21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3961 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

42. mál, orkulög

Frsm. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera stutta aths. vegna ummæla hv. formanns iðnn., hv. 4. þm. Vestf., um það að ég hefði verið að blanda skoðunum og afstöðu Davíðs Aðalsteinssonar, 5. þm. Vesturl., inn í umr. áðan. Það var af og frá að ég væri að gera það, heldur var ég eingöngu að undirstrika að ég teldi að Framsfl. hefði staðið óskiptur bak við afgreiðsluna á brbl. Þá skoðun hef ég enn þá.

Aftur á móti er alrangt að Davíð Aðalsteinsson hafi gefið einhverja yfirlýsingu um afstöðu sína til málsins við 1. umr. málsins. Meira að segja lýsti hann því yfir að hann hefði talið að eðlilegt væri að samþykkja þetta mál á síðasta þingi. Vil ég leyfa mér að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, það sem hv. þm. Davíð Aðalsteinsson sagði:

„Þegar umr. um það frv. átti sér stað lýsti ég því yfir að meðan héraðsrafmagnsveitur, hitaveitur — og Rafmagnsveitur ríkisins raunar líka þyrftu að fá samþykki ráðh. fyrir sínum gjaldskrám, þá væri ekki óeðlilegt að Landsvirkjun þyrfti einnig að fá staðfestingu ráðh. á sinni gjaldskrá.“

Það er alrangt að telja að Davíð Aðalsteinsson hafi lýst einhverri ákveðinni afstöðu í þessu máli við þá umr. sem átti sér stað í hv. deild við 1. umr. þessa máls.

Í öðru lagi taldi hv. 4. þm. Vestf. mig vera bjartsýnan að búast við því að þetta mál fengi umr. í Nd. Ég vil þá undirstrika bjartsýni mína. Ég vænti þess að hv. Ed. afgreiði þetta mál á þann máta að það verði samþykkt og að eftir þá afgreiðslu muni málið fá umr. í Nd.