21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3961 í B-deild Alþingistíðinda. (3376)

42. mál, orkulög

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Mér finnst satt að segja ótrúlegt hvernig hæstv. iðnrh. leyfði sér að tala um þetta mál. Hann talar um það með þeim hætti að maður gæti haldið að hann vissi ekki betur, en því trúi ég ekki þegar um er að ræða mann sem er búinn að vera iðnrh. í bráðum heilt ár.

Staðreyndin er sú að það féllu úr gildi verðstöðvunarlög sem staðið höfðu allt frá 1970. Þau féllu úr gildi um áramótin 1981–82. Þá var því lýst yfir af stjórn Landsvirkjunar að hún teldi sig með öllu óbundna af fyrirmælum ríkisstj. um verðlagsmál. Þetta var rætt og athugað af lögfræðilegum ráðunautum ríkisstj. og var talið að staðreynd væri að ákvæðin í orkulögum næðu ekki til Landsvirkjunar. Þó að ákvæðin í orkulögum um samþykki ríkisstj. við taxtabreytingu gætu átt við sveitarfélögin, og nú bið ég hæstv. ráðh. að taka eftir, var ekki talið að ákvæði orkulaga næðu til Landsvirkjunar. Þess vegna hélt Landsvirkjun því fram og studdi það mjög ákveðnum lögfræðilegum rökum, að hún væri með öllu óbundin af verðlagsákvæðum. Hins vegar tókst að leysa þessi mál á árinu 1982, án þess að til árekstra kæmi, með samkomulagi milli ríkisstj. og Landsvirkjunar. Það varð þá úr að láta reyna á hvort hægt væri að leysa málin með samkomulagi almennt. Verðákvarðanir á árinu 1982 áttu sér stað líklega a. m. k. tvisvar ef ekki þrisvar án þess að til árekstra kæmi þrátt fyrir að Landsvirkjun hefði að forminu til heimild til að breyta sinni gjaldskrá eftir eigin ósk. Þegar kemur fram á árið 1983 er Landsvirkjun búin að fá feiknalega miklar hækkanir eða töluvert á annað hundrað % á skömmum tíma. Hún var þá búin að fá þrjár hækkanir, sem voru af stærðargráðunni milli 25 og 29%, hverja ofan á aðra. Það var skoðun ríkisstj. að við þær aðstæður sem ríkjandi voru í efnahagsmálum þjóðarinnar væri ekki stætt á því að bæta nýrri 29% hækkun ofan á þær sem fyrir voru. Á þetta gat stjórn Landsvirkjunar ekki fallist og það var alveg ljóst að ekki var hægt að stöðva þessa hækkun öðruvísi en að sett væru lög sem heimiluðu orkuráðh. að hafa þarna afskipti af.

Það er hins vegar rétt hjá hæstv. ráðh. að heimildin í orkulögum nær til fyrirtækja sveitarfélaganna og heimildin í orkulögum veitir því ráðh. aðstöðu til að hindra óhóflegar hækkanir sveitarfélaga, sem reka orkuveitur, en Landsvirkjun er frí og frjáls nema sett séu lög sem heimila ríkisstj. að hafa þar taumhald á. Þess vegna greip ég fram í áðan og nefndi Landsvirkjun, að ef þessi lög verða ekki samþykkt verður Landsvirkjun eina opinbera fyrirtækið sem er algerlega frjálst um sína verðlagningu og getur leyft sér að taka hvaða ákvarðanir sem því sýnist, bæði um útgjöld og einnig um tekjur. Það fordæmi ég vegna þess að hér er um að ræða einokunarfyrirtæki. Það er ekki sagt í niðrandi merkingu því að vissulega erum við öll sammála um að ekki er heppilegt að hafa rafmagnsdreifinguna á hendi margra aðila á sama svæðinu. Þannig verður þetta að vera. En þá verða líka opinberir aðilar að hafa þar taumhald á.

Ég ítreka að ef hæstv. ráðh. er ekki ljóst og hefur ekki kynnt sér það með viðræðum við lögfræðilega ráðunauta sína að við fall þessara brbl. fær Landsvirkjun lausan tauminn, þá ætti hann að sjálfsögðu að taka málið til endurskoðunar, taka sína fyrri afstöðu til endurskoðunar. Þá eru brostnar forsendur fyrir yfirlýsingum hans hér í Ed. um þetta mál. Hann verður ekkert minni maður af því að taka afstöðu sína til endurskoðunar. Það er greinilegt að hann hefur ekki gert sér fulla grein fyrir afleiðingum þess að þetta frv. verði fellt hér í Ed. Mér finnst því að hann ætti að óska eftir því að afgreiðslu málsins yrði frestað þar til hann hefði kynnt sér þennan þátt málsins betur.