01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hefur varpað hér fram fsp., sem að vísu er ekki til umr. en hafði verið til umr. hér á Alþingi fyrr, um lögmæti Seðlabankans varðandi vaxtaákvörðun. Með leyfi forseta, þá vil ég mjög gjarnan mega lesa upp svarbréf viðskrn. til Seðlabankans varðandi þetta atriði. Með bréfi 26. þ. m. óskaði Seðlabankinn eftir afstöðu rn. til þess hvort Seðlabankanum sé heimilt að ákveða vexti af viðskiptum innlánsstofnana við bankann. Í bréfinu segir, með leyfi forseta:

„Rn. ítrekar þá afstöðu sína að umrædd vaxtataka sé berum orðum í 13. gr. laga nr. 10 1961 um Seðlabankann að bankinn hafi rétt til að ákveða vexti af viðskiptum sínum við innlánsstofnanir. Á hinn bóginn segir í 1. tölul. 3. gr. laganna að Seðlabankinn eigi að vinna að því að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt vegna tilgreindra markmiða. Jafnframt segir í 5. tölul. sömu gr., sbr. og 9. og 11. gr. laganna, að Seðlabankinn sé banki annarra banka og peningastofnana. Af þessum ákvæðum leiðir að 13. gr. verður ekki skýrð öðruvísi en svo, að Seðlabankinn fari að lögum þegar hann ákveður vexti af viðskiptum sínum við innlánsstofnanir, enda er hvergi að finna ákvæði í íslenskum lögum er felur öðrum aðila að ákveða þessa vexti.

Þá hefur því sérstaklega verið haldið fram að Seðlabankinn hafi ekki vald til að ákveða vexti af yfirdrætti innlánsstofnana í reikningum þeirra í bankanum, a.m.k. sé óheimilt að vextirnir séu hærri en hæstu leyfilegir dráttarvextir. Rn. telur þessa skoðun ekki eiga við rök að styðjast. Að mati rn. hafa þessir vextir, refsivextirnir, mikla sérstöðu. Á þá ber ekki að líta sem venjulega vanskilavexti. Þeir eru úrræði Seðlabankans gegn óhóflegum yfirdrætti innlánsstofnana. Af eðlilegum ástæðum hefur Seðlabankinn ekki talið sér fært að loka reikningum innlánsstofnana við bankann þótt stofnað hafi verið til mikils yfirdráttar. Þess í stað hefur bankinn leitast við að hindra óhóflegan yfirdrátt með ákvörðun refsivaxta. Samkv. 36. gr. laga nr. 10/1961 er heimilt að leggja á refsivexti ef ákvörðunum bankans er ekki hlítt. Með vísan til þess er segir um skýringu á 13. gr. og 36. gr. og sérstöðu refsivaxtanna telur rn. að lokamátsliður 5. gr. laga nr. 58/1960, sbr. lög nr. 71/1965, takmarki ekki vald Seðlabankans til ákvörðunar þessara vaxta.“

Ég skal svo ekki frekar ræða þetta bréf en vildi leyfa mér að varpa fram þeirri fsp. til hv. 3. þm. Reykv., fyrrv. viðskrh., hvort þm. er ekki á sama máli.