21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3954 í B-deild Alþingistíðinda. (3369)

42. mál, orkulög

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hl. iðnn. í þessu máli. Iðnn. hefur fjallað um þetta frv. á nokkrum fundum og m. a. fengið á sinn fund fulltrúa frá Landsvirkjun og svo framkvæmdastjóra lögfræði- og stjórnsýsludeildar Reykjavíkurborgar til þess að gefa skýringar og tjá sig um ákveðin atriði varðandi þetta frv.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu frv., en meiri hl. n. leggur til að frv. verði fellt. Það er nokkuð óvenjulegt að þeir sem bera fram frumvörp óski eftir að frv. verði fellt en svo er ástatt í þessu efni. Þetta er ríkisstjórnarfrv. sem ríkisstj. leggur til að verði fellt. Með því að þetta er óvenjulegt, eins og ég hef tekið fram og öllum má vera ljóst, þykir mér hlýða að fara nokkrum orðum um málið.

Er þá fyrst til að taka að á síðasta þingi flutti ríkisstj. sem þá var frv. um breytingu á lögum nr. 58 frá 29. apríl 1967 með síðari breytingum. 1. gr. þessara laga hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við XI. kafla orkulaga — almenn ákvæði — bætist ný grein, 81. gr., sem orðist þannig:

Breytingar á verðákvæðum í gjaldskrám orkufyrirtækja skulu háðar samþykki ráðh. orkumála.“

Þetta frv. er nákvæmlega, efnislega og orðrétt, sama frv. og við nú ræðum til staðfestingar á brbl. sem sett voru um þetta efni á s. l. vori. Með þessu frv., sem lagt var fram á síðasta þingi, fylgdi grg. Þar var tekið fram að frv. væri lagt fram með tilliti til laga um Landsvirkjun, en í lögum um Landsvirkjun þótti ákvæði um það að Landsvirkjun ákvæði gjaldskrá sína vera til trafala því að ríkisstj. hefði heimild til þess að ákveða gjaldskrá Landsvirkjunar.

Í 1. umr. um þetta frv. á síðasta þingi var því haldið fram, m. a. af þeim sem nú talar, að frv. þá væri brot á samkomulagi sem gert hefði verið við Landsvirkjun þegar samið var um sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar. Því var haldið fram að þá hefði Landsvirkjun verið lofað því og það hefði verið sótt fast af hálfu Landsvirkjunar og af hálfu Reykjavíkurborgar að það stæði óhaggað sem áður stóð í Landsvirkjunarlögum um að Landsvirkjun setti gjaldskrár sínar sjálf.

Í umr. um þetta frv. á síðasta Alþingi við 1. umr. þess var enn fremur bent á að þáv. ríkisstj. hefði lagt fram frv. til l. um Landsvirkjun og í því frv. var þess gætt að taka fram að stjórn Landsvirkjunar setti gjaldskrá fyrir Landsvirkjun. M. ö. o., staðið var skv. frv. um Landsvirkjun við það samkomulag sem hafði verið gert við Landsvirkjun. Þetta frv. var samþykkt sem lög frá Alþingi, lög um Landsvirkjun, á síðasta þingi.

Í umr. á síðasta þingi við 1. umr. málsins var bent á að skv. gildandi orkulögum væru ákvæði í 25. og 29. gr. laganna sem kveða á um gjaldskrár orkufyrirtækja, bæði rafveitna og hitaveitna, og þar er ákvæði um að ráðh. skuli staðfesta gjaldskrár. Í umr. um frv. á síðasta þingi var því haldið fram að þetta almenna ákvæði í orkulögum gæfi ekki ríkisstj. heimild til þess að ákveða gjaldskrár orkufyrirtækja með svo ótvíræðum hætti og algerlega eins og gert var ráð fyrir í frv. sem þá var lagt fram vegna þess að ákvæði orkulaga 25. og 29. gr. næðu ekki svo langt. Á það var bent að eftir að verðstöðvunarlögin, sem giltu frá árinu 1971 til 1981 féllu úr gildi hefði ríkisstj. ekki haft heimildir til þess að ráðskast með gjaldskrár orkufyrirtækja eins og gert hafði verið.

Það sem ég hef hér vikið að voru meginatriði sem komu fram í gagnrýni á þetta frv. við 1. umr. þess á síðasta þingi. Frv. var þá vísað til hv. iðnn. og hlaut þar ekki afgreiðslu. Litið var svo á að frv. hefði ekki hlotið afgreiðslu vegna undirtektar þeirrar sem frv. fékk við 1. umr. og í verki hefði það sýnt sig að ekki var meiri hl. á Alþingi fyrir þessu frv. En eftir að Alþingi sleit setti ríkisstj. brbl., sem gefin voru út 8. apríl 1983, um nákvæmlega sama efni, nákvæmlega sömu lögin efnislega og orðrétt gerð að brbl. Þá kom strax fram gagnrýni á þetta ráðslag hæstv. þáv. ríkisstj. að brjóta svo gegn ótvíræðum vilja Alþingis sem fram hafði komið.

Frv. það sem við ræðum í dag er frv. til staðfestingar á þessum brbl. Þetta frv. er efnislega og orðrétt nákvæmlega eins og frv. sem lagt var fram á síðasta þingi og ég hef hér vikið að.

Meiri hl. iðnn. hefur með tilliti til þess sem ég nú hef gert grein fyrir lagt til að frv. verði fellt. Með því er orðið við í fyrsta lagi óskum hæstv. ríkisstj. sem fram komu í framsöguræðu hæstv. iðnrh. Í öðru lagi er með því staðið við samkomulagið sem gert var við Landsvirkjun þegar samið var um sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar. Í þriðja lagi standa með því óhögguð þau ákvæði í almennum orkulögum sem er að finna í 25. og 29. gr. þeirra laga.