21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3972 í B-deild Alþingistíðinda. (3393)

188. mál, umferðarlög

Frsm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Allshn. þessarar hv. deildar hefur haft til umfjöllunar frv. til l. um breytingu á umferðarlögum. Efni þessa frv. er það að sé ekki hlýtt fyrirmælum laga um notkun bílbelta varði það viðurlögum. Gildandi lög eru þannig að vanræksla á því að nota bílbelti varði ekki viðurlögum fyrr en lokið er þeirri endurskoðun umferðarlaga sem umferðarlaganefnd vinnur nú að og hefur unnið að í býsna mörg ár. Þegar þetta ákvæði var sett í lög bjuggust menn við að þessari endurskoðun mundi ljúka heldur fljótt og þess vegna yrði þetta mjög tímabundið. Þetta hefur dregist og þess vegna var þetta frv., að ég hygg, flutt. Nefndin hefur fjallað um það allítarlega og mælir með því að það verði samþykkt með breytingu, sem flutt er á sérstöku þskj., þess efnis að þetta ákvæði taki gildi 1. júní á þessu ári, þ. e. að það sé nokkur umþóttunartími, þetta sé ekki látið taka gildi þegar í stað þannig að fólk hafi tíma til að átta sig á þessu.

Hvarvetna hefur komið í ljós að ákvæðin um notkun bílbelta eru marklítil eða marklaus ef ekki fylgja viðurlög. Gildir það sjálfsagt um margvísleg önnur lagaákvæði einnig að viðurlög eru nauðsynleg til þess að menn hlíti lögunum. Það er kannske illt að þurfa að segja það, en þetta er engu að síður sjálfsagt bara mannlegt eðli sem á sér sínar eðlilegu skýringar.

Ég gæti talað býsna langt mál um ágæti þessa frv. og ágæti þess að nota bílbelti. En þar sem nú er mjög liðið á fundartímann mun ég nú ekki lengja mál mitt mjög. Ég vil aðeins, virðulegi forseti, vekja athygli hv. þdm. á skoðanakönnun sem birt er í Dagblaðinu og Vísi í dag. Þó að slíkar skoðanakannanir séu sannarlega enginn allsherjar vísdómur bendir ýmislegt til að þær séu a. m. k. leiðbeinandi og gefi til kynna í stórum dráttum hug fólks til þess máls sem kannað er.

Þessi skoðanakönnun fjallaði um það hvort ætti að beita viðurlögum varðandi vanrækslu við notkun bílbelta. Úrtakið mun hafa verið 600 manns. Með leyfi forseta, langar mig að vitna í þessa könnun:

Fylgjandi sektum voru 307 eða 51.2%, þ. e. meiri hl. allra sem spurðir voru, andvígir 232 eða 38.7%, óákveðnir 36 eða 6% og 25 vildu ekki svara eða 4.2% . Ef aðeins er litið til þeirra sem tóku afstöðu eru 57% fylgjandi og 43% andvígir. Þetta kom mér nokkuð á óvart. Ég hélt að e. t. v. væri andstaða gegn sektum við þessu meiri en þetta gefur til kynna.

Ég held að ekki fari á milli mála að notkun bílbelta sé áhrifaríkasta, öruggasta og ódýrasta slysavörnin í umferðinni sem menn eiga kost á. Um það verður, held ég, ekki deilt. Það er líka staðreynd að notkun þessara mikilvægu öryggistækja verður aldrei almennt útbreidd fyrr en viðurlög koma til sögunnar. Það sýnir reynslan okkur frá fjölmörgum löndum og væntanlega sýnir reynslan okkur það einnig hér.

Ég vil nefna undir lokin tölur sem eru í norrænni skýrslu sem gefin var út í tilefni af norræna umferðaröryggisárinu í fyrra. Þær tölur eru býsna athyglisverðar. Þær eru um banaslys í umferðinni á árabilinu frá 1970-1981. Þá voru öryggisbelti í notkun á öllum Norðurlöndunum nema hér. Í Finnlandi fækkaði banaslysum um 47%, í Noregi um 40%, í Svíþjóð um 40%, í Danmörku um 45% eða að meðaltali um 43% í þessum fjórum löndum. En hvað skyldi hafa gerst hér á Íslandi á þessum sama tíma? Þá fjölgaði banaslysum í umferðinni um 20% skv. upplýsingum sem ég fékk hjá Umferðarráði í dag. Framkvæmdastjóri Umferðarráðs lýsti þeirri skoðun sinni aldeilis óhikað að það sem réði þessari fækkun á Norðurlöndunum væri vaxandi bílbeltanotkun og þessari aukningu hér aukning umferðar jafnframt því sem menn hafa hér ekki notað bílbelti.

Ég vildi víkja að því undir lokin að ég held að það sé athugunarefni og raunar sjálfsagt að stíga eitt skref í einu í þessu máli eins og öðrum. En ég held að það komi að því áður en varir að við eigum að lögbinda notkun öryggisbelta einnig í aftursætum fólksbifreiða. Reynslan og rannsóknir, bæði á Norðurlöndunum og annars staðar, benda til þess að beltin séu ekki síður nauðsynleg í aftursætum bifreiða. Í öðru lagi held ég að líka sé ástæða til að hugleiða hvort ekki er beinlínis ýmsum kann að finnast hér heldur langt gengið — ástæða til að lögbinda það að séu börn undir ákveðnum aldri farþegar í bifreið skuli þau vera í þar til samþykktum öryggisstólum, öryggiskörfum ef um ungabörn er að ræða eða í bílbeltum sem eru sérstaklega við þeirra hæfi. Ég held að þetta hljóti mjög fljótlega að koma hér til athugunar vegna þess að allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu benda eindregið til þess að þessa sé þörf líka.

Vegna þess hve langt er liðið á fundartímann, virðulegi forseti, ætla ég ekki að hafa um þetta fleiri orð. En allshn. mælir einróma með því að þetta frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef áður gert grein fyrir.