21.03.1984
Neðri deild: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3975 í B-deild Alþingistíðinda. (3397)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Við afgreiðslu þessa máls í Ed. stóð Alþfl.brtt. með öðrum fulltrúum stjórnarandstöðunnar þar í deildinni, þar sem gert var ráð fyrir því að ný neyslukönnun færi fram sem fyrst og að henni yrði hagað þannig að úr henni mætti lesa neyslusamsetningu þess fjórðungs, sem lægstar tekjurnar og bágust kjörin hefur hér á landi, og í þriðja lagi að neyslukannanir færu fram reglulega á þriggja ára fresti.

Í umr. hér í Nd. kom fram eindregin ábending frá ýmsum þm. um að þessi neyslukönnun sýndi jafnframt samsetningu neyslunnar eða breytileika eftir landshlutum.

Hér hefur hæstv. ráðherra hagstofumála gefið yfirlýsingu um að hann muni ganga mjög langt til móts við þessi sjónarmið, nefnilega sjá til þess að ný neyslukönnun fari fram sem allra fyrst og að henni verði hagað í samræmi við þær óskir sem fram hafa komið um að neyslusamsetning þess fjórðungs, sem lægstar hefur tekjurnar, og eins neyslusamsetning eftir landshlutum væri sundurgreinanleg.

Með þá vitneskju í huga að yfirlýsing af þessu tagi væri væntanleg undirritaði ég þetta nál. með fyrirvara. Í trausti þess að ráðh. fylgi fast eftir þeirri yfirlýsingu, sem hann hefur hér gefið, ítreka ég meðmæli mín með því að frv. verði samþykkt.