangt fullveldi og við nú ef þau hefðu búið við það öryggi sem við búum við núna? Fólk hefði ekki verið að brenna sig í þessum löndum ef þau byggju við okkar öryggi, okkar frið.

Í skilningi Biblíunnar er um það talað að orðið friður sé afstætt. Það er friður á Íslandi. Þó að við höldum fjölmenna fundi hér úti þá ríkir hér friður, þó menn hafi hátt, þó menn fari í langar göngur. Það er friðarástand á Íslandi samt sem áður af því að þetta er hluti af því samfélagi sem við búum í. En ef slíkt hið sama gerðist í landi eins og Póllandi þá er það ógnun við friðinn að einstaklingarnir láti í ljósi sína skoðun, tjái hugrenningar sínar og þrár, líka þó að þessar hugrenningar og þrár séu eftir friði, séu eftir öryggi og séu eftir frelsi. Þetta er sá mikli munur sem er á þjóðfélagsgerð þessara landa, stjórnarháttum þeirra. Í því felst í rauninni fyrsta uppgjöf friðarfræðslunnar þegar hún segir í sinni skilgreiningu að ekki megi reyna að hafa áhrif á að breyta þjóðfélagsgerð einstakra landa. Því að með því erum við í raun og veru að segja að okkur varði ekkert um það þó að menn séu píndir, deyddir, þeim sé tortímt í öðrum þjóðlöndum, þó valdsmennirnir skrifi undir stofnskrá Sameinuðu þjóðanna með hugsunarhætti úlfsins og allt þeirra tal um frið sé einungis til þess gert að skapa sér skálkaskjól til þess að koma illu fram.

Ég leyfi mér að fullyrða að enginn frjáls maður geti í sjálfu sér verið hlutlaus gagnvart þeirri óhamingju sem er að gerast nú í þeim löndum sem ég drap á áðan og ég held að það væri afskaplega mikið ábyrgðarleysi ef friðarfræðsla færi t. d. fram með þeim hætti að ekki væri á það imprað hvaða hvatir liggi til þess að Sovétríkin hafa frá stofnun sinni viðhaldið slíkri útþenslustefnu að einstakt er í heims- og veraldarsögunni.

En þá getum við líka kannske reynt að skilja hvernig á því stendur. Hver er í rauninni ástæðan fyrir þessum sífellda ófriði, þessum sífellda átroðningi og ofbeldi við aðra? Hver er ástæðan fyrir því að Noregur stendur nú á öndinni út af Treholtsmálinu? Hver er ástæðan fyrir því að Svíar og Norðmenn eyða nú miklum fjármunum og fyrirhöfn til þess að granda njósnabátum sem eru þar uppi í landsteinum, kafbátum? Hvað liggur á bak við það að hið stóra Rússland skuli senda og vera með slíka áreitni við smáþjóðir við hliðina á sér? Maður skyldi ætla að Sovétríkin myndu rækta og leggja sig fram um góða frændsemi t. d. við Svíþjóð sem er þó hlutlaust, er utan við Atlantshafsbandalagið og þess vegna ekki hlekkur í varnarkerfi vestrænna þjóða í þeim skilningi. En það dugir ekki til. Sovétríkin eru eftir sem áður með sinn átroðning þar og spara hvorki fé né fyrirhöfn til þess að grafa undan öryggi og öryggistilfinningu sinna litlu granna.

Stundum er sagt að yfirburðir hins lýðræðislega þjóðfélags séu m. a. í því fólgnir að við leyfum okkur þann munað að deila um það hvernig standa skuli að stjórn efnahagsmála og innri mála í okkar landi og við byggjum það upp á því að til skiptis fari með völd helstu stjórnmálaöflin í okkar löndum. Þetta hefur skapað okkur mikla farsæld og öryggi. Og þó svo megi kannske segja að breyting á efnahagsstefnu á nokkurra ára fresti valdi okkur nokkru tjóni sýnir þó reynslan að til lengdar er það miklu affarasælla en þar sem einræðisríkin eru og sömu menn við stjórnvöl á hverju sem dynur.

Austan tjalds og í Sovétríkjunum, kommúnistaríkjunum er aftur á móti reynt að halda því til streitu að einhver einn stóri sannleikur sé til í efnahagsmálum, að hægt sé að stjórna löndum eftir fyrirfram ákveðinni formúlu, að hægt sé að skammta mönnum kjör og stétt án þess að hann fái nokkru um það ráðið sjálfur, einstaklingurinn sem við það á að búa. Reynslan hefur sýnt að þessi þjóðfélagsgerð leiðir óhjákvæmilega til ofbeldis, inn á svið lögregluríkis. Það kemur af því að mannréttindi öll eru fótum troðin, heimilishelgin rofin og þeir menn sem í ónáð falla fá hvorki að leita sér lækninga ef þeir veikjast né börn þeirra sambærilegt uppeldi og aðrir í þjóðfélaginu, eins og við höfum mýmörg dæmi um. Þessi grimmd hefur meira að segja náð svo langt að sú staðreynd að Viktor Korschnoi flúði Sovétríkin bitnaði á eiginkonu hans og barni.

Til þess að viðhalda þessu valdakerfi hafa sovésku ríkin sveigst til þess að herða tökin, auka lögregluna, efla hervarnir og, ég tala nú ekki um, efna til ófriðar, gjarnan við landamærin eins og ófriðurinn í Afganistan sýnir okkur gleggst. Þessi hefting á almennum mannréttindum í þessum löndum hefur þannig beinlínis valdið útþenslustefnu þessara ríkja og þannig ógnað öryggi þeirra sem við frelsi og frið vilja búa. Ég held að það sé öldungis ljóst.

Flm. sagði — ég veit ekki hvort ég hef skrifað þessa setningu rétt upp en merkingarlega var hún á þessa leið — með leyfi hæstv. forseta: „Réttlátur friður handa frjálsu fólki gerir kröfu um agað framferði.“ Þessu er ég öldungis sammála og ég held að við eigum að hafa þetta mjög í huga, hið agaða framferði, og að við eigum ekki að falla í þá gryfju, þó að um falleg mál sé að ræða sem við öll þráum, að tala um þau óvarlega og fylla fólk — og ég tala ekki um börn — fölskum vonum.

Ég held að saga hinna smáu lýðræðisríkja sanni betur en flest annað að öryggi sitt í dag eiga þau einmitt því að þakka að hér hefur verið ástundað agað framferði og þessar þjóðir hafa viljað leggja mikið af mörkum fyrir öryggi sitt. Ég held að það sé ekki hægt að ganga framhjá þessu. Friðarhugsunin og friðurinn gerist ekki án fyrirhafnar, það sýnir okkar saga.

Undir hitt get ég tekið, öll þau fjögur orð sem fyrri ræðumenn sögðu um lítil börn. Ég held að það geri hvorki þetta mál betra né verra að öll getum við talað fallega um lítil börn og um gildi þess að þau fari í holla leiki á barnaheimilum og sé skipt upp í hópa og að þeim sé sagt að þau megi ekki níðast á náunganum og eigi að ástunda guðsótta og góða siði, undir þetta allt tek ég. En ef við á hinn bóginn settum börnin í þann leik að ákveðinn hluti hópsins mætti fara sínu fram, mætti taka leikföngin frá hinum hópnum, mætti ganga á þann hóp, skerða athafnafrelsi þess hóps og angra hann með öllum hætti, þá held ég að sá hópur, sem sagt er að láta þetta yfir sig ganga mundi einfaldlega segja: Nei, hingað og ekki lengra. Ég held að erfitt væri að kenna börnum það réttlæti að einn megi svo á annan ganga að sá sem eigi undir högg að sækja megi ekki snúast til varnar, a. m. k. gera fyrirbyggjandi aðgerðir til,þess að koma í veg fyrir að slík átök gætu átt sér stað. (Gripið fram í: Hvað segir Biblían?)

Ég veit ekki hvort friðaruppeldi er meira í barnaskólanum á Seltjarnarnesi en annars staðar, en meiri hl. bæjarstjórnar þar bendir vissulega til þess að börnum þar séu innprentaðir hollir siðir og virðing hver fyrir öðrum. Þar kom upp óleysanleg deila um það hvaða börn mættu nota knattspyrnuvöllinn í frímínútum. Þau 10 ára fóru auðvitað halloka í hvert skipti sem knattspyrna var leikin því að þau sem voru 11 og 12 ára beinlínis ráku þau af vellinum. Svo að þau fóru á fund síns kennara og skólastjóra og náðu þeim samningum að 10 ára börnin hefðu rétt á vellinum einn dag í viku. Og þetta var haldið. Þeir snerust þarna til varnar á réttan hátt, fóru til þess sem valdið hafði og náðu sínu fram. Ég geri líka ráð fyrir því að um það séum við sammála að það þjóðfélag, stórt eða smátt, sem við það byggi að enginn héldi uppi lögum og reglu mundi ekki lengi standa, ég held að það sé ljóst. Ég held þess vegna og styðst líka við söguna — um það má færa dæmi — að mikil menningarríki hafi af þeim sökum hrunið að nágrannarnir vígbjuggust en þessi ríki ekki og hrundu því til grunna. Ég held að mannkynssagan kenni okkur einnig að nauðsynlegt sé hverri þjóð að huga vel að sínu öryggi.

Ég vil svo, herra forseti, að það komi alveg skýrt fram að ég er síður en svo á móti því að sem víðast sé um það rætt hvernig okkar litla þjóð geti í fyrsta lagi sem best tryggt sér öryggi í bráð og lengd, hvernig hún geti komið fram á alþjóðavettvangi þannig að hún stuðli að friðsamlegri sambúð ríkja. Ég get undir það tekið að margt af því sem hér er sagt sem markmið friðarfræðslu eigi rétt á sér. En ég er á hinn bóginn í miklum vafa um að hægt sé að gera öllu því skil sem þarna er talið upp. Ég held að aðeins lestur þessara níu liða, sem þarna eru til tíndir, sýni okkur að þarna er færst of mikið í fang ef hugmyndin er að koma þessu öllu til skila á barnaheimilum landsins eða í grunnskólum. Ættu flestir erfitt með að skilja til fulls það sem þarna er talað um þó að þeir eyddu ævi sinni í að reyna að skýra það svo að viðunandi væri. Námsskrár eru falleg plögg en reynsla mín sem kennari sýnir að það getur verið erfitt að koma öllu til skila sem til er ætlast. Svo hygg ég að verði líka ef við ættum að gera þessu einhver skil þó að ekki væri nema 5. lið friðarfræðslunnar, að þekkja ýmsa líffræðilega og félagslega þætti sem hafa áhrif á mannlega hegðun. Ég hygg að þennan lið einan gæti orðið töluvert flókið að skilja og gæti tekið töluverðan tíma að koma honum til skila.