21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3962 í B-deild Alþingistíðinda. (3377)

42. mál, orkulög

Jón Sveinsson:

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í þessum umr. að ég hef í fjarveru Davíðs Aðalsteinssonar tekið þátt í meirihlutaáliti þar sem lagt er til að brbl. um breytingu á orkulögum verði felld. Það hefur verið gert að umtalsefni líka hver afstaða Davíðs Aðalsteinssonar sé í þessu máli. Um hana get ég út af fyrir sig ekki talað sérstaklega því að mér er ekki kunn hans afstaða, a. m. k. ekki um þessar mundir. Hins vegar taldi ég að ég hefði algerlega frjálsar hendur við afgreiðslu þessa máls, hafði ekki fengið neinar ábendingar um hver væri eðlileg afstaða Davíðs í þessu efni, enda tel ég að hún skipti mig í sjálfu sér ekki máli. Ég kem hér sem varamaður hans og taldi að ég gæti greitt atkv. skv. minni sannfæringu og það gerði ég vissulega með þátttöku í þessu nál. Afstaða mín byggist fyrst og fremst á því að lögin eigi alls ekki rétt á sér, orkufyrirtæki eigi að ráða sinni verðlagningu sjálf, svo einfalt er það mál.

Ég vil líka geta þess í þessu sambandi að við setningu brbl. hverju sinni hefur sá ráðh. sem að setningu brbl. stendur enga tryggingu fyrir því fyrir fram hver afstaða þingsins muni vera þegar þar að kemur. Trygging fyrir fram á milli þinga getur því ekki ein sér tryggt að brbl. nái fram að ganga. Ég er þess vegna ekki sammála þeirri skoðun, sem hér kom fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds, að frá þessu máli hafi verið gengið í síðustu ríkisstj.

Ég vil geta þess að endingu að innan Framsfl. hafa menn rétt á því að hafa sína skoðun og sína afstöðu. Okkur greinir kannske á, mig og Ragnar Arnalds, í því efni, þar sem þeir vinnusiðir eru kannske ekki hafðir á bæ Alþb. En við framsóknarmenn förum eftir okkar eigin sannfæringu og það gerði ég í þessu máli og þess vegna legg ég til að þetta frv. verði fellt.