21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3956 í B-deild Alþingistíðinda. (3371)

42. mál, orkulög

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af því sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði. Það er í fyrsta lagi að hann hafði orð á því að fundir iðnn. hefðu verið illa sóttir þegar fjallað var um þessi mál. Ég get ekki haldið því fram að þessir fundir hafi verið vel sóttir. Og við erum kannske álíka óánægðir með mætinguna. En ég held að naumast hafi verið ástæða að hafa orð á því vegna þess að það voru nú haldnir nokkrir fundir. Auk þess var um mál að ræða sem ekki var með öllu ókunnugt því að það var nákvæmlega sama málið og fjallað var um á síðasta þingi og ég gerði grein fyrir í ræðu minni hér á undan.

Hv. 4. þm. Vesturl. virtist eitthvað vera undrandi á því — eða það mátti lesa það í orðum hans — að varamaður hv. 5. þm. Vesturl., Davíðs Aðalsteinssonar, skyldi hafa skrifað undir álit meiri hl. iðnn. í þessu máli. Ég held að ekki sé ástæða til þess að undrast á því því að þá værum við að gefa það í skyn að Davíð mundi hafa hagað afstöðu sinni á einhvern annan veg ef hann hefði verið til staðar þegar málið var afgreitt. En hann var til staðar þegar málið var rætt á a. m. k. einum eða tveimur fundum í iðnn.

Í þriðja lagi sagði hv. 4. þm. Vesturl. að hann efaðist um að það hefði verið meiri hl. á síðasta þingi á móti þessu sama frv. sem þá var lagt fram. Ég held að hæpið sé að efast um það. Ég hef ekki heyrt annan hv. þm. orða það svo að hann efaðist um það. Svo virtist sem þessar efasemdir væru eitthvað tengdar við hv. 5. þm. Vesturl. sem á síðasta þingi var formaður iðnn. Ég held að alger óþarfi sé að gera slíkt. Og ég ráðlegg hv. 4. þm. Vesturl. að lesa yfir og kynna sér ræðu hv. 5. þm. Vesturl. sem hann flutti um þetta frv. við 1. umr. Allir sjá að þar talaði þessi hv. þm. tæpitungulaust um þetta mál.

Í fjórða lagi vildi ég gera athugasemd við það sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði um að þetta mál kæmi til hv. Nd. og þá gæti fyrrv. iðnrh. sem þar á sæti tjáð sig um þetta mál. En ég er að vona að hv. 4. þm. Vesturl. verði ekki að þessari ósk sinni og þessi hv. deild verði við því að fella frv. Og ef frv. er fellt í þessari deild á það ekki lengri lífdaga. Ég verð að segja að slæmur er málstaðurinn hjá þeim sem standa gegn því að fella þetta frv. ef menn geta ekki haldið þeim málstað uppi hér í hv. Ed. þó að fyrrv. iðnrh. sé ekki viðlátinn.