21.03.1984
Neðri deild: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3979 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég er sammála hv. 3. þm. Reykv. um það að þegar einn ráðh. gefur yfirlýsingar undir slíkum kringumstæðum, afgreiðslu máls á Alþingi og forsendu fyrir því, séu ráðh. hverjir svo sem koma til með að gegna þeim starfa, af því bundnir. Ég get í leiðinni sagt við hv. 3. þm. Vestf. að ég á ekki von á neinni „traffík“ í viðskrn. á næstu árum þannig að hann þarf ekki að óttast að ekki verði við þetta staðið.

Út af umr. sem hér spunnust og því sem hv. 7. þm. Reykv. og 3. þm. Reykv. voru að ræða mun ég eftir þessar umr. tjá Hagstofunni og Kauplagsnefnd að fram hafi komið á Alþingi óskir um að bráðabirgðaathugun skv. 3. gr. frv. fari fram svo fljótt sem auðið er. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að slíkar athuganir krefjast nokkurs undirbúnings til þess að marktækar megi verða.

Ég er sammála hv. 3. þm. Reykv. er hann sagði áðan að við afgreiðslu slíkra mála á Alþingi er mjög þýðingarmikið að samstaða takist á milli stjórnmálaflokkanna. Ég vonast til þess að þm. geri sér grein fyrir að með því sem sagt hefur verið af hálfu þess ráðh. sem fer með málefni Hagstofunnar er það viljayfirlýsing um að svo geti orðið.