21.03.1984
Neðri deild: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3975 í B-deild Alþingistíðinda. (3398)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í hv. deild urðu nokkrar umr. um nauðsyn þess að afla víðtækari upplýsinga um það hvernig neysla og útgjöld þjóðarinnar skiptast eftir tekjuhópum og landshlutum. Við ýmsir þm. létum þá skoðun í ljós að það væri brýn nauðsyn að fá hið fyrsta yfirlit yfir hve mismunandi útgjöldin eru hjá íbúum ólíkra landshluta og byggðarlaga innan landshluta og ólíkum tekjuhópum.

Nú hefur þessi umr. orðið til þess að hæstv. viðskrh. hefur gefið hér út yfirlýsingu þess efnis að hann muni, væntanlega þá fyrir árið 1985, ég skil hans yfirlýsingu svo, láta fram fara neyslukönnun sem framkvæmd verði með þeim hætti að nákvæmar upplýsingar fáist um ólík neyslumunstur fólks eftir landshlutum og tekjuhópum. Þessari yfirlýsingu ber vissulega að fagna.

En ég er enn þeirrar skoðunar að æskilegt væri að láta fram fara þegar á þessu ári bráðabirgðaneyslukönnun, sem gæti t. d. hafist 1. maí og stæði í þrjá til fjóra mánuði, til þess að veita þó ekki væri nema grófa mynd af því hvernig þessi mismunur er í reynd. Það liggur ljóst fyrir að á slíkri könnun verður ekki byggð nein vísitala. En hún gæfi þó alláreiðanlegan umræðugrundvöll um muninn á þeirri vísitölu, sem beitt er nú og byggð er á neysluvenjum fyrir u. þ. b. 5 árum, og síðan þeim neysluvenjum sem tíðkast í okkar þjóðfélagi í dag og við vitum öll að eru allt öðruvísi hjá mörgum þjóðfélagshópum en voru 1978.

Ég vildi þess vegna beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hvort hann er reiðubúin til að beita sér fyrir því að sömu aðilar og hann tiltekur í sinni yfirlýsingu láti fram fara þegar á þessu ári bráðabirgðakönnun á neysluvenjum sem taki til þriggja, fjögurra eða fimm mánaða eftir því sem ákveðið verður, svo að niðurstöður liggi fyrir þegar þingið kemur saman til funda næsta haust. Ég held tvímælalaust að það yrði ríkisstj. og þinginu til mikils hægðarauka og öllum umræðum um kjör fólksins í landinu til mikillar styrktar að fá niðurstöður úr slíkri athugun. Ég tek það skýrt fram að mér er fullljóst að á slíkri könnun verða ekki byggðir formlegir útreikningar á vísitölu. En slík könnun gæti orðið mjög ákjósanlegur umræðugrundvöllur um hið ólíka neyslu- og lífsháttamynstur, sem orðið er fast í sessi hér í landinu, bæði eftir tekjuhópum og eftir landshlutum.

Ef hæstv. ráðh. væri reiðubúinn til að bæta við þá yfirlýsingu sem hann gaf hér annarri yfirlýsingu þess efnis að hann muni beita sér fyrir því að framkvæmd væri slík bráðabirgðakönnun á þessu ári, hún gæti líka verið mjög æskileg forkönnun fyrir aðalkönnunina árið 1985, svo maður vísi nú til fræðilegra vinnubragða um þessi efni, þá teldi ég vel að verki staðið og óþarft að flytja formlegar brtt. við þetta frv. En ef málið væri eingöngu skilið eftir þannig, að þessi yfirlýsing ein sé látin standa og við yrðum þess vegna að bíða til fyrri hluta árs 1986 með að fá nýjar upplýsingar um neysluvenjur og útgjaldavenjur í landinu, þá tel ég það allt of langan tíma. Sú yfirlýsing sem hæstv. ráðh. gaf hér felur það í sér að það verður ekki fyrr en á fyrri hluta eða um mitt ár 1986 sem fyrir liggja upplýsingar um neysluvenjur eftir tekjuhópum og eftir landshlutum. Aftur á móti ef farin væri sú leið sem ég er hér að benda á, þá væri hægt þegar á seinni hluta þessa árs að hafa alláreiðanlegan umræðugrundvöll um mismunandi útgjaldamynstur eftir landshlutum og tekjuhópum.