21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3957 í B-deild Alþingistíðinda. (3372)

42. mál, orkulög

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér um ræðir er um staðfestingu á brbl. sem sett voru í tíð ríkisstj. dr. Gunnars Thoroddsen. Brbl. eru að sjálfsögðu ekki sett nema ríkisstj. öll sé því samþykk og það er föst venja að áður en ráðherrar ríkisstj. taka afstöðu til brbl. hafi þeir samband við sína þingflokka og tryggi sér stuðning þeirra. Ég efast ekkert um að hv. þm. Framsfl. hafi verið með í ráðum þegar ráðherrar Framsfl. samþykktu setningu þessara brbl. á sínum tíma enda man ég ekki betur en ráðherrar Framsfl. í þeirri stjórn, sem eiga tveir sæti í þessari hv. deild, hafi báðir verið áhugamenn um setningu þessara brbl. Sérstaklega er mér minnisstætt að hv. 9. þm. Reykv., Ólafur Jóhannesson, var sérstakur stuðningsmaður þessa máls og mjög hvetjandi þess að brbl. væru sett þessa efnis. Þannig liggur nú fyrir að á s. l. vori var Framsfl. eindreginn stuðningsaðili þessa máls. Hvort þar hefur einhver breyting orðið á er hins vegar mjög forvitnilegt og lærdómsríkt að fregna af. Það liggur fyrir að varamaður flokksins á þingi, sem nú situr hér í forföllum Davíðs Aðalsteinssonar, hv. þm. Jón Sveinsson, hefur skrifað undir þetta nál. og má vera að það sé hans persónulega skoðun að þessi lög eigi ekki rétt á sér, hann getur haft sín rök fyrir því. Vissulega geta menn haft fleiri en eina skoðun á þessu máli, en um afstöðu þm. Framsfl., sem sæti áttu á þingi sem seinast sat, að ég tali nú ekki um þáverandi ráðh. flokksins, þarf enginn að efast.

Þó er kannske rétt af þessu tilefni að spyrja fyrrv. ráðh., hv. þm. Ólaf Jóhannesson og hv. þm. Tómas Árnason, hvort þeirra afstaða er ekki — (ÓlJ: Ég gerði grein fyrir minni afstöðu við 1. umr. málsins.) Já, það má vera, þá hefur það farið fram hjá mér því að ég hefði ekki spurt ef mér væri kunnugt um þá afstöðu. En ég geng þá út frá því að hv. þm. hafi lýst yfir stuðningi sínum við efni frv. og sama hlýtur að gilda um hv. þm. Tómas Árnason og raunar aðra þm. Framsfl. sem þá áttu sæti á Alþingi.

Vissulega geta menn haldið því fram að einfaldast sé að láta orkufyrirtækin í landinu ráða sinni verðlagningu algerlega sjálf, vissulega er það sjónarmið út af fyrir sig. En mér er spurn, ef það er gert, hvers vegna á þá að staðnæmast við orkufyrirtækin? Ef það er stefna núv. ríkisstj. að gefa öllum orkufyrirtækjum lausan tauminn, fylgir þá ekki í kjölfarið að öðrum opinberum fyrirtækjum verði gefinn laus taumur? Hlýtur ekki Póstur og sími að fá frjálst ákvörðunarvald um sína gjaldskrá? Ég er hræddur um að vel yrði tekið við því hjá yfirstjórn póst- og símamála ef hún mætti ráða sinni gjaldskrá algerlega sjálf. Það yrði kátt í koti hjá póst- og símamálastjóra ef slík ákvörðun yrði tekin. Sama gildir raunar um Ríkisútvarpið og margar aðrar opinberar stofnanir sem allar hafa sótt um miklu meiri hækkanir á hverju einasta ári seinustu 10–15 árin en þær hafa fengið.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. iðnrh. hvort þessi sé stefna ríkisstj. og ef svo er ekki, hvers vegna önnur regla eigi að gilda um opinber orkufyrirtæki eins og Landsvirkjun, sem ríkið er stærstur aðili að, annars vegar og svo hins vegar um fyrirtæki eins og Póst og síma eða Ríkisútvarpið. Ég get ekki fengið neinn botn í stefnu stjórnarinnar ef ekki á eitt yfir öll þessi fyrirtæki að ganga.

Auðvitað er þörf á því að hafa aðhald að öllum þessum fyrirtækjum. Það segir sig sjálft að kostnaður við rekstur þessara fyrirtækja mun vaxa í fullu samræmi við hið margfræga Parkinsonslögmál ef þeim er gefinn algerlega laus taumur og ekki gerð nein tilraun til þess af hálfu ríkisstj. að hafa þar hemil á. Ég teldi það mjög varhugaverða stefnu ef það yrði ofan á að gefa öllum slíkum fyrirtækjum algerlega lausan taum, sérstaklega opinberum fyrirtækjum sem eru einokunarfyrirtæki í sjálfu sér. Lögmál hins frjálsa markaðar gildir ekki hvað þessi fyrirtæki snertir. Það er enginn keppinautur og þar af leiðandi hafa þessi fyrirtæki tilhneigingu til að hækka gjaldskrá sína í samræmi við óskadrauma yfirmanna stofnunarinnar um hvers konar útþenslu og óhóf í rekstri fyrirtækisins.

Menn verða sem sagt að gera sér fulla grein fyrir því, jafnvel þótt þeir séu stuðningsmenn frjálsrar verðmyndunar og frelsis í verðlagsmálum almennt, sem ég veit að ýmsir helstu forustumenn Sjálfstfl. eru, að það hljóta að gilda dálítið önnur lögmál um fyrirtæki opinberra aðila sem hafa einokunaraðstöðu á viðkomandi sviði. Það geta ekki gilt sömu lögmál. Ég trúi því satt að segja ekki fyrr en ég heyri yfirlýsingu hæstv. iðnrh. á eftir að hann sé þeirrar skoðunar að eðlilegt sé og sjálfsagt að gefa þessum fyrirtækjum öllum lausan taum.

Ég held að ástæðan fyrir ofurkappi Sjálfstfl. að fella þetta frv. byggist ekki á neinu öðru en því að þeir telji sig með því geta komið einhverju höggi á fyrrv. ráðh. orkumála. Tilgangurinn er enginn annar. Það tengist því að hæstv. iðnrh. kemur með þetta frv., sem iðnrh. flytur, og setur það hér inn í Ed. þar sem hann síðan keyrir það áfram af ofurkappi og leggur til að frv. verði fellt þannig að Nd., þar sem fyrrv. iðnrh. á sæti, fái aldrei tækifæri til þess að fjalla um það. Auðvitað vitum við og skiljum hvernig þetta hefur verið undirbúið og hugsað af hálfu hæstv. iðnrh.

Ég tel að vissulega geti verið álitamál á hverjum tíma hvort fara eigi eftir tillögum stjórnenda orkufyrirtækja og heimila þeim þá hækkun sem þeir biðja um eða hvort þurfi að skera hana eitthvað niður. Það hlýtur að vera álitamál á hverjum tíma. Stundum kann að vera rétt að heimila þeim þá hækkun sem þeir biðja um vegna sérstakra aðstæðna eins og oft vill verða þegar t. d. fjármagnskostnaður eykst verulega, þegar dollarinn hækkar mikið í verði og lán fyrirtækisins eru bundin í dollurum o. s. frv. Þá reynir ekkert á þessi lög. En þegar ríkisstj. þarf að takmarka þessar hækkanir verður einhver slík heimild að vera fyrir hendi. Mér er ómögulegt að skilja að hæstv. iðnrh. skuli sækja það af ofurkappi að koma slíkri heimild út úr löggjöf landsins. Ég vil því eindregið mælast til þess við hv. deild að hún láti skynsemina ráða í þessu máli og felli ekki þetta frv. heldur veiti því brautargengi þannig að það fái eðlilega meðferð í hv. Nd.